10 leiðir til þess að styrkja sjálfsmynd þína

Kristín Tómasdóttir lærði sálfræði og kynjafræði. Hún hefur á undanförnum árum skrifað bækur fyrir unglingsstelpur en bókunum er ætlað að miðla skemmtun og fræðslu sem getur haft jákvæð áhrif á sjálfsmynd stelpna. Nú býður Kristín stelpum/konum á öllum aldri (frá 10 ára) sjálfsstyrkinganámskeið sem hún byggir á bókum sínum. Hún setti saman lista með 10 leiðum sem styrkja sjálfsmyndina. 

10 leiðir til þess að styrkja sjálfsmynd þína

Spyrja sig; „Hver er ég?” Svara spurningunni skriflega, geyma blaðið og kíkja á það reglulega næstu árin. Það er um að gera að breyta svarinu eftir því sem við eldumst og breytumst. Ef við vitum ekki hver við erum og hvernig við upplifum okkur þá er erfitt að reyna að breyta því.

Allt sem við gerum í lífinu þarf að ríma við svarið okkar við spurningu 1. Ef það sem við gerum passar ekki við það hver við erum verður sjálfsmynd okkar líklega neikvæðari. Ef þú fílar að ganga um í stuttu pilsi og fleygnum bol í skítakulda um hávetur, þá er um að gera að gera það. En ástæðan verður að vera sú að þú upplifir þig vel í þessum klæðaburði, ekki vegna þess að aðrir segja þér að klæða þig á þennan veg.

Allt sem hefur áhrif á sjálfsmynd okkar getur bæði haft jákvæð áhrif og neikvæð áhrif. Það er þitt að velja hvort þú ætlar að horfa til þess sem er jákvætt eða neikvætt.

Skrifa dagbók. Hún þarf ekki að vera ítarleg heldur geta litlir punktar nýst okkur vel og hjálpað okkur við að kortleggja sjálfsmynd okkar í mismunandi aðstæðum.

Allir eiga kosti. Hverjir eru þínir kostir?  Skrifaðu niður fimm kosti. Gott er að smella þeim á gula miða og setja þá á stað sem þú lítur til á hverjum degi. Reyndu svo eftir bestu getu að rækta þessa kosti.

Ertu með áhugamál? Ef ekki, gæti verið mjög gott að reyna að finna áhugamál sem þú fílar. Þegar við stundum áhugamál okkar er sjálfsmyndin líklegt til þess að vera jákvæð og við örugg. Við erum þá á heimavelli og að gera eitthvað sem við veljum okkur að gera vegna þess að við fílum það. 

Hrós til annarra getur haft mjög jákvæð áhrif á okkar eigin sjálfsmynd. Endilega hrósaðu öllum í kringum þig eins mikið og þú getur. Ekki bara munu viðbrögð viðkomandi kæta þig heldur munu aðrir verða duglegri við að hrósa þér.

Ræktaðu sjálfa þig. Gerðu allt mögulegt sem þú finnur að hefur góð áhrif á þig. Ef þér finnst gott að fara í sund þá er um að gera að fara eins mikið í sund og þú mögulega getur. Ef þér finnst gott að hreyfa þig þá skaltu hreyfa þig mikið. Ef þér finnst notalegt að vera mikið í kringum fólk þá ættir þú að sækjast mikið í félagsskap annarra. Svona gæti ég haldið lengi áfram en það er þitt að finna hvað það er sem ræktar þínar jákvæðu hliðar og vökva þær eins mikið og oft og mögulegt er.  

Að fara út fyrir þægindarammann merkir að gera eitthvað sem okkur finnst pínu erfitt og við myndum helst ekki vilja gera en við gerum það samt því við vitum að það mun styrkja okkur. Farðu út fyrir þægindarammann einu sinni á dag.

Ef þér finnst sjálfsmynd þín almennt séð mjög neikvæð og þú hefur reynt að hafa jákvæð áhrif á hana án árangurs er ekkert sem mælir gegn því að þú leitir aðstoðar. Til þess má leita til sálfræðinga, hugleiðara, vina, heimilislæknis, geðlæknis, fjölskyldu, kennara eða annarra sem þú treystir og geta stutt þig í átt að betri og sterkari sjálfri þér! 

mbl.is