Mirin gljáður lax að hætti eldhúsgyðjunnar

Nigella Lawson kann svo sannarlega að koma bragðlaukunum á flug.
Nigella Lawson kann svo sannarlega að koma bragðlaukunum á flug. Ljósmynd/Samsett

Eldhúsgyðjan geðþekka Nigella Lawson sjónvarpskokkur er snillingur að koma með sælkerarétti sem hægt er að töfra fram á örskömmum tíma. Þennan ómótstæðilega ljúffenga mirin laxarétt er hægt að framreiða á einfaldan og fljótlegan hátt. Rétturinn er með austurlenskum áhrifum að hætti Nigellu. Mirin er japanskt hrísgrjónavín til matreiðslu sem hægt er að fá í flestum hillum matvöruverslana þar sem asískar vörur eru staðsettar. Hér er einfaldleikinn allsráðandi en hann er líka oft bestur og útkoman er eitthvað sem bragðast nákvæmlega eins og hin fullkomna blanda af maríneringu. Hægt er að nota hverskyns hrísgrjón með þessum rétti og mælt er með að fylgja leiðbeiningum á pakka eða toppa þetta með sushi-hrísgrjónum ef að hrísgrjónasuðutæki er fyrir hendi.

Mirin gjáður lax

  • 4 stk. laxabitar (ferskir úr fiskbúð eða frystir bitar og afþíddir)
  • 60 ml mirin (japanskt sætt hrísgrjónavín)                       
  • 2 x 15 ml/msk. hrísgrjónaedik
  • 50 g ljós púðursykur                                                               
  • 2 stk. vorlaukar saxaðir eftir smekk
  • 60 ml sojasósa

 

Aðferð:

  1. Blandið mirin, púðursykri og sojasósu í grunnt fat sem rúmar 4 laxabita og marínerið fiskinn í 3 mínútur, fyrst á annarri hliðinni og síðan 2 mínútur á hinni hliðinni. Á meðan skal hita steikarpönnu á eldavélinni.
  2. Steikið laxinn á heitri, þurri pönnunni í 2 mínútur og snúið honum svo við, hellið marineringunni yfir og steikið í 2 mínútur til viðbótar.
  3. Færið laxinn upp á disk, bætið hrísgrjónaediki á heita pönnuna og hitið í gegn.
  4. Hellið dökkum, sæt-söltum gljáandi vökvanum yfir laxinn og sáldrið vorlaukssneiðum yfir laxinn.
  5. Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum og mælt er með hafa líka sushi engifer á borðum.

 

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert