Langvinsælustu skinkuhornin

mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir

„Skinkuhorn fara venjulega fyrst í afmælum eða kaffiboðum. Það er bara eitthvað við þau sem er alveg ómótstæðilegt. Hér er skemmtileg útfærsla með rjómaostsfyllingu og það er um að gera að leika sér með bragðtegundir. Hægt er að nota hreinan rjómaost eða einhvern með bragði, bara þann sem ykkur þykir bestur,“ segir Berglind Hreiðarsdóttir á Gotteri.is um þessa uppskrift sem við getum sannarlega staðfest að er ein sú allra besta.

Skinkuhorn með rjómaosti

40 stykki

  • 100 g smjör
  • 500 ml nýmjólk
  • 1 pk. þurrger (11,8 g)
  • 800 g hveiti
  • 60 g sykur
  • 1 tsk. salt
  • 300 g skinka
  • 100 g rifinn mozzarellaostur frá Gott í matinn
  • 100 g rifinn cheddarostur frá Gott í matinn
  • 400 g rjómaostur frá Gott í matinn
  • 1 egg
  • birkifræ
  1. Bræðið smjörið í potti og hellið mjólkinni saman við. Hitið þar til ylvolgt, alls ekki of heitt. Hellið yfir í skál/könnu og verið viss um að geta sett fingurinn í mjólkina án þess að finnast hún of heit.
  2. Hrærið þá þurrgerið saman við og leyfið að standa á meðan þið vigtið önnur hráefni. Blandan ætti að freyða örlítið.
  3. Vigtið hveiti, sykur og salt í hrærivélarskálina og setjið krókinn á (einnig hægt að hnoða í höndunum í stórri skál).
  4. Hellið mjólkurblöndunni saman við og hnoðið í nokkrar mínútur.
  5. Penslið skál að innan með matarolíu og veltið deigkúlunni upp úr olíunni, plastið og leyfið að hefast í 40 mínútur. Deigið ætti að tvöfalda stærð sína á þessum tíma.
  6. Gott er að útbúa fyllinguna á meðan deigið hefast.
  7. Skerið skinkuna í litla bita og blandið saman við báðar tegundir af osti og rjómaosti í skál.
  8. Skiptið deiginu í fimm hluta og fletjið hvern og einn út í hring sem er um það bil jafn stór og hefðbundinn matardiskur.
  9. Skerið það næst niður með pítsuskera/hníf svo úr verði átta hlutar.
  10. Setjið kúfaða teskeið af fyllingu við breiðari endann og rúllið síðan varlega upp.
  11. Mikilvægt er síðan að snúa upp á hornin til að koma í veg fyrir að fyllingin leki úr við baksturinn.
  12. Raðið hornunum næst á bökunarpappír á bökunarplötu (9-12 stykki á hverja plötu) og hitið ofninn í 200°C.
  13. Leyfið þeim að hefast aftur í um 15-20 mínútur, penslið þá með pískuðu eggi og stráið birkifræjum yfir.
  14. Bakið í 10-15 mínútur eða þar til hornin fara að gyllast.
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is/Berglind Hreiðarsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert