Þriðjudagstilboð Domino’s hækkar um 100 krónur

Dominos er langvinsælasta og stærsta pizzakeðja landsins.
Dominos er langvinsælasta og stærsta pizzakeðja landsins. Morgunblaðið / Ómar Óskarsson

Það hefur vakið athygli í dag að ein helsta kjölfesta vísitölunnar hér á landi hefur hækkað í verði og voru viðbrögð gárunganna á Twitter æði skemmtileg og var því meðal annars spáð að nýtt hrun væri í vændum. Að sögn Magnúsar Hafliðasonar, forstjóra Domino’s er þetta fyrsta hækkunin á þriðjudagstilboðiðinu fræga verði í rúman áratug þrátt fyrir að vísitala neysluverðs hafi hækkað um 42% á sama tíma. 

„Þriðjudagstilboð Domino‘s hóf göngu sína árið 2010 og hefur notið gríðarlegra vinsælda frá fyrsta degi. Á þeim tíma var ekkert þriðjudagstilboð á markaðnum. Í dag má sjá samskonar tilboð hjá flestum pizzastöðum en einnig hafa ýmsar útgáfur af þriðjudagstilboði komið fram hjá fjölmörgum öðrum aðilum á veitingamarkaði. Það segir margt um þau góðu áhrif sem Domino‘s hefur haft á verðlag á markaðnum,“ segir Magnús og bætir við að á þessum 11 áfum hafi innihald og verð tilboðsins haldist óbreytt; miðstærð af sóttri pítsu með þremur áleggstegundum.

„Á sama tíma hefur vísitala neysluverðs hækkað um 42% samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Hefði verðið haldið í við verðlag væri það því á 1.400 kr í dag. Við þetta má bæta að í kortunum eru talsverðar hækkanir á kostnaði, meðal annars vegna hækkandi verðlags á heimsmarkaði

Frá og með deginum í dag mun þriðjudagstilboð Domino‘s hækka úr 1.000 kr. og verða 1.100 kr. „Það er aldrei gleðiefni þegar hækka þarf verð en tilboðið er eftir sem áður mjög hagstætt fyrir viðskiptavini í samanburði við annað sem í boði er á markaðnum. Við finnum það líka á þeim viðbrögðum sem við höfum fengið í dag, það virðist ríkja skilningur á þessari hækkun. Það hefur verið og mun áfram vera markmið Domino‘s að bjóða viðskiptavinum hámarks virði og munum við kappkosta að svo verði áfram, til hagsbóta fyrir íslenska neytendur.“

Magnús Hafliðason, forstjóri Domino’s Pizza á Íslandi.
Magnús Hafliðason, forstjóri Domino’s Pizza á Íslandi. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert