Girnilegt sumarlegt salat með lambafille og eggaldin

Þetta sumarlega salat með lamdafille er ótrúlega girnilegt og fullkomið …
Þetta sumarlega salat með lamdafille er ótrúlega girnilegt og fullkomið til að bjóða upp á í næstu grillveislu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Björk Bragadóttir matgæðingur og annar eigenda Salt Eldhús, ávallt kölluð Sirrý, veit fátt betra en sumarlegt salat með lambafille þegar sólin byrjar að sýna sig og hækka á lofti. Hér deilir hún með lesendum Matarvefsins einu af sínu uppáhalds sumarsalati.

„Þessi hefur verið með mér ansi lengi og er klassík og er tekin fram þegar sól fer að hækka á lofti. Yndislegur gestaréttur sem er auðvelt að laga fyrirfram nema steikja lambið rétt áður en borið fram. Við borðum mikið salöt á sumrin, svo léttur og góður matur og síðan er gott að fá prótín með því að hafa ost, fisk eða kjöt í salatinu,“ segir Sirrý og hlakkar til að njóta í sumar í sólinni.

„Ef þið viljið baka tómatana sjálf nota ég 500 g af smátómötum sker þá í tvennt og raða með sárið upp á bökunarpappír á ofnplötu. Sáldra ólífuolíu yfir ásamt salti og pipar og baka þá í ofninum við 180°C hita í 30 mínútur, eða þar til þeir eru orðnir vel krumpaðir.“

Sumarlegt salat með lambafille og eggaldin

Fyrir 2

 • ½-1 eggaldin (fer eftir stærð) skorið í fingurþykkar sneiðar
 • 3-4 msk. olía
 • 300 g lambafille, 1 stórt eða tvö minni
 • 1 poki blandað salat, gjarnan með spínati og klettakáli saman við
 • 3 msk. furuhnetur, þurr ristaðar (má líka nota pekan- eða valhnetur)
 • 1 -2 dl sólkysstir tómatar (hálf sólþurrkaðir)
 • 1/2 granatepli, kjarnar úr því
 • 6 msk. góð ólífuolía
 • 2 msk. hindberjaedik eða annað gott edik
 • Sjávarsalt og nýmalaður pipar

Aðferð:

 1. Hitið ofninn í 180°C.
 2. Steikið eggaldinsneiðarnar á báðum hliðum í olíu, geymið á disk.
 3.  Það er smávandi að steikja eggaldin best er að nota “non stick” pönnu og pensla sneiðarnar með olíunni áður er þið byrjið að steikja, pensla svo aftur á miðri leið.
 4. Ekki bæta meiri og meiri olíu á pönnuna eins og virðist þurfa, bara taka tíma í þetta.
 5. Skerið raufar á ská í fituna á lambafille, notið beittan hníf og hafið ½ cm á milli skurða.
 6. Kryddið lambafille með því sem ykkur hugnast, saltið og piprið.
 7. Steikið lambafille á pönnu með fituhliðina niður fyrst og síðan á öllum hliðum þar til þær eru brúnaðar.
 8. Setjið í ofninn í 10-12 mín, tími fer eftir stærðinni á kjötbitanum.
 9. Ef þið eruð með kjarnhitamæli er passlegt að elda þar til kjarnhiti er 56°C.
 10. Takið lambið út og látið hvíla undir klút í 15 mín, það heldur áfram að eldast þar þangað til kjarnhita 64-68°C er náð.
 11. Setjið salatið á fat.
 12. Rífið eða skerið eggaldinsneiðar í tvennt og raðið ofan á.
 13. Skerið lambafille í sneiðar og raðið líka ofan á, mjög gott er að hafa fituhliðina niður því þá verður skurðurinn á helli fallegri.
 14. Dreifið sólkysstum tómötum, furuhnetum og granateplakjörnum ofan á og hellið olíu og hindberjaediki yfir.
 15. Saltið og piprið eftir smekk.
 16. Berið fram með góðu brauði og rauðvíni.
Sigríður Björk Bragadóttir, ávallt kölluð Sirrý, galdrar fram sumarlegt salat …
Sigríður Björk Bragadóttir, ávallt kölluð Sirrý, galdrar fram sumarlegt salat með lambalundum sem allir geta gert. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is