Lúxus hafragrautur Vingu

Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir sviptir hulunni af sínum uppáhaldsmorgunverði þessa dagana …
Vigdís Ingibjörg Pálsdóttir sviptir hulunni af sínum uppáhaldsmorgunverði þessa dagana sem er lúxus hafragrautur. Samsett mynd

Í síðustu viku skoraði Guðrún Ýr Eðvaldsdóttir matarbloggari, sem heldur úti uppskriftarsíðunni Döðlur og smjör, á Vigdís Ingibjörgu Pálsdóttur, alla jafna kölluð Vinga, að taka við keflinu af sér og ljóstra upp sínum uppáhaldsmorgunverði. Vinga tók vel í áskorunina og töfrar hér fram dýrindis morgunverð á fallegan og listræna hátt. Guðrún telur að Vinga eigi vinninginn yfir fallegustu morgunverðardiska landsins, og væri til í að mæta í morgunmat hjá henni á hverjum degi. Það er deginum ljósara að það sé rétt hjá Guðrúnu miðað við þessa morgunverðardiska sem Vinga útbýr hér.

Vinga heldur úti instagram reikningnum @vingap í frítíma sínum þar sem hún fær útrás fyrir sköpunarkrafti og leitar að fegurðinni í daglegu lífi. Myndir Vingu á instagram eru einstaklega fallegar með rómantískum blæ og allt sem hún gerir er fágað og listrænt. Vinga ber alla rétti aðlaðandi á borð og það er ljóst að hún er með listræna hæfileika á mörgum sviðum. Vinga er viðskiptafræðingur og er stjórnandi hjá bandaríska hátæknifyrirtækinu NetApp. Hún er því líka tæknilega sinnuð og það skín í gegn.

Matur í grunninn rómantískur

Aðspurð segir Vinga að hún hafi mikla ástríðu fyrir mat. „Matur spilar stóran sess í lífi mínu og ástríðan mín fyrir honum er margslungin. Mér þykir matur í grunninn vera rómantískur og að deila máltíð með öðrum er náin stund og eitt það skemmtilegasta sem ég geri. Heima hjá mér höfum við þann vana að framreiða morgunmatinn alltaf á bökkum, og ég legg mig fram við að hafa bakkana sem girnilegasta. Fallega framreiddur matur lyftir upp deginum og útkoman er iðulega skemmtileg stund við matarborðið – þetta eru uppáhalds gæðastundirnar með strákunum mínum. Innblásturinn sæki ég því oft til fjölskyldunnar en kemur líka úr hráefnunum sjálfum, náttúrunni, árstíðunum og hvað er ferskt hverju sinni. Svo þykir mér líka gaman að grúska í matreiðslubókum, er alltaf spennt að kynna mér erlenda matarmenningu og prófa nýja nálgun,“ segir Vinga.

Ertu til í að ljóstra upp, uppskrift þinni að uppáhaldsmorgunverði?

„Það er pínu erfitt að velja uppáhaldsmorgunverð, því ég á svo marga. Ég er morgunverðarunnandi út í gegn og gæti borðað morgunverð í öll mál.
Um helgar hef ég iðulega pönnukökur einn daginn og einhvers konar óvæntan dögurð hinn daginn. Á virkum dögum eru það oftar en ekki grautar, og hér er uppskrift að einum lúxus graut sem hefur verið vinsæll heima á föstudögum síðustu vikur.“

Hvern viltu skora á að taka við keflinu næst og ljóstra upp uppskriftinni að sínum uppáhaldsmorgunverði? 

Ég skora á Söru Davíðs, sem er með instagram reikninginn @saradavidsd, líkamsræktarþjálfara, flugfreyju og næringargúru með meiru.“ 

Rómantískur morgunverður að hætti Vingu sem hittir í mark.
Rómantískur morgunverður að hætti Vingu sem hittir í mark. Ljósmynd/Vinga

Lúxus hafragrautur Vingu

  • 1 ½ bolli hafrar
  • 1 msk. af fræjum að eigin vali,  ég set oft chia fræ, hörfræ og hampfræ
  • 1 dós kókosmjólk
  • ¼ - ½ bolli kókosmjöl
  • 400 vatni (set vatn í dósina sem var undir kókosmjólkina)
  • Smá salt
  • 2 tsk. vanilludropar
  • Hlynsíróp eftir smekk

Aðferð:

  1. Byrjið á því að sjóða hafrana, fræin, kókosmjólkina, kókosmjölið og vatnið saman.
  2. Látið malla á lágum hita í smá stund.
  3. Skerið á meðan ávexti sem eiga að fara ofan á.
  4. Bætið vanilludropunum saman við og hlynsírópi þegar þið takið grautinn af hellunni og hrærið aðeins í.
  5. Setjið ofan á það sem þið eigið til hverju sinni, en alltaf einhvern ávöxt og hnetur.
  6. Berið fram á fallegan og fágaðan hátt, morgunverðarstundin verður margfalt betri.
Hafragrauturinn ásamt meðlæti ávallt borinn fallega fram og á bakka.
Hafragrauturinn ásamt meðlæti ávallt borinn fallega fram og á bakka. Ljósmynd/Vinga
Vinga hugsar fyrir hverju smáatriði og finnst skipta máli að …
Vinga hugsar fyrir hverju smáatriði og finnst skipta máli að skreyta hafragrautinn með því sem til er að hverju sinni. Ljósmynd/Vinga
Nostalgía bakkarnir sem Vinga er með undir morgunverðaskálarnar.
Nostalgía bakkarnir sem Vinga er með undir morgunverðaskálarnar. Ljósmynd/Vinga
Hafragrautarnir eru litríkir og fallegir hjá Vingu.
Hafragrautarnir eru litríkir og fallegir hjá Vingu. Ljósmynd/Vinga
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert