Svona bjargar þú skónum þínum

Það er kominn tími til að dusta rykið af skónum sem hafa legið í dvala yfir veturinn og öskra á athygli innst inni í fataskáp. Þeir vilja komast út til að sýna sig og sjá aðra. Eflaust þurfa einhver af skópörunum smá kærleika til að verða sem ný á ný.

Strokleður

Hvítt strokleður er eins og töfrateppi fyrir skóna þína. Notaðu hvítt strokleður til að fjarlægja dökka bletti á rúskinnsskóm, en byrjaðu alltaf varlega áður en þú strokar út allan skóinn. 

Naglalakksleysir

Naglalakksleysir er snilldin ein á gúmmískó, t.d. á gúmmítá á klassískum strigaskóm þar sem þeir verða oftast skítugir.

Vax

Notaðu vax til að bera á strigaskó, vaxið gerir skóna vatnsþéttari. Nuddaðu vaxinu jafnt yfir allan skóinn.

Naglaþjöl

Erfiðustu blettina á rúskinnsskóm má oftast fjarlægja með naglaþjöl. Farðu samt varlega með þjölina svo þú skemmir ekki rúskinnið.

Hárnæring

Til að redda sér fyrir horn má auðveldlega grípa í hárnæringarbrúsann til að fríska upp á leðurskó. Prófaðu þig samt áfram á innanverðum skónum og haltu svo áfram hringinn.

Dagblað

Gamalt húsráð til að fá skó til að glansa er að nudda gömlu dagblaði á skóna þar til þú hefur fengið þá áferð sem þú óskar eftir.

Edik

Notaðu hvítt edik til að ná þurrum vatnsblettum af t.d. leðurstígvélum. Notaðu góða skófitu þar á eftir.

Tannkrem

Enn og aftur kemur tannkremið til bjargar. Hvítt tannkrem gerir kraftaverk á skítugum skóm – þú munt ekki trúa því nema prófa.

Ilmpokar

Það er agalegt að henda góðum skóm þó að þeir lykti illa. Prófaðu þess í stað að kaupa ilmpoka sem fást víða í verslunum og geymdu í skónum þegar þeir eru ekki í notkun.

Töfrasvampurinn

Svampurinn sem nær öllu af. Skyldueign skóeigenda!

mbl.is