Tobba selur Granólabarinn

Tobba Marinósdóttir og móðir hennar Guðbjörg Birkis standa á tímamótum með Granólabarinn, heilsubar sem þær opnuðu út á Granda fyrir ári síðan. Staðurinn er eini staður landsins sem framleiðir og selur vörur án viðbætts sykurs og sætuefna. Það virðist hafa hitt landsmenn beint í hjartað því staðurinn er brjálæðislega vinsæll. Svo vinsæll að mæðgurnar anna ekki eftirspurn og hafa því ákveðið að selja Granólabarinn.

„Granólabarinn er í raun sprunginn. Við mamma erum auðvitað í skýjunum með að nú þegar staðurinn er eins árs höfum við tvöfaldað söluna og var september metmánuður. Til þess að halda í velgengnina þyrftum við að opna annan stað og aðskilið framleiðslueldhús, en við mæðgur erum engir sérfræðingar í að reka keðju. Það er annað fólk sem kann það. Við seljum mörg þúsund safa á mánuði, fyrir utan allar kökurnar sem við seljum á 15 kaffihúsum um út um allan bæ. Og þetta eru einungis hliðarvörur því sjeikar og skálar eru aðalvaran okkar, auk þess sem veislubakkarnir okkar eru ákaflega vinsælir og við höfum verið með veitingar í veislum fyrir mörg hundruð manns,” segir Tobba.

Hún segist hafa lært ótrúlega mikið í vöruþróun og það sem varð vinsælast var ekki endilega það sem hún reiknaði með. „Ég bjóst aldrei við að selja kókoskúlur fyrir fleiri milljónir á einu ári.“

Hún viðurkennir að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld en nauðsynleg. „Það er ekki auðveld ákvörðun að selja fyrirtæki sem er í miklum uppgangi. Fólki finnst alltaf skrítið að láta frá sér eitthvað sem gengur vel – en þannig hefur mér gengið vel. Að láta það eftir mér að stökkva af stað í verkefni, púla og strita og sjá þau ganga upp, koma þeim í góðan farveg og leyfa mér þá að fara inn í næsta verkefni.”

Grandinn er gull

Aðspurð um söluna segir Tobba að það sé allt á hugmyndastigi. Fyrirtækið er staðsett í verbúð úti á Granda sem búið er að innrétta ákaflega fallega og sérsmíða framleiðslueldhús í. „Það einnig er möguleiki á að stækka staðinn með því að setja milliloft líkt og grannar okkar hafa gert. Það er auðvitað ótrúlega verðmætt að vera með leigusamning í verbúð. Ekki bara vegna þess hversu fallegt og skemmtilegt húsnæðið er heldur einnig vegna þess að Faxaflóahafnir eiga húsnæðið og hafa haldið leiguverðinu hagstæðu og stutt vel við svæðið. Einnig séð til þess að það séu alls kyns uppákomur, jólaskreytt svæðið og sinnt því af alúð. Uppbyggingin sem mun eiga sér stað á Grandanum á næstu árum er ótrúlega spennandi og áformin ævintýraleg.”

Hver þekkir lagnahönnuð?

Tobba og mamma hennar opnuðu staðinn í Covid og segir hún að það hafi verið góður skóli. „Við þurftum til dæmis að borga sérsmíðaðar innréttingar fyrirfram því framleiðendurnir voru ansi brenndir eftir Covid þar sem fjöldi veitingastaða fór á hausinn án þess að hafa fullgreitt upphafskostnað. Það er ótrúlega mikill tími og kostnaður sem fer í að koma svona stað á laggirnar. Bæði innréttingar og tæki, fyrir utan alla leyfisvinnuna sem kallar á arkitekt, löggildan byggingastjóra, rafvirkjameistara, pípulagningameistara, lagnahönnuð og ég veit ekki hvað og hvað. Það er í raun ótrúlegt að nokkur manneskja nenni að standa í þessu,” segir Tobba og hlær. “Ég meina, hver þekkir lagnahönnuð? Ekki gerði ég það! Ég endaði á að væla út aðstoð hjá allskonar ókunnugu fólki því allir eru með langa biðlista.”

Tobba segir að þær mæðgur munu þó alltaf hafa næg verkefni enda eigi þær einnig fyrirtækið Náttúrulega Gott sem selur handgert Granóla og nú loks sé von á nýjum vörum í ársbyrjun.

„Það var svolítið sama mál þar: Expand or die sem virðist vera vandamál sem eltir okkur mömmu. Það tók heilt ár að anna eftirspurn með granólað og sérsmíðaða iðnaðareldhúsið okkar var orðið of lítið strax eftir þrjá mánuði. Okkur tókst að fá samstarfsaðila sem gat hjálpað okkur með framleiðsluna. Frá því að við sendum frá okkur fyrstu sendinguna árið 2020 höfum við selt granóla fyrir meira en 100 milljónir – þrátt fyrir covid og hráefnisskort – og alltaf er mikil aukning milli ára. Holl vönduð matvara sem er án allra aukaefna og sykurs er verðmæti sem ber að veita athygli. Þetta er ekki eitthvað föndur – þetta er framtíðin.”

Granóladrottningin Tobba Marínós hefur selt sellerísafa fyrir tvær milljónir á …
Granóladrottningin Tobba Marínós hefur selt sellerísafa fyrir tvær milljónir á einum mánuði.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert