Hvernig er best að spara fyrir íbúð?

mbl.is/ThinkstockPhotos

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching svarar spurningum lesenda Smartlands. Hér fær hún spurningu frá móðir sem veltir fyrir sér hvað sé best að gera við peninga sona hennar. 

Sæl Edda,

mér datt í hug að spyrja þig. Þannig er mál með vexti að synir mínir eru að reyna að spara peninga til að borga út í íbúð. Málið er að við vitum ekki hvað sparnaður hentar best sem sagt bankabók eða eitthvað annað þar sem peningarnir mundu ekki rýrna né vera lokaðir inn á til dæmis bankabók. Svo erum við að velta fyrir okkur hvort er betra að taka blandað íbúðarlán eða bara verðtryggt ? Við erum búin að skoða heimasíður bankanna en erum engu nær, bara enn ráðavilltari. Vonandi getur þú kannski ráðlagt okkur. 

Bkv,

ein vongóð móðir.

Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching.
Edda Jónsdóttir leiðtogamarkþjálfi hjá Edda Coaching. Ljósmynd/Aldís Pálsdóttir

Sæl vongóða móðir,

þakka þér fyrir fyrirspurnina. 

Þar sem ég sérhæfi mig fyrst og fremst í að greina samband fólks við peninga og vinna með peningahegðun, er svarið mitt skrifað með fyrirvara um að ég er ekki sérfræðingur í fjárfestingum. Ég vil líka taka það fram að ég geng ekki erinda bankastofnana eða fjármálafyrirtækja.  

Ég skil að það sé áskorun að taka ákvörðun um sparnað til íbúðakaupa og lántöku. Það er stór ákvörðun að fjárfesta í húsnæði og gott að þið viljið vanda til verka í ákvarðanatökunni. Einnig finnst mér til fyrirmyndar að þú skulir setja þig inn í málin og miðla þeirri þekkingu áfram til sona þinna. Sjálf er ég mjög hlynnt góðu fjármálauppeldi og lít svo á að þú sért að sinna því með því að leita þér þekkingar. 

Það er margt í boði og oft virðist flókið að bera kostina saman. Sumar lánastofnanir eru með reiknivélar á heimasíðum sínum þar sem hægt er að bera saman mismunandi valkosti. Þú minnist á að þið séuð búin að skoða heimasíður bankanna en ég vil samt hvetja ykkur til að halda rannsóknarvinnunni áfram. 

Þetta er það sem ég myndi gera í ykkar sporum: 

Skoða mismunandi leiðir til að fá sem hæsta vexti á meðan synirnir safna fyrir útborgun. Einhverjir bankar bjóða hávaxtareikninga gegn því að peningarnir séu læstir inni í að minnsta kosti hálft ár. Þú nefnir að þið viljið síður geyma peningana á læstri bók en ef til vill gæti sá kostur komið til greina fyrir þá upphæð sem þegar hefur safnast og þá næstu 6 mánuði ef íbúðakaupin eru ekki ráðgerð fyrr en eftir þann tíma. 

Aðrir tryggir fjárfestingakostir yfir skemmri tíma eru einnig í boði. Bankarnir bjóða fund með ráðgjafa til að ræða þá kosti sem í boði eru. Þið gætuð fengið upplýsingar frá mismunandi aðilum og borið saman það sem býðst. 

Svo er það spurningin um hvort eigi að taka blandað lán eða bara verðtryggt, eins og þú nefnir. Þarna er aftur spurning hvað er í boði. Er hægt að tryggja fasta vexti á blönduðu láni í ákveðinn tíma og ef svo er, þá hversu lengi? Hvað gerist að þeim tíma liðnum? Það eru semsagt margir óvissuþættir sem enginn veit í rauninni svarið við. Það eru mjög ólíkar meiningar í þessum efnum og sjálf treysti ég mér ekki til að taka afstöðu um hvor kosturinn sé betri. Ég hef talað við fólk sem er einungis með óverðtryggt, annað sem er með blandað lán og enn annað sem frekar veðjar á verðtrygginguna. Þarna þarf ef til vill einnig að skoða aðra þætti eins og til dæmis það hvort íbúðin er ætluð sem langtímafjárfesting eða hvort þeir ætli að eiga hana í fimm ár og selja svo. 

Annað sem mér kemur til hugar er hvort þú eigir rétt á lífeyrissjóðsláni sem þú vildir taka fyrir syni þína. Þar gefast oft góðir vextir, þó mér vitanlega sé aðeins í boði að taka verðtryggð lán (a.m.k. hjá þeim sjóðum sem ég þekki til). 

Ég vona að þetta svar hjálpi og veiti þér byr undir báða vængi til að halda áfram að skoða það sem er í boði. 

Gangi þér vel. 

Liggur þér eitthvað á hjarta? Þú getur sent Eddu spurningu HÉR. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál