Föstudagspítsan: BBQ-pítsa með kjúkling sem rífur í

Berglind Hreiðarsdóttir sælkeri með meiru býður upp á föstudagspítsuna að …
Berglind Hreiðarsdóttir sælkeri með meiru býður upp á föstudagspítsuna að þessu sinni. BBQ-pítsu með kjúkling. Samsett mynd

Föstudagspítsan hef­ur fest sig í sessi hjá lands­mönn­um. Í dag kemur föstudagspítsan úr smiðju Berglindar Hreiðarsdóttir sælkera og matarbloggara með meiru hjá Gotterí og gersemar. Hér er á ferðinni matarmikil og bragðmikil BBQ-pítsa með kjúkling sem nýtur mikilla vinsælda hjá fjölskyldu Berglindar.

„Sumarið er handan við hornið og við erum búin að taka pítsaofninn okkar úr geymslunni eftir veturinn. Við höfum hann venjulega úti allt sumarið og inn í haustið og setjum hann síðan inn yfir veturinn og sækjum hann bara og tengjum við gasið einstaka sinnum á þeim tíma, notum hann klárlega mun meira á sumrin. Við fengum okkur pítsaofninn fyrir nokkrum árum og útbjuggum sérstakt pítsahorn á pallinn okkar í framhaldinu þar sem við bökum alltaf pítsur og elska ég þetta horn,“

Ekkert mál að baka pítsu í útipítsaofni

„Það er ekkert mál að baka pítsu heima með þessum hætti svo lengi sem maður er með rétt áhöld og hráefni. Við höfum prófað alls kyns pítsadeig og finnst mér gaman að prófa mismunandi deig til að fá smá fjölbreytni í pítsurnar. Oftast geri ég sjálf ítalskt pítsadeig en uppáhalds tilbúnu pítsadeigin mín koma annars frá Passion bakarí.

Við erum með Ooni Karu pítsaofn, minni gerðina og hentar hann okkur vel. Við vorum að kaupa okkur nýjustu týpuna sem er með áfastri hurð og ég mæli mikið með slíku. Það er mikilvægt að hita ofninn vel áður en fyrsta pítsan er bökuð svo steinninn sé orðinn vel heitur og hurðin flýtir fyrir slíku. Síðan lækkum við niður hitann þegar pítsan fer inn í ofninn til að hún brenni síður að ofan og lokum hurðinni og setjum hitann aftur í botn á meðan verið er að sækja næstu pítsu og svo koll af kolli. Með þessum hætti hitnar steinninn alltaf vel á milli og pítsan bakast jafnar.

Pítsaofninn hennar Berglindar í uppáhaldshorninu hennar á pallinum.
Pítsaofninn hennar Berglindar í uppáhaldshorninu hennar á pallinum. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

Snúningsspaði nauðsynlegur

„Að mínu mati er síðan nauðsynlegt að eiga snúningsspaða til að snúa pítsunni inn í ofninum og gataspaða til að lyfta henni inn í ofninn á því þá fer allt umfram hveiti af botninum. Við setjum venjulega botninn beint á gataspaðann með hveiti undir og setjum áleggið á pítsuna þannig, skutlum henni síðan í ofninn.“

Berglindi finnst gaman að gera mismunandi pítsur og þessi BBQ-kjúklingapítsa er nýja uppáhaldið hjá henni og fjölskyldunni. „Það er svo mikil stemning að elda kjúklinginn í pítsaofninum á meðan allt annað fyrir pítsagerðina er undirbúið en þeir sem hafa ekki tíma í slíkt geta vel notað tilbúinn kjúkling. BBQ-sósan er sæt og því má alveg krydda kjúklinginn vel og gott að fá pepperóní inn á móti sætunni, allt saman fullkomin blanda,“ segir Berglind að lokum sem bíður eftir bongóblíðunni til að halda áfram að baka pítsur á pallinum.

Girnileg BBQ-pítsa með kjúklingi og smá pepperóni sem rífur í.
Girnileg BBQ-pítsa með kjúklingi og smá pepperóni sem rífur í. Ljósmynd/Berglind Hreiðarsdóttir

BBQ-pítsa með kjúklingi

3 pítsur – 9 tommu

Kjúklingapítsur

  • 3 box/pakkar pítsadeig að eigin vali (9-12 tommu pítsa)
  • 6-9 msk. Heinz sweet BBQ-sósa
  • 3 stk. grillaður kjúklingalæri/leggur (sjá uppskrift að neðan)
  • 1 stk. rauðlaukur
  • 1 dós mozzarellakúlur
  • 1 stk. ferskur maís
  • Lítið pepperóní eftir smekk
  • Rifinn ostur
  • Sýrður rjómi (yfir í lokin)

Aðferð:

  1. Hitið pítsaofninn (um 400°C) eða bakaraofninn (um 220°C).
  2. Fletjið pítsadeigið út og smyrjið með Heinz BBQ-sósu.
  3. Skerið rauðlaukinn í fínar sneiðar og raðið á botninn ásamt niðurskornum kjúklingi, maísbaunum, mozzarellakúlum, pepperóní og rifnum osti.
  4. Bakið og toppið síðan með smá sýrðum rjóma.

Grillað kjúklingalæri + leggur

  • 3 stk. kjúklingalæri + leggur í einum bita
  • 3 msk. smjör (við stofuhita)
  • 2 hvítlauksgeirar (rifnir)
  • 1 msk. saxað rósmarín
  • Salt og pipar eftir smekk
  • ½ sítróna

Aðferð:

  1. Stappið saman smjör, hvítlauk og rósmarín, smyrjið/berið á kjúklinginn.
  2. Leggið í eldfast mót, kryddið með salti og pipar og leggið sítrónu í mótið.
  3. Grillið í pítsaofninum við 240°C í um 20 mínútur eða þar til kjarnhiti nær 74°C. Ef þið grillið í bakarofni gæti tíminn aðeins lengst og þá má lækka hitann niður í 200°.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert