Magnea um jólin í stríðshrjáðum löndum

Magnea Marinósdóttir.
Magnea Marinósdóttir.

Magnea Marinósdóttir hefur starfað í stríðshrjáðum löndum og hefur því upplifað togstreitu innra með sér þegar hún hefur komið heim um jólin. Hún starfar núna fyrir jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins. Fyrir henni tákna jólin friðsæld og fjölskyldusamveru. 

Ég hef starfað sem sérfræðingur í jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins síðan haustið 2017 en þar áður hafði ég dvalið erlendis í sjö ár vegna starfa minna í Bosníu og Hersegóvínu og Kósóvó sem ráðgjafi um konur, frið og öryggi hjá UN Women á vegum Friðargæslu Íslands og í Palestínu og Ísrael sem yfirkona sænsku kvenréttinda- og friðarsamtakanna Kvinna till Kvinna Foundation.“

Magnea hefur fundið fyrir miklum áhuga erlendis frá á jafnréttismálum. „Hingað hafa komi erlendar sendinefndir m.a. frá Færeyjum, Japan, Kína, Noregi, Nýja-Sjálandi, Suður-Kóreu og Tékklandi. Þegar við útskýrum stöðuna þá reynum við að forðast að ýta undir hugmyndir um að Ísland sé á einhvern hátt einstakt. Þess í stað vísum við í það sem á við um afnám misréttis alls staðar í heiminum, þ.e. við vísum í aldagamla baráttusögu kvenréttindakvenna og samtakamátt þeirra og við leggjum um leið áherslu á hversu langan tíma það hefur að jafnaði tekið og tekur enn að jafna stöðu og rétt kvenna m.a. með vísan í stöðu kvenna í atvinnulífinu hérlendis. Fyrir utan launamun kynjanna og kynskiptan vinnumarkað eru konur eingöngu 11% forstjóra og 22% framkvæmdastjóra íslenskra fyrirtækja.“

Eins og að synda í leðju fyrir konur

Magnea segir mikilvægt að fjárfesta í samfélagslegum innviðum kynjajafnréttis eins og greiddu mæðra- og feðraorlofi, dagvistun sem er aðgengileg og á viðráðanlegu verði fyrir alla, sveigjanlega vinnutíma og fleira mætti telja fyrir utan menninguna.

„Ég nota oft líkingarmál til að útskýra hvernig það er eins og að synda í vatni fyrir karla að komast áfram á toppinn í atvinnulífinu á meðan það er eins og að synda í leðju fyrir margar ef ekki flestar konur þar sem hin altumlykjandi mengaða menning er vatn í heimi karla en leðja í heimi kvenna og þjónar því sem er óformlegt forskot fyrir karla sem konur þurfa að vinna upp. Stundum reyna þær að gera það með því að temja sér allt hið karllæga má segja á meðan það er ekki endilega vænlegt til árangurs. Frekar að vinnustaðamenningin taki stakkaskiptum í átt að jafnréttismenningu með fjölgun kvenna sem koma inn með sitt sjónarhorn og hagsmuni og jafna þar með muninn. Það sama gildir um jafnréttismál erlendis þar sem hlutur kvenna er mun lakari en hérlendis.“

Jólin með fjölskyldunni

Hvaða merkingu hafa jólin í þínum huga?

„Friðsæld og fjölskyldusamvera. Ég hef alltaf kunnað að meta friðsæld jólanna. Það er stundum eins og tíminn standi í stað. Maður er heima í sínum eigin heimi að lesa og narta í smákökur. Ég átta mig líka á því að jólin eru auðvitað sorgartími fyrir marga sem eiga um sárt að binda af margvíslegum ástæðum. Það getur líka verið erfiður tími fyrir fólk þar sem jólin kalla fram vanlíðan vegna hugrenningatengsla aftur til atburða fortíðar sem voru erfiðir í lífi þess. Ég fór sérstaklega að hugsa um þetta þegar ég bjó í Danmörku og sá auglýsingu í aðdraganda jólanna um sálfræðiaðstoð fyrir fólk við að afbyggja jólin þannig að þeir sem tengdu jólahald við persónulegar hörmungar í þeirra fortíð gætu farið að njóta jólanna. Jólagjöf samfélagsins til sinna minnstu bræðra og systra. Hversu fallegt er það?“

Að taka þátt í ólíku helgihaldi

Hvernig hefur verið að upplifa jólin á stríðshrjáðum löndum? „Ég hef aldrei upplifað jólin í stríðshrjáðum löndum þar sem ég hef alltaf komið heim um jól og áramót. Það sem ég hef hins vegar upplifað eru trúarhátíðir múslima, gyðinga og rétttrúnaðarkirkjunnar sem eru haldnar á öðrum tíma en kristin jól. Það hefur verið ánægjuleg upplifun því líkt og við leggjum áherslu á samveru með fjölskyldunni sem og friðsamleg og mannúðleg gildi þá gildir það sama um hin trúarbrögðin. Markmið föstunnar á ramadan er t.d. iðkun þakklætis og samfélagslegrar ábyrgðar. Það er að vera þakklátur fyrir það sem þú hefur – mat til að borða og annað – og gefa til annarra sem eru ekki eins farsælir og þú eins og fátækir. Því er lagt mikið upp úr samveru með fjölskyldunni og örlæti. Það sem er líka gaman í fjölmenningarsamfélagi eins og á Balkanskaganum er að fólk, sem er mismunandi trúar, tekur þátt í helgihaldi hvað annars þó það fari vissulega eftir aðstæðum hverju sinni en það var t.d. mjög algegnt í Bosníu og Hersegóvínu, a.m.k. áður en borgarstríðið braust út árið 1992.“

