10 atriði sem gestir taka alltaf eftir heima hjá þér

mbl.is/iStock

Það eru nokkur atriði sem gestir taka alltaf eftir er þeir koma í heimsókn. Kannski vert að hafa í huga þegar næstu gestir ryðjast í hús.

Lykt

Það fyrsta sem fólk finnur sem kemur í heimsókn er lyktin heima hjá þér. Er langt síðan þú loftaðir út eða er ennþá bræla eftir matinn? Þú gætir soðið rifinn sítrónubörk og kanil í potti í góðan tíma áður en gestirnir mæta á svæðið til að fríska upp á ilminn.

Gólfin

Er drasl á gólfunum? Það fyrsta sem fólk tekur alla jafna eftir er ef gólfin eru full af dóti.

Púðar

Það er geggjað að hafa góða púða til að halla sér upp að í sófanum. En skítugir og blettóttir púðar eru fráhrindandi fyrir gesti sem setjast í sófann, það er bara staðreynd.

Anddyrið

Fyrsti staðurinn sem gestir þínir sjá af heimilinu. Raðaðu skónum snyrtilega og ryksugaðu gólfið svo það sé pláss fyrir aukaskó og yfirhafnir og gestunum finnist þeir velkomnir. 

Baðherbergið

Baðherbergið mun upplýsa mikið um það hver þú ert. Sjáðu til þess að það sé ný rúlla af klósettpappír uppi við. Það er frekar neyðarlegt fyrir gestina að þurfa að koma fram af salerninu og biðja um nýja rúllu því hin kláraðist. Eins með handklæði; ekki vera með eitt skítugt fyrir gestina til að þurrka sér um hendurnar.

Smáatriðin

Upplýstu gesti þína um smáatriðin. Segðu þeim ef baðherbergislásinn virkar ekki eða að passa sig á þrepinu inn í eldhús.

Fersk blóm

Vöndur með lifandi blómum lífgar upp á hvert heimili og sýnir að þú býður upp á kósíheit í góðra vina hópi.

Skakkar myndir

Ótrúlegt en satt. Myndir á veggjunum skipta ótrúlega miklu máli – það er að segja ef þær eru skakkar. Þá taka allir eftir þeim. Annars ekki.

mbl.is