Vill helst vera í náttfötunum á jólunum

Vala Fanney segist vera pínu „lost“ í lífinu um þessar …
Vala Fanney segist vera pínu „lost“ í lífinu um þessar mundir. Ljósmynd/Vala Fanney

Verðandi bókmenntafræðinginn Völu Fanneyju Ívarsdóttur langar til að vera í náttfötum á aðfangadag. Hún hefur talað fyrir því í nokkur ár og vonast til þess að í ár taki fjölskyldan undir með henni og þau haldi náttfatapartí.

Vala er að ljúka BA-námi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands um þessar mundir. Þetta haust hefur þó ekki verið nákvæmlega eins og hún gerði ráð fyrir en í byrjun árs komst hún inn í háskóla í London og stefndi á að flytja til Bretlands í haust. Vegna veirunnar setti hún þau plön á ís og hefur eytt haustinu hér heima. 

Þótt plön haustsins hafi farið í vaskinn hefur Vala komist að því að hún er dugleg að búa sér til verkefni. Hún heldur úti hlaðvarpsþáttunum Við vitum ekki neitt ásamt vinkonu sinni Elínu Ernu Stefánsdóttur. Hún sér einnig um að klippa og framleiða hlaðvarpsþættina Beðmál um bókmenntir sem vinkona hennar Katla Ársælsdóttir stýrir. 

Vala heldur líka úti IGTV þáttunum Völufest sem hún birtir á instagramsíðu sinni þar sem má fylgjast með lífi Völu. 

„Ég hugsa að ég hafi upplifað mig svolítið „lost“ vegna þess hvað það var allt í einu stór hluti af lífi mínu í lausu lofti, öll plön sem ég hafði gert voru orðin að engu og ég vissi ekkert, og veit kannski ekki almennilega ennþá, hvað mig langar að gera í lífinu. Ég veit að ég er ekki ein í þeirri stöðu, það er svo ótrúlega margt sem er hægt að gera og þegar maður hefur áhuga á mörgu er erfitt að setja fókusinn á eitthvað eitt. Það er líka kannski svolítið óvenjulegt að viðurkenna það og deila með fólki á netinu að maður viti ekkert hvað maður er að gera, en skemmtilegt og áhugavert að sjá hvað fólk virðist tengja við það,“ segir Vala í viðtali við Smartland. 

Vala hefur tekið upp á ýmsu skemmtilegu í IGTV þáttum …
Vala hefur tekið upp á ýmsu skemmtilegu í IGTV þáttum sínum Völufest. Ljósmynd/Vala Fanney

„Ég hef áttað mig á því að ég er mjög dugleg að búa mér til verkefni og er þakklát fyrir þann hæfileika. Meðfram vinnu og skóla hefur allt efni sem ég hef verið að gefa út tekið töluverðan tíma en þrátt fyrir það hef ég fundið gríðarlega mikla ánægju í því að fara í göngutúra og hef gert það að venju að fara í daglega göngu  það bætir, hressir og kætir! Einnig hef ég verið að skrifa mikið og kannski bara aðeins verið að kynnast sjálfri mér svolítið betur í gegnum dagbókarskrif,“ segir Vala. Auk þess stofnaði vinkonuhópurinn hennar bókaklúbb þar sem þær hittast reglulega í gegn um Zoom og spjalla um bækur. 

Spurð hvort hún sé búin að finna sér eitthvað skrítið áhugamál eins og svo margir í heimsfaraldrinum segir Vala að svo sé ekki, fyrir utan að hún fer alltaf í göngutúr. „Annars hef ég ekki tekið upp á neinu steiktu nema þá kannski bara að ég hef verið að prófa mig áfram og tel mig hafa fullkomnað ískaffið mitt sem hefur gert alla daga örlítið betri,“ segir Vala. 

Vala hefur komið því upp í rútínuna að fara í …
Vala hefur komið því upp í rútínuna að fara í göngutúr. Ljósmynd/Vala Fanney

Hún segist ekki vera mikið jólabarn en nokkrar jólahefðir séu ómissandi. „Til dæmis hittumst við mörg úr fjölskyldunni í hádeginu á aðfangadag í möndlugraut en við ætlum að útfæra það einhvern veginn öðruvísi í ár og sama verður með önnur jólaboð. Fram að jólum verð ég að vinna í snyrtivöruverslun í Kringlunni og stemningin sem ríkir í kringum það kemur manni alltaf í smá jólaskap,“ segir Vala. 

Ertu búin að ákveða jólakjólinn í ár eða mun kósígallinn koma sterkur inn?

„Ég hef reynt í nokkur ár að hvetja til náttfatapartís á aðfangadagskvöld við litlar undirtektir  kannski verður þetta árið þar sem ég fæ loksins mínu framgengt!“

View this post on Instagram

A post shared by vala 🍒 (@valafanney)

mbl.is