Viðtökurnar framar vonum

Matvælaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, afhjúpaði nýtt upprunamerki fyrir matvörur og blóm, Íslenskt staðfest, í Hörpunni í vikunni og segir Erla Hjördís Gunnarsdóttir, sem er í verkefnahóp fyrir merkið, að viðtökurnar hafi verið framar vonum. Nú þegar séu komnar nokkrar umsóknir og fjölmargar fyrirspurnum frá áhugasömum aðilum sem hyggjast nýta sér merkið á sínar umbúðir.

Íslenskt staðfest er nýtt upprunamerki fyrir matvörur og blóm sem eru framleiddar og pakkað á Íslandi. Merkið mun auðvelda neytendum að velja íslenskt, en til að mega nota merkið þurfa framleiðendur að ábyrgjast að hráefni sé íslenskt og framleiðsla og pökkun hafi farið fram á Íslandi. Kjöt, egg, sjávarafurðir og mjólk skal í öllum tilfellum vera 100% íslenskt. Allt að 25% innihalds í blönduðum/unnum matvörum má vera innflutt.

Nokkrar umsóknir borist

Bændasamtök Íslands eiga og reka merkið. Vottunarstofan Sýni sér um úttektir hjá þeim fyrirtækjum sem kjósa að nota merkið. Enginn má nota merkið nema hafa til þess leyfi sem sótt er um sérstaklega, gangast undir staðal merkisins og uppfylla opinberar kröfur til sinnar starfsemi.

„Það er alveg ljóst að neytendur vilja skýrar upplýsingar um uppruna matvöru og betri upprunamerkingar. Viðbrögðin við merkinu hafa verið framar vonum og strax í kjölfarið af kynningunni á því fengum við umsóknir frá framleiðendum sem vilja nota merkið á sínar vörur. Fjölmargar fyrirspurnir, úr öllum áttum, hafa borist okkur í vikunni og er það afar ánægjulegt að geta loksins boðið upp á slíkt merki sem neytendur geta treyst,“ segir Erla Hjördís.

Staðfest.is

Erla Hjördís Gunnarsdóttir
Erla Hjördís Gunnarsdóttir
mbl.is