Atli er alinn upp í Sævari Karli

Fáir Íslendingar hafa náð þeim árangri sem Atli Freyr Sævarsson hefur gert í heimi tískunnar alþjóðlega. Hann lærði markþjálfun og er nú að byggja upp sitt eigið fyrirtæki á því sviði.

Atli er búsettur í Þýskalandi og hefur í gegnum árin unnið fyrir tískuhús á borð við Hugo Boss, Prada og Hermés. Í dag býr hann í borginni Dusseldorf. Hann á ekki langt að sækja hæfileika sína þegar kemur að tískunni en hann er sonur þeirra Sævars Karls Ólafssonar og Erlu Þórarinsdóttur en þau ráku verslunina Sævar Karl um langt skeið.

Hann lærði heimspeki í Þýskalandi og tók meistarapróf í faginu á sínum tíma. Bætti seinna við sig MBA-gráðu og var að vinna sig upp í metorðastiganum þegar hann uppgötvaði mikilvægan hlut þegar kom að honum sjálfum og vinnunni hans.

„Ég fann að eftir því sem ég færðist ofar í stjórnendastöðu, þá fjarlægðist ég fólkið á gólfinu sem var í raun og veru ástríða mín. Ég var orðinn sölustjóri Hermés í Norður-Evrópu og starfaði beint undir rekstrarstjóra þegar ég ákvað að nota menntun mína og reynslu og fara í að stofna mitt eigið fyrirtæki þar sem ég vinn maður á mann og hef þannig meiri áhrif á fleiri fyrirtæki.“

Atli ákvað á þessum tíma að læra markþjálfun til að geta spurt réttra spurninga.

„Verkefnin sem ég er að vinna núna er að aðstoða stjórnendur í að endurskipuleggja skipuritið í fyrirtækjum sínum og láta hlutina snúast um upplifun viðskiptavinarins þar sem lögð er áhersla á að finna réttu gildin og að starfsmenn lifi þessi gildi og komi þeim þannig áfram til viðskiptavina sinna.“

Með sterkar taugar til Íslands ennþá

Atli er fæddur og uppalinn á Íslandi og á góðar minningar frá æskuárunum. Í dag kallar hann Þýskaland heimaland sitt þó hann hafi margoft ætlað að flytja til Parísar eða New York þá er eitthvað við Þýskaland sem dregur hann alltaf til baka aftur.

„Ég er mjög þakklátur fyrir rætur mínar á Íslandi og lærði ég einstaklega margt áhugavert í æsku sem ég gleymi aldrei. Sem dæmi var ég 12 ára þegar ég stóð fyrstu vaktina mína í verslun foreldra minna, hjá Sævari Karli í Bankastræti og man ég enn þá í dag hver fyrsta flíkin var sem ég seldi; Burberry-frakki sem ég var einstaklega stoltur af að selja. Ég er á því að Þjóðverjar og Íslendingar séu ákaflega ólíkt fólk, en það er kannski ástæðan fyrir því að þjóðverjar eru svona heillaðir af okkur Íslendingum.“

Foreldrar Atla búa í München á veturna og á Íslandi á sumrin sem gefur honum góða ástæða til að koma reglulega í heimsókn hingað heim. Meðfram uppbyggingu á eigin fyrirtæki hefur Atli gert hvað hann getur til að vera í stöðugri framþróun með sjálfan sig.

„Ég lifi mjög heilbrigðu lífi og reyni eins vel og ég get að stíga inn í að vera maðurinn sem mig hefur alltaf dreymt um að vera. Þannig get ég einnig aðstoðað annað fólk við að ná sínum markmiðum á þessu sviði. Ég er rosalega forvitinn og mun án efa seint þreytast á því að læra nýja hluti um mig sjálfan og fólkið í kringum mig.

Ástæðan fyrir því að ég valdi heimspeki á sínum tíma var forvitni mín að skilja hvað það er sem hreyfir við okkur mannfólkinu. Af hverju við gerum það sem við gerum og hver kjarninn er í hverri hugmynd og hvað gerir okkur að því sem við erum. Siðfræði var síðan rauði þráðurinn sem heillaði mig mikið.“

Fólkið áhugaverðara en töskurnar sem hann seldi

Atli er ekki stoltur af þeim þúsundum af handtöskum sem hann seldi heldur af öllu fólkinu sem hann réð í vinnu hjá fyrirtækjunum sem hann vann hjá og sjá hvert það hefur leitt fólk.

