Heimagerður hreinsiúði sem virkar

Mbl.is/koipoia.blogspot.com

Heimagerð hreinsiefni eru fremur einföld og það jákvæða er að þau virka yfirleitt frekar vel auk þess að vera umhverfisvæn og ódýr.

Hér er uppskrift að hreinsiúða sem inniheldur í grunninn edik. Ástæða þess að edik virkar svo vel er að það hefur lágt sýrustig sem leysir upp óhreinindi og sápuleyfar.

Edikið er líka náttúrulegur lyktareyðir sem dregur í sig lyktina en hylur hana ekki. Edik lyktin hverfur svo um leið og það þornar. Þar sem það eru engin litarefni í ediki skilur það ekki eftir neinn lit í fúgunni mill flísa.

Heimagerður hreinsiúði

  • 1 bolli borðedik
  • 1 bolli vatn

Þessa lausn má nota í eldhúsinu til að þrífa eldhúsbekkina, helluborð og hellur og veggi. Á baðherberginu nýtist lausnin til að þrífa borðin á innréttingum, gólfin, sturtur, utan á salernisskálum og næstum hvað sem er. Ef flöturinn er mjög óhreinn er ráð að verma lausnina þangað til hún verður volg, sprauta á flötin og láta standa í 10-15 mínútur og nudda svo óhreinindin af.

Óblandað edik

Óblandað borðedik, beint úr brúsanum, leysir erfiðari þrifvandamál á augabragði. Notið óblandað borðedik til þess að þrífa innan úr salernisskálinni. Byrjið á því að hella kröftuglega úr fötu af vatni til þess að tæma skálina af vatni. Hellið edikinu um skálina og notið klósettbursta til að hreinsa burt óhreinindi og lykt.

Ef sturtuhausinn hefur stíflast vegna uppsöfnunar steinefna og kalks er hægt að nota óblandað edik til að bjarga málunum. Settu ¼ til ½ bolla af ediki í poka, settu hausnum ofan í og láttu standa í minnst tvo tíma, helst yfir nótt. Skolaðu svo hausinn og nuddaðu hann til að fá fallegan gljáa.

mbl.is