Réttindaleysi fólks skuggi á alla sól

Magnea segir að það sem hún hafi upplifað sterkt í kringum jólin sé hið furðulega ferðalag úr einum veruleika yfir í annan. „Þegar maður getur bara hoppað upp í flugvél á Kabúl-flugvelli og lent sólarhring seinna í Keflavík! Það er einfaldlega mjög súrrealískt eða óraunveruleg upplifun. Ég fann mikið fyrir þessu þegar ég fór frá Palestínu sumarið 2014 sama dag og loftárásirnar á Gasa hófust og var hér á meðan á þeim stóð. Fólk vildi tala við mig um stöðuna en ég gat það ekki. Helltist eiginlega yfir mann einhvers konar skömm yfir því að vera t.d. á veitingastað að borða góðan mat og drekka vín á meðan fólk sem ég þekki var að flýja heimili sín vegna loftárása! Ástandið á hernumdu svæðunum er svo miklu, miklu verra en maður getur nokkurn tímann ímyndað sér fyrr en maður kemur þangað og fer að upplifa ástandið með eigin skynfærum. Maður kemur með ákveðna þekkingu í farteskinu en svo fer maður að upplifa ástandið sálrænt og tilfinningalega og það umbreytir þekkingu manns þannig að allar „staðreyndir“ verða að „tilfinningalegum staðreyndum“ ef svo má að orði komast. Það er að segja að upplifun manns af staðreyndum veruleikans fer að taka lit af þeirri tilfinningalegu upplifun sem maður verður fyrir og það hefur áhrif á líðan manns. Þannig fer hernámsástandið að ganga nærri manni. Það gerði það m.a. að verkum að ég var oft með vont bragð í munninum yfir öllu óréttlætinu sem ég varð vitni að beint eða vissi um og á sama tíma var það svo takmarkalaust lítið sem ég gat gert í því. Það varð þar af leiðandi erfitt að finna til gleði yfir góðu starfi þeirra samtaka sem ég vann fyrir eða þeirra samtaka, sem við studdum til dáða, því að hernámsástandið og réttindaleysi fólksins varpaði skugga á alla sól.“

Þegar fótboltinn vakti upp hamingjuna

Hún segist hafa áttað sig á því hversu mikið hún þyrfti á „sól“ að halda þegar hún fór að horfa á leikinn milli Íslands og Portúgals í Evrópumóti fótboltaliða og varð ofsaglöð þegar kom í ljós að Ísland mundi halda áfram keppni! „Ég var með

ekkert samviskubit eða skömm yfir að vera glöð! Ég sem hef aldrei haft áhuga á fótbolta fór að horfa á hvern einasta leik af mikilli innlifun. Ein vinkona mín hér heima var meira segja farin að hafa áhyggjur þegar hún uppgötvaði fótbótaáhuga minn sem endurspeglaðist á Facebook og spurði mig hvort væri ekki allt í lagi? Nei, ekki beinlínis þannig séð en fótboltinn varð mín sólarpilla. En svo ég víki aftur að kreppunni sem ég upplifði var að mér fannst og finnst á vissan hátt enn alþjóðasamfélagið vera hluti af vandanum en ekki lausninni eins og staðan er núna og búið að vera lengi. Mér fannst mannúðar- og þróunarsamtökin stundum þjóna sama tilgangi og þegar snuð með sykri er sett upp í barn sem grætur...til að sefa Palestínumenn til hagsbóta fyrir ísraelsk stjórnvöld sem héldu á meðan áfram sinni herskáu landtöku- og yfirráðastefnu í krafti samstöðuleysis alþjóðasamfélagsins um hvað skuli gera þegar stjórnvöld brjóta ítrekað gegn alþjóðalögum á sviði mannúðar og mannréttinda.“

Magnea segist ein þeirra sem efast ekkert um tilvistarrétt Ísraelsríkis og veit að það eru margar hliðar á málinu og enginn einn saklaus eða sekur, þar með talið erlend ríki. „Það sem er vandamálið hins vegar að mínu mati er að aldagamalt óréttlæti í garð gyðinga einkum í Evrópu var leyst með óréttlæti gagnvart Palestínumönnum sem misstu heimili sín í hundraða þúsunda tali við stofnun ríkis Ísraels. Bara það að viðurkenna að Palestínumenn hafa orðið fyrir óréttlæti og hafa tilkall til réttlætis með sama hætti og gyðingar sögulega væri kannski fyrsta skrefið í átt að friðsamlegri lausn. Þess í stað hafa stálin stinn tekist á og þannig hefur það haldið áfram sl. 70 ár og versnar ef eitthvað er eftir valdatöku Donalds Trumps í embætti forseta Bandaríkjanna.“

Á síðustu stundu fyrir jólin

Hvað gerir þú alltaf um jólin? „Ég er alltaf með fjölskyldu minni. Í aðdraganda jólanna eru nokkrir fastir liðir eins og að fara á jólatónleika Kammersveitar Reykjavíkur og Mótettukórsins og að halda matarboð fyrir systkini mín og fjölskyldur þeirra annan í jólum. Ég fer svo oft norður milli jóla- og nýárs til að heimsækja pabba og mömmu eða um áramót. Ég finn aldrei fyrir jólastressi. Jólin fyrir mér eru einföld og mér finnst það tilheyra að vera á síðustu stundu á Þorláksmessu!“

Ef þú fengir eina ósk um jólin, um hvað væri hún? „Óskin væri: Friður á jörðu og jafnari skipting gæðanna en það helst jú í hendur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál