Fjórtán ára bakari vekur athygli

Sigurbjörg Helgadóttir veit fátt skemmtilegra en að baka og er …
Sigurbjörg Helgadóttir veit fátt skemmtilegra en að baka og er orðin verulega flink.

Tvö áhugamál eru í fyrirrúmi hjá Sigurbjörgu Helgadóttur, sem verður fimmtán ára í haust. Annars vegar eru það hestar og hins vegar bakstur, en Sigurbjörg hefur fengið að baka með mömmu sinni frá því hún var lítil. Nú þarf hún ekki lengur hjálp við baksturinn, en kökurnar hennar jafnast á við þær glæsilegustu sem fást hjá atvinnubökurum.

Súkkulaðikakan hennar Sigurbjargar svíkur engan.
Súkkulaðikakan hennar Sigurbjargar svíkur engan.

Ekki aftur snúið

„Mamma leyfði mér alltaf að baka með sér þegar ég var lítil og mér fannst það svo gaman.

Svo, þegar ég var tólf ára, langaði mig að gera afmæliskökuna mína alveg ein og af því ég er í hestum vildi ég gera hestaköku. Ég skoðaði myndbönd á YouTube og bakaði svo kökuna sem heppnaðist vel. Þá komst ég að því að ég var svolítið góð í þessu,“ segir Sigurbjörg og segir að þá hafi ekki verið aftur snúið.

„Ég er búin að gera margar kökur síðan. Einu sinni gerði ég sirkusköku sem var eins og sirkustjald og það er flottasta kaka sem ég hef bakað,“ segir Sigurbjörg og segist vera orðin mun betri í kökuskreytingum en móðir hennar.

Þessi flotta kaka er eins og krúttlegur refur.
Þessi flotta kaka er eins og krúttlegur refur.

Kökur baka ég spari

Sigurbjörg setur gjarnan myndir af kökum inn á Instagram-síðu sína eða á Tiktækjum og tólum til baksturs.

„Ég á heilan lager af dóti úr búðinni Allt í köku. Ég á örugglega tuttugu matarliti og alls kyns sprautur,“ segir hún og segist gjarnan skoða myndbönd á netinu til að fá hugmyndir. „Ég fæ innblástur frá myndböndum á netinu en reyni samt að herma ekki alveg eftir, því ég vil gera kökurnar að mínum,“ segir Sigurbjörg og segist helst baka flottar kökur þegar einhver pantar hjá henni.

„Ég baka svona tvisvar í viku en kökur baka ég spari.“

Sirkuskakan er ein flottasta kaka sem Sigurbjörg hefur bakað.
Sirkuskakan er ein flottasta kaka sem Sigurbjörg hefur bakað.

Súkkulaði í uppáhaldi

Bragðið skiptir að sjálfsögðu jafnmiklu máli og útlitið og er þá súkkulaði í uppáhaldi. „Mest baka ég súkkulaðibotna því flestir vilja það. Oft er ég með súkkulaðikrem en stundum vanillukrem. Um daginn setti ég smá karamellubragð í kremið, sem var mjög gott,“ segir hún og segist hafa prófað sig mikið áfram í gegnum tíðina.

„Súkkulaðikaka með góðu súkkulaðikremi er mitt uppáhald,“ segir Sigurbjörg og segist reyna að halda eldhúsinu hreinu og snyrtilegu við baksturinn. Sigurbjörg segist vel geta hugsað sér að leggja fyrir sig bakstur í framtíðinni. „Það væri gaman að vera bakari en þá myndi ég vilja stofna mitt eigið fyrirtæki. Ég myndi alveg vilja prófa að vinna í bakaríi í sumar eða í Sætum syndum við að skreyta kökur,“ segir Sigurbjörg og segir vonast til að fá símtal frá þeim.

Blómakaka sómir sér vel í hvaða boði sem er.
Blómakaka sómir sér vel í hvaða boði sem er.

Sigurbjörg fær ekki leið á bakstri

„Mig langar alltaf að baka,“ segir hún og segir fjögurra ára bróður sinn alltaf panta að hún baki pönnukökur. Að sjálfsögðu fær hann oft ósk sína uppfyllta en einnig smá kennslu í leiðinni.

„Hann fær að brjóta eggin,“ segir hún og hlær.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert