Hollustu nammibitar sem hitta í mark

Ljósmynd/Linda Ben

„Þessir hollustu nammibitar eru alveg einstaklega bragðgóðir! Þeir eru mjúkir og klístraðir, sætir og stökka dökka súkkulaðið utan um gerir þá algjörlega ómótstæðilega,“ segir Linda Ben um þessa dýrðlegu nammibita.

„Þeir eru búnir til úr aðeins fimm innihaldsefnum og það er mega einfalt að smella í þá. Maður setur döðlur, kasjúhnetur, kakó og tahini í blandara og maukar saman. Svo pressar maður maukið í form og fyrstir. Því næst bræðir maður dökkt suðusúkkulaði yfir og sker í bita. Bitarnir geymast vel inn í ísskáp í lokuðu íláti.“

Hollustu nammibitar

  • 250 g döðlur
  • 150 g kasjúhnetur
  • 150 g tahini
  • 20 g síríus sælkerabaksturs kakóduft
  • U.þ.b 1 msk vatn (ef þarf)
  • 200 g 70% síríus suðusúkkulaði

Aðferð

  1. Setjið döðlur, kasjúhnetur, tahini og kakó í matvinnsluvél, maukið.
  2. Pressið deigið í smjörpappírsklætt eldfastmót sem er 20×15 cm eða álíka stórt. Setjið í frysti í 1-2 klst.
  3. Bræðið helminginn af dökka súkkulaðinu yfir vatnsbaði, þegar það er bráðnað alveg takið þá það upp úr vatnsbaðinu, brjótið restina af súkkulaðinu ofan í brædda súkkulaðið og hrærið þar til allt hefur bráðnað saman.
  4. Hellið brædda súkkulaðinu yfir eldfastamótið og látið súkkulaðið stirðna. Skerið í bita.
Ljósmynd/Linda Ben
mbl.is