Framandi ævintýri fylgja starfinu

Sigríður Birna hefur ferðast víða eftir að hún hóf störf …
Sigríður Birna hefur ferðast víða eftir að hún hóf störf hjá Emirates. Ljósmynd/Aðsend

Sigríður Birna Hallfreðsdóttir er 26 ára og hefur unnið sem flugfreyja í fjögur og hálft ár hjá Emirates í Dubai. Sigríður Birna hefur ferðast um allan heim í vinnunni og komið á staði sem hún hélt kannski að hún myndi aldrei koma á.

Hvernig kom það til að þú fórst að vinna fyrir Emirates?

„Mamma hafði séð auglýsingu í blaðinu og bent mér á þetta. Ári seinna ákvað ég að kýla á þetta og mæta á opinn dag hjá þeim á Nordica þar sem þeir fóru í gegnum ýmis verkefni og próf. Ég komst í gegn ásamt fjórum öðrum stelpum og fór daginn eftir í atvinnuviðtalið sjálft. Ég hafði alltaf ætlað mér að ferðast í lengri tíma svo þetta var fullkomið tækifæri.“ 

Sigríður Birna flýgur fyrir Emirates.
Sigríður Birna flýgur fyrir Emirates. Ljósmynd/Aðsend

Hverjir eru kostir starfsins, en ókostir?

„Kostir eru klárlega ferðalögin og að fá að kynnast fólki alls staðar frá í heiminum og þeirra menningum. Ókostir eru að flugin geta verið löng og erfið. Lengsta flug sem við erum með er 17 tímar og flestir brottfaratímar okkar eru að nóttu til eða snemma morguns.“

Vinnan hefur gefið þér tækifæri til þess a ferðast, hvaða ævintýrum hefur þú lent í? 

„Ég hef fengið að fara á svo marga spennandi staði sem mig hafði lengi dreymt um og aðra sem ég hélt ég myndi aldrei fara á. Það er rosalega erfitt að velja sér uppáhaldsstað en það sem hefur staðið upp úr er meðal annars að surfa í Rio de Janeiro í Brasilíu, skoða Petru í Jórdaníu, fara upp að landamærum Norður- og Suður-Kóreu, Kínamúrinn, kitesurfa í Rauða hafinu, sjá kengúrurnar í Ástralíu, kafa með hákörlum í Suður-Afríku og fara á hestbak í safarí í Zimbabwe. Ég gæti talið upp svo margt en hver ferð sem ég hef farið í hefur verið ævintýraleg og sumar planaðar langt fram í tímann, aðrar bókaðar samdægurs.“

Hvernig myndir þú lýsa hefðbundnum vinnudegi?

„Við þurfum að vera mætt tveimur tímum fyrir brottför í vinnuna til að fara yfir lagalegu hlutina. Þar sem það eru yfir 20.000 flugliðar hjá fyrirtækinu fljúgum við sjaldan með sama fólkinu, höfum við tíma til þess að kynnast snögglega áður en haldið er inn í vél. Matur og drykkir eru innifaldir hjá Emirates svo í fluginu sjálfu er oft nóg að gera þar sem við erum með flugvélar sem geta tekið upp í 615 farþega sem skiptast niður í economy, business og first class. Ef við erum í flugi með stoppi þá reynir crewið oft að fara saman í túra um borgina eða út að borða saman eftir flugið.“   

Hefurðu getað eytt einhverjum tíma á íslandi á þessum árum sem þú hefur starfað fyrir Emirates?

„Ég hef ekki verið mikið á Íslandi síðan ég byrjaði en ég reyni að ferðast á nýja staði þegar ég á frí. Ég reyni þó að koma einu sinni á ári til Íslands.“   

Hvers saknarðu mest frá Íslandi?

„Að undanskildu fjölskyldu og vinum þá verð ég segja að ég sakni íslenska sumarsins og nammisins!“

Ljósmynd/Aðsend

Hvernig  er lífið í Dubai? 

„Dubai er að mestu leyti ótrúlega nútímaleg borg þar sem maður sér allt frá Lamborghini-lögreglubílum að fátækari hverfum þar sem verkamenn búa þétt. Í borginni er rosalega mikið af nýbyggingum sem eru flest flott háhýsi og flestar íbúðarbyggingar eru með sundlaugar. Hér er auðvelt að fá mat heimsendan úr búðum og veitingastöðum allan sólarhringinn sem er svolítill lúxus líka.“

„Ólíkt Íslandi er sjaldan hægt að kvarta yfir kulda en þó frekar yfir hita því sumarmánuðirnir hérna geta verið mjög erfiðir með hitastig hátt í 50 gráður og mikinn raka. Þegar ég er í fríi í Dubai reyni ég að hitta á vini mína en það getur verið erfitt, stundum með óreglulegan vinnutíma og reyni að eyða sem mestum tíma úti á meðan veðrið er bærilegt. Það er svo ótrúlega margt í boði að gera en það er alltaf gott að kíkja á ströndina með góða bók eða skella sér á nýtt kaffihús.“   

Mælir þú með því fyrir ungt fólk að stökkva á vit ævintýranna eins og þú gerðir? 

„Ég myndi hiklaust mæla með því. Það er rosalega gott að stíga út fyrir þægindarammann og kynnast því hvernig er að vera í öðrum löndum. Við höfum rosalega mikið að vera þakklát fyrir verandi frá Íslandi. Ég hef lært rosalega mikið af nýjum hlutum og kynnst æðislegu fólki frá ótrúlegustu löndum.“ 

Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál