Árelía 2018 nýtir lífið betur

Árelía er einstaklega hress og skemmtileg kona.
Árelía er einstaklega hress og skemmtileg kona. mbl.is/Valgarður Gíslason

Árelía Eydís Guðmundsdóttir er ein lífsglaðasta kona landsins. Hún starfar sem dósent við Viðskiptadeild Háskóla Íslands en er einnig farsæll rithöfundur og sjálfstæð þriggja barna móðir í Vesturbænum. Hún segir að ný uppfærsla á Árelíu sé nauðsynleg svo hún geti notið alls þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Árelía skrifar um það sem henni býr í brjósti hverju sinni. Bókin hennar „Sterkari í seinni hálfleik“ sló rækilega í gegn hjá landsmönnum.

Lífsgleði Árelíu er smitandi. Hún hlær, er opin og einlæg. Það er á hreinu að þessi kona hefur fundið sinn innri styrk í breytingum.

„Ég er bara venjuleg húsmóðir í Vesturbænum. Ég á þrjú börn og bíl. Er einhleyp sjálfstæð kona sem hefur gaman af lífinu.“

Horfði á eftir fólkinu á 1. farrými

Árelía segist reyna að njóta lífsins út í ystu æsar, hvað sem það færir henni.

Hvað ertu að vinna að um þessar mundir?

„Ég er að vinna í skrifum, svo er ég að kenna í MBA náminu í Viðskiptafræðideild háskólans og að undirbúa mig fyrir kennslu í meistaráminu fyrir haustið. Auk þess er ég að vinna í að uppfæra í Árelía 2018.“

Um tildrög uppfærslunnar segir hún. „Ég var á ferðalagi í vetur. Á leiðinni heim þegar það var kallað út í vélina og fólk á fyrsta farrými var beðið að fara um borð.

Þar sem ég sat og horfði á eftir fólkinu ganga inn í flugvélina flaug í gegnum huga minn spurningin: Hvað þyrfti ég að gera til að vera á fyrsta farrými í lífinu?“ Árelía tekur fram að þá meini hún allt lífið.

„Ég hugsaði með mér að öll snjalltækin sem við eigum þurfa stöðuga uppfærslu. Síminn þarf reglulega uppfærslu, tölvan mín líka.“ Þannig leiddi eitt af öðru og Árelía fékk góða hugmynd.

„Mér fannst blasa við á þessari stundu að auðvitað þyrfti ég uppfærslu líka. Á þessum tímapunkti ákvað ég að hrinda í framkvæmd uppfærslunni á Árelíu 2018.“

Til að njóta lífsins betur

Hvernig fórstu í gegnum uppfærsluna?

„Ég byrjaði ferlið á að hugsa út í alla þætti sem mögulega væri áhugavert að uppfæra. Ég horfði á líkama minn, andlegt líf, tilfinningar mínar og þekkingu. Ég velti fyrir mér hugmyndum mínum um mig. Bar þetta allt saman við nýjustu tækni, hvernig sá iðnaður skoðar stöðugt hvernig hægt er að nota tæknina betur til að auðvelda okkur lífið. Auðvitað komst ég að því að það er heilmargt sem ég get gert til að nýta líf mitt betur svo ég setti í framkvæmd áætlun sem miðaði að því.“ Árelía segist hafa byrjað á heimilinu. Hún flokkaði, losaði sig við dót, raðaði upp á nýtt og endurskipulagði þannig að heimilið nýttist nýjum lífsstíl hennar betur; lífsstíl konu sem vill láta tímann vinna fyrir sig en ekki öfugt. „Ég gerði það sama með sálfræðingi, næringarfræðingi og svo mætti lengi áfram telja. Í raun má segja að ég hafi breytt svo miklu að undanförnu að það eina sem ég á ennþá eru börnin mín og já vinnan, vinirnir og fjölskyldan,“ segir hún og skellihlær.

Árelía er skynsöm kona sem fann út að auðvitað þyrfti …
Árelía er skynsöm kona sem fann út að auðvitað þyrfti hún uppfærslu eins og tækin sem hún notar daglega. mbl.is/ Valgarður Gíslason

Árelía er með smitandi hlátur og lífsorka hennar er svo mögnuð að mann langar að tappa henni á flöskur og koma á alla landsmenn.

