Trítlapakkar til styrktar Einstökum börnum

Ávaxtakarfan leikur aðalhlutverkið í sérútgáfu hinna fjörugu og sívinsælu Trítla frá Nóa Síríus sem nú er fáanleg í verslunum. Um er að ræða sérstaka styrktarpakka en 20% söluandvirðis þeirra rennur til Einstakra barna.

Hugmyndin fæddist hjá Kikku Sigurðardóttur, höfundi Ávaxtakörfunnar í tilefni af aldarfjórðungs afmæli þess vinsæla söngleiks. „Mig langaði að gera eitthvað sérstakt í tilefni 25 ára afmælis Ávaxtakörfunnar og óskaði því eftir samstarfi við Einstök börn og Nóa Síríus, sem reyndist auðsótt,“ segir Kikka en það var burið hennar, Dagmar Lukka Lofts, sem teiknaði myndirnar. „Hán gerði alla karakterana krakkalega til heiðurs Einstökum börnum og myndirnar sýna vel þessa mikilvægu vináttu ávaxtanna í Ávaxtakörfunni,“ bætir Kikka við.

„Við höfum í gegnum árin sem betur fer fengið tækifæri til að leggja ýmsum góðum málefnum lið og þetta er svo sannarlega eitt þeirra,“ segir Alda Björk Larsen, markaðsstjóri Nóa Síríus, og bætir við: „Okkur finnst þessi sérútgáfa Trítlapakkans einstaklega vel heppnuð og erum sannfærð um að landsmenn muni taka þessu átaki vel og styðja þannig við bakið á því mikilvæga starfi sem Einstök börn vinna.“

Einstök börn er stuðningsfélag barna og ungmenna með sjaldgæfa sjúkdóma eða sjaldgæf heilkenni. Félagið var stofnað 13. mars 1997 af foreldrum nokkurra barna en síðan þá hefur félagið stækkað ört og telur nú hátt í fimm hundruð fjölskyldur að því að fram kemur í fréttatilkynningu.

mbl.is