Uppáhaldsstaðurinn er þar sem ég bý

Sigríður María Egilsdóttir útskrifaðist með mastersgráðu í lögfræði fyrr í …
Sigríður María Egilsdóttir útskrifaðist með mastersgráðu í lögfræði fyrr í sumar frá Háskólanum í Reykjavík en heldur út til Stanford í framhaldsnám í alþjóðlegri viðskiptalögfræði á næstu dögum. mbl.is/Aðsend

Sigríður María Egilsdóttir útskrifaðist með mastersgráðu í lögfræði fyrr í sumar frá Háskólanum í Reykjavík en heldur út til Stanford í framhaldsnám í alþjóðlegri viðskiptalögfræði á næstu dögum.

Hvað ertu að gera í New York um þessar mundir?

„Ég vann við lögfræðistörf hérna úti í sumar. Kláraði þá törn á síðustu dögum og er núna að undirbúa flutninga til Kaliforníu.“

Hvað finnst þér skemmtilegast að gera í New York?

„Ég myndi byrja hinn fullkomna dag á því að grípa mér kaffibolla á litla kaffihúsinu sem er nokkrum metrum frá íbúðinni minni og lesa fréttirnar. Síðan myndi ég gefa mér tvo tíma í að spila tennis – ekki mjög vel reyndar, ég byrjaði að spila núna í sumar en þetta er hrikalega gaman. Um kvöldið færi ég út að borða á uppáhaldstapasstaðinn minn, El Quinto Pino. Síðast á dagskrá væri svo ferð til Williamsburg í Brooklyn í alveg geðveikt bíóhús sem heitir Nitehawk Cinema. Stemningin er eins og blanda af Snaps og Bíó Paradís; léttir réttir, heimalagað popp og kokkteilar yfir bíómynd – frábært konsept. Mæli innilega með því að fólk sem leggur leið sína til New York kíki þangað ef það hefur færi á.“

Nitehwk Cinema í Brooklyn er í uppáhaldi hjá Sigríði Maríu.
Nitehwk Cinema í Brooklyn er í uppáhaldi hjá Sigríði Maríu. rós Líndal

Hver er uppáhaldsbókin þín?

„Nú hef ég alltaf verið mikið fyrir ævintýrasögur og í uppáhaldi er serían „The Kingkiller Chronicles“ eftir Patrick Rothfuss. Ég bíð spennt eftir þriðju og síðustu bókinni í seríunni, þó að höfundurinn sé ekkert að flýta sér.“

Sigríður María heldur upp á bókaseríuna „The Kingkiller Chronicles“ eftir …
Sigríður María heldur upp á bókaseríuna „The Kingkiller Chronicles“ eftir Patrick Rothfuss.

Áttu þér uppáhaldsljóðskáld?

„Ætli ég verði ekki að tilnefna Stein Steinarr eftir fullalvarlegan flutning á Verkamanninum í stóru upplestrarkeppninni í 7. bekk. Í seinni tíð hef ég frekar eignast uppáhaldsljóð, frekar en skáld. Upp úr standa „Do not go gentle into that good night“ eftir Dylan Thomas og „The Love Song of J. Alfred Prufrock“ eftir T. S. Eliot.“

Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu?

„Einhvers konar lífsfullnæging hugsa ég. Fyrir mitt leyti fælist hún í að geta sinnt almennilega litlum hópi fólks sem telst minn innsti hringur, samhliða því að vera með eitthvað verkefni til að sinna. Er svolítið eins og hundur – ef ég hef ekki næg verkefni leiðist mér og líður illa.“

Hvaða þýðingu hefur menntun fyrir þig?

„Hvers kyns menntun er af hinu góða, á meðan maður hefur áhuga á því sem maður er að læra. Það þarf ekki að hafa áhuga á öllum áföngum, en mikilvægt að hafa áhuga á að læra sviðið.“

Er eitthvert fag í skólanum sem þú kannt betur við en önnur?

„Gerðardómsréttur og hvers kyns málflutningur.“

Áttu þér uppáhaldstískumerki?

„Eiginlega ekki, en ég finn alltaf eitthvað fallegt í Other Stories. Svo finnst mér AYR-gallabuxur æði. Þetta er í fyrsta sinn sem ég eyði einhverjum pening í buxur síðan ég keypti mér forláta Diesel „low rise“-gallabuxur fyrir fermingarpeninginn. Það þarf varla að fylgja sögunni að þetta er líka í fyrsta skipti sem ég er ánægð með að hafa eytt pening í buxur.“

En uppáhaldsmatur?

„Nú erum við að tala saman. Í sumar var það léttgrilluð og þunnskorin nautalund á beði af klettasalati með sítrónu, ólífuolíu og parmesanflögum. Uppáhaldsrétturinn er samt líklega jólamaturinn; villibráð með kantarellusósu, waldorf og góðum kartöflum.“

Hverjir eru kostir þínir?

„Ég á auðvelt með að setja mig í spor annarra og „greina stöðuna“, gef (held ég) góð ráð þó að ég fylgi þeim ekki alltaf sjálf og svo bý ég til frekar góða kokkteila.“

En brestir?

„Svona okkar á milli er ég með frestunaráráttu. Hvort sem það kemur að verkefnaskilum eða að mæta á réttum tíma verð ég að finna pressuna sem myndast í tímaþröng til að komast almennilega af stað.“

Áttu þér uppáhalds hús/heimili?

„Mér finnst alltaf best að koma heim til mín, svo að uppáhaldsheimilið mitt er bara staðurinn sem ég bý á hverju sinni. Hvað arkitektúr varðar er ég mjög hrifin af hönnun Basalt arkitekta; Bláa lónið, sundlaugin á Hofsósi, GeoSea og fleira. Amma mín, ásamt frábæru teymi, er reyndar arkítektinn á bakvið Basalt. Þó að ég sé kannski ekki alveg hlutlaus er stoltið mjög raunverulegt.“

Hvað arkitektúr varðar heldur Sigríður María upp á hönnun Basalt …
Hvað arkitektúr varðar heldur Sigríður María upp á hönnun Basalt arkitekta. Vök Baðhús eru gerð af þeim.

Hvað er ómissandi í snyrtibuddunni?

„Clinique Smart Custom-Repair Serum + Eye Treatment

Supergoop Unseen Sunscreen

Bronzing Gel frá Sensai

Mac Pro Longwear Paint Pot

Lítil augnskuggapalletta (með brúnum og gylltum lit).“

Bronzing Gel frá Sensai er í snyrtibuddunni hennar Sigríðar Maríu.
Bronzing Gel frá Sensai er í snyrtibuddunni hennar Sigríðar Maríu.

Hvað er besta ráðið?

„Við erum öll aðalhlutverkið í okkar eigin lífi. Eins yfirþyrmandi og það kann að virðast okkur, þá þýðir það líka að við erum aukahlutverk í lífi annarra – misstór og mismikilvæg – en aukahlutverk engu að síður. Stundum er það besta sem við gerum bara að gera okkur grein fyrir því hvernig við getum sem best sinnt því aukahlutverki í sögu fólksins í kringum okkur.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál