Búðin sem matgæðingar elska

Sælkeraverslunin Me & Mu, Garðatorgi 1 í Garðabæ, er hugarfóstur þeirra Sveinbjargar Jónsdóttur og Önnu Júlíusdóttur, sem langaði að stofna verslun þar sem gæði varanna væri í forgrunni. Úr var verslunin Me & Mu sem líkt hefur verið sem mekka matgæðinga enda eru vörur þar í boði sem ekki eru fáanlegar annars staðar. 

Sveinbjörg segir að jólakörfurnar séu sérstaklega vinsælar - bæði meðal einstaklinga sem og fyrirtækja. „Við erum með fimm gerðir af körfum í boði í mismunandi verðflokkum en svo er fólki meira en velkomið að setja saman sínar eigin körfur,” segir Sveinbjörg en margir kjósa einmitt að kaupa sniðugar jólagjafir með þessum hætti sem bæði styðja við smáframleiðendur og nýtast vel.

Áhersla á rekjanleika varanna

Verslunin býður upp á mikið úrval af gæðakjöti frá innlendum framleiðendum þar sem áhersla er lögð á rekjanleika varanna. „Við erum með kjöt frá Brákarey í Borgarnesi sem er algjörlega framúrskarandi framleiðandi, síðan erum við með lúxus Angus Galloway steikur frá Sogni í Kjós. Við verslum við B Jensen á Akureyri og Kristínu í Ytri Hólma sem er rétt fyrir utan Akranes en þar fáum við úrvals kofareykt hangikjöt og grafið ærkjöt,” segir Sveinbjörg en jafnframt flytur verslunin inn hágæðavörur frá Ítalíu, Frakklandi og Englandi. „Það eru allskyns pylsur, kæfur, paté og olíur. Kynstrin öll af spennandi jólavörum sem gleðja bragðlaukana,” segir Sveinbjörg og hafa viðskiptavinir kunnað vel að meta.

„Við erum sífellt að stækka og auka vöruúrvalið okkar. Við finnum líka hjá okkar neytendahóp að eftirspurnin eftir vönduðum heilsuvörum er að aukast og því bjóðum við mikið úrval af allskonar gourmet heilsuvörurm sem einnig er hægt að fá í gjafakörfum. Bólgueyðandi te, vítamín og allskonar spennandi vörur þar sem áherslan er lögð á vönduð og góð vörumerki,” segir Sveinbjörg. 

„Ekki má heldur gleyma bakarínu okkar,” bætir Sveinbjörg við en í búðinni er hægt að kaupa súrdeigsbrauð og alls konar kruðerí frá Sandholtsbakarí jafnframt því sem boðið er upp á  smákökur frá Björnsbakarí. 

Me og Mu rekur tvær verslanir. Önnur er á Garðtorgi en hin er í Gróðurhúsinu í Hveragerði þar sem lögð er áhersla á vörur fyrir ferðamenn og hótelgesti.

Matgæðingar eða aðstandendur þeirra þurfa því ekki að leita langt yfir skammt til að finna hina fullkomnu jólagjöf eða jólamatinn sem kemur öllum í sannkallað jólaskap.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert