Ketó brauðblanda verður brauð blanda – Ný og unnin frá grunni

Komin er á markað ný brauðblanda frá Kaju Organics sem kemur í stað ketó-brauðblöndunnar. Um er að ræða ofurspennandi vöru þar sem lúpínumjöl er óspart notað en það hefur ekki verið mikið notað hér á landi.

„Í upphafi keyptum við tilbúna brauðblöndu frá Þýskalandi en þar sem birgirinn okkar hætti með blönduna ákváðum við að gera hana sjálf frá grunni og fá lífræna vottun á herlegheitin. Þrjár afurðir hafa verið í sölu undir merkjum Kaju, það eru ketóbrauðblanda, ketóbrauð og hrökkbrauð,“ segir Karen Jónsdóttir hjá Kaju Organics.

„Í dag kaupum við inn fræ í stórpakkningum, mölum og blöndum sjálf. Með því höfum við náð enn betri gæðum í brauðblönduna okkar, það sama á við með brauðin okkar svo og hrökkbrauðið.“

„Við notum meira af lúpínumjöli en áður en það er mjög próteinríkt auk þess að vera stútfullt af steinefnum og vítamínum. Lúpínumjöl er einnig talið hemja ákveðnar krabbameinsfrumur. En hér er einmitt komin vettvangur til þess að nýta íslensku lúpínuna og athuga hvort ekki sé hægt að búa til mjöl úr fræjum hennar,“ segir Kaja, og ljóst er að hér er um mikil tíðindi að ræða fyrir neytendur.

„Í dag eru brauðin okkar seld í Fjarðarkaupum, Heilsuhúsinu Lágmúla og Kringlunni og fara þau alltaf nýbökuð á mánudögum í höfuðborgina.“

„Eini gallinn við lúpínumjölið er að afurðir okkar verða ýmist fagurgrænar á litinn eða grænbrúnar eftir því hvaða afurð á í hlut. En allt er vænt sem vel er grænt, stóð einhvers staðar,“ segir Kaja, en eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru það orð að sönnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert