Súkkulaðikakan með langbesta kreminu

Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Hér erum við með geggjaða súkkulaðiköku úr smiðju Berglindar Hreiðars á Gotteri.is sem er skreytt að utan með KitKat. Fyrir vikið verður kakan afar óhefðbundin í útlit og eiginlega alveg sjúklega flott. Kremið er síðan þetta gamla góða sem undirrituð elskar!

Súkkulaðikaka með súkkulaðikremi

Fyrir 10-12 manns

Súkkulaðibotnar uppskrift

  • 170 g hveiti
  • 90 g bökunarkakó
  • 170 g sykur
  • 90 g púðursykur
  • 2 tsk. lyftiduft
  • ½ tsk. salt
  • 170 g súrmjólk
  • 120 g ljós matarolía
  • 2 stór egg
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 170 g sjóðandi vatn
  1. Hitið ofninn í 175°C og smyrjið 3 x 15 cm kökuform vel að innan og setjið bökunarpappír í botninn.
  2. Setjið öll þurrefnin í eina skál og blandið saman.
  3. Vigtið næst súrmjólk, olíu, egg og vanilludropa í aðra skál og pískið saman, bætið sjóðandi vatninu saman við í nokkrum skömmtum og pískið áfram.
  4. Hellið næst súrmjólkurblöndunni saman við þurrefnin og hrærið/pískið saman þar til kekkjalaust.
  5. Skiptið niður á milli formanna og bakið í 30-35 mínútur eða þar til prjónn kemur út með smá kökumylsnu á endanum, ekki blautu deigi.
  6. Kælið alveg og skerið síðan ofan af botnunum til að jafna þá áður en kreminu er smurt á.

Súkkulaði smjörkrem uppskrift

  • 320 g smjör við stofuhita
  • 360 g flórsykur
  • 70 g bökunarkakó
  • 2 tsk. vanilludropar
  • 3 msk. uppáhellt kaffi
  • ¼ tsk. salt
  • 150 g brætt suðusúkkulaði
  1. Þeytið smjörið þar til það verður létt og ljóst.
  2. Bætið flórsykri, kakó, vanilludropum, kaffi og salti saman við í nokkrum skömmtum og þeytið vel áfram.
  3. Að lokum má setja brætt suðusúkkulaði saman við og blanda vel saman við.
  4. Smyrjið næst vænu lagi á milli botnanna og síðan utan um og ofan á alla kökuna. Reynið að hafa kremið slétt og ekki of mikið á hliðunum til að KitKatið renni ekki til, samt þannig að það hylji alveg botnana.
  5. Skreytið (sjá að neðan).

Skreyting

  • 8 stk. Kit Kat súkkulaðistykki (skorin í sundur svo úr verða 8×4 = 32 stakir bitar)
  • Um 300 g súkkulaðiegg í páskalitunum
  • Spotti og blóm til að binda utan um kökuna
  1. Skerið Kit Kat stykkin í sundur með beittum hníf, raðið síðan jafnt og þétt allan hringinn á kökunni.
  2. Raðið súkkulaðieggjum yfir allan toppinn og bindið næst spotta um kökuna miðja og festið í hann fallegt páskablóm.
Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert