Svona notar þú undraefnið Rodalon

mbl.is/Colourbox

Rodalon er orð sem kemur alltaf reglulega upp í umræðuna þegar þarf að eyða lykt. Rodalon er lyktarlaus og sótthreinsandi vökvi sem inniheldur ekki klór. Rodalon er sérstaklega öflugt gegn vondri lykt og myglu en hafa ber í huga að efnið virkar ekki með sápu.

Ef vond lykt er komin í föt, skó eða handklæði er gott að sótthreinsa þau með Rodaloni. Engar sápuleyfar mega vera í fatnað við notkun Rodalons svo best er að skola fötin vel áður en lagt er í bleyti upp úr Rodaloni. Látið liggja í blöndu 1:10 í 30 mínútur. Skolið síðan vel með vatni eða setjið í þvottavélina. Farið sérstaklega varlega með viðkvæm efni þar sem sum þeirra, t.d. silki, þola ekki efnið.

Ísskápurinn

Þrífa má ísskápinn með Rodaloni. Þá er efnið blandað í vatn, 1:10, skápurinn þveginn og skolaður með vatni. Einnig er gott að sóttheinsa skurðarbretti, borð, tuskur og önnur áhöld reglulega. Blandið 1:10 Rodalon og vatn. Leggið í bleyti í 10 til 20 mín og skolið síðan vel með vatni.

Rodalon í uppþvottavélina og þvottavélina

Þessar vélar þarf að sótthreinsa öðru hverju. Best er að þrífa sápuhólfið vel og setja vélina á skol áður en settir eru í hana 2 dl af Rodalon og vélin látin á stutt 30°C-40°C prógramm.

Rodalon til að losna við myglusvepp, bakteríur eða vonda lykt

Blandið 1:10, leggið í bleyti eða þrífið viðkomandi svæði. Svæðið, fatnaðurinn eða vélin má ekki hafa neinar sápuleifar, því er best að skola vel með vatni áður en lagt er í bleyti.

mbl.is