Atoboy frá New York með pop-up á Héðni

Dagana 6.-8. október mæta tveir matreiðslumeistarar frá New York frá kóreska veitingastaðnum Atoboy á Héðinn Kitchen & Bar. Atoboy byggir á hefðum kóreskrar matargerðar og notar New York borg sem innblástur og leiksvið. Matreiðslumenn Atoboy hafa sett saman einstakan fimm rétta matseðil þar sem íslenskt hráefni mætir kóreskum NYC stíl. Hægt verður að skella sér í vínpörun með seðlinum til að gera upplifunina enn ánægjulegri.

Við erum mjög spennt að geta loksins verið með viðburð þar sem við fáum til okkar matreiðslumeistara frá virtum stöðum úti í heimi sem koma til Íslands. Þeir Mark Nobello og Jon Cabral eru metnaðarfullir matreiðslumeistarar og hafa mikla ástríðu fyrir matargerð og hafa starfað undir handleiðslu eiganda Atoboy og Atomix, en Atomix er tveggja stjörnu Michelin veitingastaður sem er á lista yfir 50 bestu veitingastaði í heimi. Atoboy hefur verið Michelin Bib Gourmand síðan 2017, og er nú með Michelin-plötu viðurkenningu.
Landsliðskokkar Héðins eru spenntir að taka á móti og vinna með þeim þessa dagana og læra eitthvað nýtt,” segir Elías Guðmundsson, annar eiganda Héðins.

„Það er alltaf gaman að skapa ný tengsl á milli staða. Við hvetjum öll sem hafa áhuga á kóreskri matargerð og bara góðum mat að kíkja til okkar yfir þessa daga.

Þetta verður mjög spennandi, það verður DJ á fimmtudaginn og við höfum sett saman vínpörun sem gefur upplifuninni meira bragð. Það verður einnig hægt að skella sér í kokteila. Eldamennskan fer nánast öll fram yfir grillinu okkar sem er úti í sal svo það verður smá show úr þessu, lifandi og opið eldhús,” segir Karl Viggó Vigfússon, hinn eigandi Héðins.

Atoboy hefur fengið frábæra umfjöllun frá því þeir opnuðu fyrst árið 2016 og hefur m.a. verið fjallað um staðinn í NY Times, Michelin Guide, og OAD („opinionated about dining“).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert