„Konur ættu að forðast að rífa sig niður“

Unnur Ösp hlakkar til að þess að komast í sumarfrí ...
Unnur Ösp hlakkar til að þess að komast í sumarfrí með fjölskyldunni. Ljósmynd/Saga Sig

Unnur Ösp Stefánsdóttir hefur komið víða við á ferli sínum og er ein ástsælasta leikkona þjóðarinnar. Hún fagnar nú um þessar mundir sinni sjöundu Grímutilnefningu fyrir hlutverk Nóru í Dúkkuheimili-annar hluti, sem sett var upp í Borgarleikhúsinu fyrr í vetur. Einnig leikstýrði hún Kæru Jelenu í Borgarleikhúsinu í vetur sem gengið hefur fyrir fullu húsi og verður aftur á fjölunum næsta vetur. Unnur er á því að ef hún hefði ekki orðið leikkona, hefði hún eflaust orðið sálfræðingur. Enda segir hún báðar greinar fjalla um fólk og reyna að skilja mannlegt eðli, þó nálgunin sé ólík.

Hvað er á döfinni hjá þér þessa dagana?

„Ég er svona um það bil að komast í langþráð sumarfrí með fjölskyldunni eftir annasaman vetur. Ég á nokkra tökudaga eftir í sjónvarpsseríunni Ráðherrann sem nú standa yfir tökur á fyrir RÚV og Saga Film. Það er gríðarlega skemmtileg og spennandi leikin sería sem gerist í íslenskum stjórnmálum og er leikstýrt af Nönnu Kristínu Magnúsdóttur og Arnóri Pálma.“

Hvað getur þú sagt mér um að sameina hina ólíku parta lífsins. Því að vera móðir, dóttir, eiginkona og leikkona?

„Það er áskorun fyrir alla að sameina feril og fjölskyldulíf. Ég held að lykilatriðið sé að giftast rétta manninum, þá er hægt að finna út úr þessu öllu saman. Einnig að blanda saman skipulagi, slaka og aðeins kæruleysi.“

Hvað muntu gera í sumar?

„Við fjölskyldan verðum á faraldsfæti innanlands í sumar. Við erum að leggja lokahönd á æðislegt hús tengdafjölskyldunnar á Snæfellsnesi og munum eyða þar megninu af sumarfríinu. Eins ætlum við í Flatey á Breiðafirði og norður til Akureyrar á fótboltamót. Ef veðrið heldur áfram að leika svona við okkur þá verður þetta tryllt gleði.“

En næsta vetur?

„Ég mun æfa í tveimur ólíkum verkum í Borgarleikhúsinu. Einu nýju, spennandi íslensku verki sem ég má lítið tjá mig um á þessu stigi. Svo verði ég með frábærum leikhópi í spennandi höndum Brynhildar Guðjónsdóttur í jólasýningu Borgarleikhússins á Vanja frænda eftir Tsjekhov. Það er spennandi klassískt verk um breyskleika okkar manneskjunnar og leit okkar að hamingjunni sett fram á afar kómískan og sjarmerandi hátt.“

Er eitthvað eitt sem skiptir þig máli meira en annað?

„Ég hef komist að því á síðustu árum, sérstaklega eftir að fjölskyldan mín stækkaði hratt og mikið þegar við tvöfölduðum barnafjöldann á einu bretti, að jafnvægi er alger lykill að því að maður geti notið sín í lífinu. Það felst aðallega í því að vinna alls ekki of mikið. Maður verður að næra sig með skapandi og ögrandi verkefnum, því þannig þroskast maður og fær fullnægju sem gerir það að verkum að maður hefur miklu meira að gefa börnunum sínum þegar maður er með þeim. En ef maður er farinn að taka of mikið að sér í starfi þá  hefur maður ekkert að gefa heima við. Þetta jafnvægi er viðkvæmt en lífsnauðsynlegt.“

Maður verður að næra sig með skapandi og ögrandi verkefnum, því þannig þroskast maður og fær fullnægju sem gerir það að verkum að maður hefur miklu meira að gefa börnunum sínum þegar maður er með þeim að mati Unnar Aspar. Ljósmynd/Saga Sig

Hvað er leiklist í þínum huga?

„Galdurinn sem felst í því að hreyfa við tilfinningalífi fólks. Á bestu stundum fær leiklistin fólk til að endurskoða ákveðna hluti í lífi sínu, læra eitthvað nýtt eða bara fá tilfinningalega útrás með því að gráta mikið eða hlægja mikið.“

Vissirðu alltaf að þú yrðir leikkona?

„Já ætli það ekki. Ég var farin að semja mjög dramatíska einleiki og ljóð afar ung að árum. Ef ég hefði ekki endað í leiklist þá hefði ég líklega unnið við eitthvað listum tengt eða orðið sálfræðingur. Leiklistin er mjög skyld sálfræðinni þar sem við erum stöðugt að greina og reyna að skilja af hverju fólk hagar sér eins og það hagar sér. Svo snúast báðar greinarnar um það í grunninn að hlusta í alvöru á fólk.“

Ef Unnur Ösp hefði ekki endað í leiklist þá hefði hún líklega unnið við eitthvað listum tengt eða orðið sálfræðingur. Ljósmynd/Saga Sig

Hver ertu þegar þú kemur heim úr vinnunni?

„Bara útgáfan af sjálfri mér sem er að ná sér niður eftir mikla tilfinningalega útrás og ferðalag persónunnar á sviðinu hverju sinni. Það er svolítið merkilegt hvað maður upplifir brjálæðislega hluti á sviðinu á næstum hverju kvöldi, svo miklu stormasamara líf en blessað hversdagslíf manns. Það er alla vegana ekki hægt að segja að maður fái ekki útrás fyrir spennu og nýjar upplifanir í leikhúsinu. Það er ákveðinn lúxus.“

Þegar verkefni lífsins koma, hvað grípur þig þá?

„Held að mín mesta gæfa felist í jákvæðu hugarfari. Ég er léttlynd að eðlisfari og lausnamiðuð. Það lenda allir í áföllum og verkefnum á ævi sinni, það sem greinir að er hvernig við vinnum úr þeim. Þá er stuðningur frá sínum nánustu, grunn gildismat manns og eiginleikinn að sjá hálf fulla glasið mjög mikilvægt.“

Hvað ættu allar konur að gera að þínu mati einu sinni í lífinu?

„Eignast barn ef þær eiga möguleika á því. Þvílík breyting á öllu sjónarhorni, tilgangi og lífshamingju. Þær þurfa samt ekki allar að raða þeim inn eins og ég.“

Hvað ættu þær að forðast?

„Að ritskoða sig og rífa sig niður. Tækifærin eru endalaus og við getum allt sem okkur dreymir um.“

Konur ættu að forðast það að rífa sig niður að ...
Konur ættu að forðast það að rífa sig niður að mati Unnar Aspar. Ljósmynd/Saga Sig
mbl.is