Kjúklingaréttur í dýrindis sósu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér er á ferðinni uppskrift sem smellpassar á degi sem þessum. Kjúklingurinn er í dýrindis sósu og ætti að slá í gegn á hverju matarborði.

Það er engin önnur en Berglind Hreiðars á Gotteri.is sem á heiðurinn að þessari uppskrift sem verður ábyggilega í uppáhaldi hjá ansi mörgum.

Kjúklingaréttur í ofni með ítölsku ívafi

Fyrir um 3-4 manns

 • 6 kjúklingalæri (upplæri)
 • 1 laukur
 • 2 hvítlauksrif
 • 1 dós ítalskur smurostur (300 g) frá MS
 • 400 ml rjómi
 • 1 box (180 g) Piccolo tómatar
 • Fersk basilika
 • Ólífuolía og smjör til steikingar
 • Salt, pipar og kjúklingakrydd

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 170°C.
 2. Brúnið kjúklingalærin upp úr blöndu af ólífuolíu og smjöri við meðalháan hita.
 3. Kryddið eftir smekk og brúnið vel á báðum hliðum, leggið næst í eldfast mót og útbúið sósuna.
 4. Saxið laukinn smátt og mýkið á pönnu upp úr smjöri og olíu. Kryddið með salti og pipar.
 5. Rífið hvítlaukinn saman við laukinn og steikið stutta stund til viðbótar og hellið næst helming rjómans á pönnuna.
 6. Bætið smurostinum næst saman við og hrærið þar til hann er bráðinn og bætið þá restinni af rjómanum út á og hrærið vel.
 7. Hellið yfir kjúklingalærin í fatinu, dreifið úr tómötunum yfir allt og bakið í ofni í um 25-30 mínútur.
 8. Berið fram með ferskri basiliku.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is