Hún segir nýjan lífsstíl í fyrstu hafa verið eins og þegar maður er með nýja uppfærslu í snjalltækinu. „Maður þarf smávegis tíma að venja sig við. Í fyrstu leikur allt á reiðiskjálfi, líkt og þegar maður uppfærir símann sinn og týnir gömlum númerum, helstu snjallforritunum og þar fram eftir götunum. En maður andar inn og út og tekur sinn tíma í að koma hlutunum í rétt horf. Flest okkar könnumst við að þegar við erum komin yfir erfiðasta hjallann virkar nýja uppfærslan mun betur en sú fyrri,“ segir Árelía og bætir við hlæjandi: ,,Í sannleika sagt virkar Árelía 2018 nokkuð vel. Smá hnökrar sem þarf að laga en þannig er það alltaf.“

Trúir á æðri mátt

Ertu trúuð?

„Já, ég trúi á æðri mátt og Guð. Eins trúi ég á lögmálið um að þegar þú setur út hugmynd eða markmið þá komi hlutirnir til þín. Eitt lítið dæmi um þetta er að frá því ég ákvað að fara í uppfærsluna hef ég flogið þrisvar sinnum á fyrsta farrými, án þess að borga fyrir það. Hugsaðu þér það! Inntakið í uppfærslunni er einmitt að vera snjallari.Sem dæmi þá vil ég endurhugsa fjármálin þannig að ég auki innkomu. Við slíka hugmynd þarf að finna fleiri tekjumöguleika og leggja hugann í bleyti.“

Varstu með gamlar hugmyndir um peninga sem þú þurftir að losa þig við?

„Já, ekki spurning. Í nýrri uppfærslu vildi ég hugsa stærra. Stækka sjóndeildarhinginn og fjármálin mín fóru undir þá hugsun. Að finna fleiri áhugaverða tekjustofna er bráðnauðsynlegt fyrir konu eins og mig.“

Árelía segir að vinkonurnar taki ötullega þátt í hugmyndinni og sendi reglulega á hana skilaboð, jafnvel myndskilaboð, um eigin uppfærslu. „Þessi uppfærsluhugmynd mín er að smitast yfir í nærumhverfið. Vinkonurnar eru stór hluti af mínu lífi og þær eru skemmtilega opnar fyrir þessari uppfærsluhugmynd.“

52 ára krakkaskratti

Spurð hvaða bók hún sé að vinna í segist Árelía hafa verið að skila handriti að nýrri bók; í raun sé hún á lokametrunum með tvær bækur en hún vilji sjaldnast tala um þær fyrir útgáfu. Landsmenn muna eftir bókinni „Sterkari í seinni hálfleik“ sem Árelía skrifaði um það æviskeið sem hún er á núna. Spurð um aldur segir hún snögg upp á lagið: ,,Ég er að verða 52 ára, algjör krakkaskratti ennþá!“

Þetta segir hún af einlægni og á eftir setningunni fylgir mikill hlátur.

Það er á hreinu að skemmtilegri og lífsglaðari konu er erfitt að finna á landinu.

Ertu búin að losa þig við allan efa, ótta og egóið? Er það þess vegna sem þú ert svona glöð? „Nei, ég held að við náum því nú seint, sama hvað maður reynir. Ég upplifi eins og allir aðrir hugsanir um að ég sé ekki nóg, að enginn muni lesa bækur mínar og þar fram eftir götunum. En síðan tala ég bara við sjálfan mig. Ég er búin að vera nógu lengi á lífi til að taka bara sénsinn. Það versta sem gæti gert er að ég geri mig af fífli.“

Tilgangurinn að miðla

Ertu búin að finna þinn tilgang í lífinu?

„Já og eflaust þess vegna er ég svona frjáls að gefa út efnið mitt. Tilgangur minn er að miðla til fólks. Ég geri það með því að stunda rannsóknir, vera kennari, skrifa bækur og greinar, pistla og blogg. En einnig með þeirri reynslu sem ég hef öðlast í lífinu.“

Árelía skildi fyrir tveimur árum og segir að skilnaðir séu atburðir í lífinu sem fái fólk til að hugsa hlutina upp á nýtt. ,,Minn skilnaður fékk mig til að fara upp úr hjólförunum og endurskoða svo margt í lífinu. Það var upphafið að því breytingaferli sem ég hef verið í.“

Að lokum talar Árelía um mikilvægi þess að njóta lífsins. Að líta ekki á sig sem fórnarlamb í neinum aðstæðum. ,,Slík hugsun myndi kalla á ennþá nýrri uppfærslu. Þessi stöðuga endurhugsun og uppfærsla svo ég geti notið lífsins er nauðsynleg. Það er mitt markmið í lífinu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál