Nýtt viskí með íslensku vatni á markað

Ljósmynd/Aðsend

Áfengisframleiðandinn Pure Spirits í Borgarnesi hefur sett á markað Grábrók sem er einstakt 8 ára gamalt skoskt viskí með íslensku vatni.

Viskíið í Grábrók er framleitt í Skotlandi, eftir skoskum hefðum, og flutt til Íslands þar sem það er blandað með tæru íslensku vatni úr vatnslindinni Grábrók í Borgarfirði.

Með því að tvinna saman aldagamlar margverðlaunar viskí hefðir frá Skotlandi og íslenskt vatn, sem nýtur náttúrulegrar filtrunar í gegnum þúsund ára gamalt hraun, sameinast það besta frá báðum löndum sem síðan verður að hinu mjúka og ljúfa viskíi Grábrók.

Lengi dreymt um að koma þessu á markað

„Við höfum í gegnum tíðina séð að íslenska vatnið, sem er að okkar mati besta vatn í heimi, blandast vel með sterku áfengi og hafa vörur framleiddar í verksmiðju okkar í Borgarnesi fengið viðurkenningar og unnið til verðlauna víða um heim,“ segir Magnús Arngrímsson, framkvæmdastjóri Pure Spirits, í fréttatilkynningu. 

„Við erum að framleiða um 30 tegundir af vinsælu sterku áfengi sem fer víða um heim. Virkilega gott viskí með íslensku vatni er eitthvað sem okkur hefur lengi dreymt um að koma á markað. Fyrir tæpum 10 árum ákváðum við láta draum okkar verða að veruleika og fórum í þá vinnu að þróa Grábrók,“ segir Magnús.

„Það hefur þurft mikla þolinmæði í þetta vandasama verk sem það er að þróa gott viskí. Viskíið hefur fengið að þroskast á tunnum í 8 ár og hefur nú náð þeim gæðum að það er tilbúið til að setja á flöskur og njóta. Viðtökurnar hafa verið framar björtustu vonum og því mikið gleðiefni að geta loksins boðið upp á Grábrók í Vínbúðunum.“

mbl.is