Nýr veitingastaður opnar í Hvammsvík

Hinrik Carl Ellertsson
Hinrik Carl Ellertsson Ljósmynd/Saga Sig

Þær fregnir bárust fyrr í sumar að búið væri að opna glæsileg sjóböð í Hvammsvík en svæði hefur verið mikið í umræðunni enda mikil uppbygging þar áætluð. Færri vita þó að við sjóböðin er veitingastaðurinn Storm Bistro en þar geta gestir sjóbaðanna gætt sér á góðum mat - þá ekki síst sjávarréttasúpu sem sögð er ein sú allra besta.

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Það er matreiðslumaðurinn Hinrik Carl Ellertsson sem er maðurinn á bak við Storm Bistro og ljóst er af því að tala við hann að hugmyndirnar fyrir svæði eru úthugsaðar. Þannig hafi matseðillinn á Storm verið hannaður með einfaldleikann í huga en „það er miklu flóknara að hanna einfalda hluti,” segir Hinrik og þar tökum við heilshugar undir.

„Skúli lagði upp með að hann gæti eldað alla réttina á matseðlinum,” segir Hinrik og bætir við það sé raunveruleg áskorun þar sem að færni Skúla í eldhúsinu sé nánast engin. Útkoman er sérlega vel útfærður (og einfaldur) seðlill þar sem sjávarréttasúpan er í broddi fylkingar.

„Við seljum meira af súpunni en bjór,” segir Hinrik en tugir lítra fara af súpunni dag hvern. Súpan er sérlega bragðgóð en hún hafi verið lengi í þróun. Hún er borin fram í sérhönnuðum keramik skálum eftir einn okkar fremsta keramiklistamann, Bjarna Viðar Sigurðsson, en nær allur borðbúnaður er sérhannaður af honum fyrir Hvammsvík og var sandur og skeljar sóttur í fjöruna og brenndur í leirinn.

Ljósmynd/Saga Sig

Lögð er áhersla á gæða hráefni sem taka mið af nærumhverfi Hvammsvíkur og tekur breytingum eftir árstímum. Einnig eru í boði úrvals vín, kaffi og góðgæti í samstarfi við Brikk bakarí. Stormur Bistró, er eins og áður segir, staðsett í þjónustuhúsi Hvammsvíkur Sjóbaða með stórbrotnu útsýni inn Hvalfjörðinn og Reynivallaháls.

Jafnframt er rúmgott útisvæði umvafið náttúrunni þar sem gestir geta notið veitinga eða yljað sér við úti eldstæði. Gríma Björk Thorarensen innanhússhönnuður hannaði staðinn og skartar hann listaverkum eftir nokkra af fremstu samtímalistamönnum Íslands ásamt einstöku hangandi listaverki eftir Tomas Saransero.  Notast var við efni úr nærumhverfinu í hvívetna og má nefna sem dæmi að gólfið er í terrazzo stíl unnið úr grjóti og sandi úr fjörunni.

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

„Við höfum fengið frábærar móttökur og ekki síst gaman að sjá hvað gestir okkar hafa kunnað að meta réttina hans Hinna og ákváðum við því að taka þetta enn lengra með því að opna Storm Bistró. Hinni er meistarakokkur sem við höfum unnið með í mörg ár í Hvammsvíkinni og er hann ekki síst snillingur í að galdra fram einfalda en samt einstaka rétti og bragð.. Mæli til dæmis eindregið með þara- og engifer skotinu sem hann útbjó sérstaklega fyrir okkur,” segir Skúli Mogensen stofnandi Hvammsvíkur Sjóbaða.

Ljósmynd/Saga Sig

Innblástur Hinna

„Að ganga um svæðið í Hvammsvík er nægur innblástur fyrir 30 matreiðslubækur og 200 matarboð. Það er sama hvert maður lítur það er alltaf eitthvað sem hægt er að nýta. Sama hvort það sé bændurnir í kring sem eru að framleiða frábærar vörur, sjórinn sem umlykur allt, smekkfullur af ferskum fisk, frábærum þara eða allan þann skelfisk sem hægt er að finna í honum.

Svo eru það hlíðarnar í kring, með sínar jurtir, ber og sveppi. Að fá að gera matseðil sem reynir að ramma inn þetta umhverfi er krefjandi en jafnframt skemmtilegt verkefni.  Við lögðum upp með að matseðillinn væri einfaldur til að byrja með, en samt að allir gætu fundið eitthvað við sitt hæfi.

Við erum að vinna með gamlar íslenskar hefðir eins og harðfisk og smjör í bland við nýjar útfærslur á áður þekktum hlutum eins og smurt brauð. Matseðilinn verður lifandi eins og landsvæðið og breytast með árstíðum en í grunninn er hann einfaldur en margslunginn,” segir Hinrik en áætlanir um stækkun svæðisins eru virkilega áhugaverðar og ljóst er að þarna hafa höfuðborgarbúar eignast nýjan áfangastað, fjarri skarkala borgarinnar þar sem óspillt náttúran fær sín notið til fullnustu.

Ekki spillir dýralífi fyrir en mikið af fugli er á svæðinu auk kinda sem ráfa um og bíta gras.

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

„Ég vildi líka að fólk fengi smjörþefinn af öllu því góða sem svæðið hefur upp á að bjóða. Þannig þróuðum við þaraskot sem eru stútfull af andoxunarefnum, C vítamíni, Beta-carotene og E vítamíni. Ég hef verið að þróa þennan drykk í þrjú ár,” segir Hinrik hlæjandi og bætir við að eiginkona sín hafi haft minna gaman af þeirri tilraunamennsku enda sé hann svo litstekur að ekki sé hægt að ná honum úr fatnaði ef hann lendir þar.

Hins vegar er hann glettilega góður, svakalega næringarríkur og einstaklega kraftmikill. 

Stormur Bistró er eingöngu opinn fyrir gesti Hvammsvíkur Sjóbaða í Hvalfirði og er opinn frá 11 til 22 alla daga vikunnar. 

Ljósmynd/Sigurjón Ragnar
Ljósmynd/Saga Sig
Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is