„Ég hef alltaf horft á persónuleika fólks og réð gott fólk frekar en fólk sem var gott í að selja vörur. Þannig gat ég þjálfað upp aðila sem voru með áhugaverðan persónuleika og margir af þessum einstaklingum vinna nú í stjórnendastöðum fyrir alls konar alþjóðleg tískuhús sem mér finnst gaman að fylgjast með. Það gefur mér tækifæri á að tengjast tískunni áfram og að fá þessa ánægju sem fylgir því að sjá fólki ganga vel í sínu.“

Hvað ertu með á skrifborðinu hjá þér þessa dagana?

„Ég hef verið að skrifa tvær bækur. Önnur heitirWhy NotNaked? Þar sem ég er að fást við hugmyndir tengt tísku og heimspeki. Hugmyndin spratt upp úr hugsuninni um dýpri tilgang tískunnar. Mér finnst æðislegt að vera á þessu lífsskeiði sem ég er á núna þar sem ég get opnað á alls konar tækifæri í lífinu. Ég er í þjónustuhlutverki gagnvart verkefnunum sem koma upp í lífinu og í bókina set ég einnig þá hugsun. Ég hef einnig verið að vinna að annarri bók á undanförnum árum, sem er skáldsaga er gerist á Kúbu.“

Árið búið að vera mjög spennandi

Hvernig er árið búið að vera?

„Árið er búið að vera mjög spennandi og á allan hátt mjög jákvætt fyrir mig persónulega. Í upphafi ársins var ég með mörg járn í eldinum. Meðal annars var ég í samningaviðræðum við að setja upp markþjálfunarskóla og þjálfunarkerfi hér í Dusseldorf með stóru fyrirtæki sem er nú þegar með mikla veltu. Vegna kórónuveirunnar þá hafa þau plön verið sett á ís og ég verið að færa mig yfir í að vinna með fólki í ráðgjöf og markþjálfun meira í gegnum netið.

Það er eitthvað sem ég hefði aldrei gert ef ekki væri út af ástandinu. Ég þótti einstaklega svartsýnn á sínum tíma þegar ég taldi lokun verða í alla vegana sex vikur. Ég get brosað að því nú sitjandi í lokuðu samfélagi rétt fyrir jólin, en hef komist á þann stað á árinu að vera að vinna með fólki úti um allan heim í gegnum netið. Ég lít á það þannig að mér hafi bara verið ætlað að vinna með fólki víða um heiminn og það hefur fært mér tækifæri sem ég hefði aldrei fengið ef ekki væri fyrir ástandið.“

Segir að hann sjálfur sé góður félagsskapur

Atli býr einn og segist njóta þess út í ystu æsar.

„Það eru fáir sem mér líður jafnvel með og mér sjálfum. Þótt ég elski að hafa fólk í kringum mig og að vinna með alls konar fólki. Ég sé framtíðina þannig fyrir mér um leið og ástandið breytist, en þangað til ætla ég að gera mitt besta í að vera góður félagsskapur fyrir mig og aðilana sem ég vinn fyrir dag frá degi. Ég er feginn að vera í Þýskalandi í dag og held að það sé í raun og veru hvergi betra að vera en hér og í Skandinavíu í þeirri stöðu sem ríkir í heiminum í dag.“

Þakklæti honum ofarlega í huga

Atli segir að hann líti um öxl til ársins sem er liðið og upplifi djúpt þakklæti fyrir lífið og tilveruna.

„Ég er þakklátur fyrir allt sem ég á og hef. Ég er þakklátur fyrir vini mína og fjölskyldu ég ber virðingu fyrir öllu því sem hefur gerst og er þakklátur fyrir að veiran hefur ekki náð til mín og minna. Ég upplifi okkur í miðjum storminum, þar sem við munum aldrei geta farið þangað sem við erum að koma frá.

Ég tel okkur vera í miðjunni á stórum breytingum þar sem við munum fara inn í nýtt hagkerfi og með yngri stjórnendur. Réttindi minnihlutahópa skipta mig máli og það að allir geti haft það gott.“

Málefni kvenna eru honum hugleikin og réttindabarátta þeirra.

„Ég veit að það hafa orðið miklar framfarir í þessum málum á undanförnum fjörutíu árum. Það er ótrúlegt í mínum huga samt hvað þessir hlutir taka langan tíma. Það er ótrúlegt að ekki sé búið að ná fullu jafnrétti á þessu sviði. Það á að vera jafnrétti í heiminum og samvinna kvenna og karla er það eina sem virkar í mínum huga. Ég vildi að ég þyrfti ekki að nefna þetta en mig langar að sjá þessar breytingar verða enn þá meiri og hraðari. Því við þurfum að byggja upp framtíðina á grunni sem felur í sér samvinnu og aðkomu allra; kvenna og karla. Ég held að þessi hugsun sé einmitt einnig einkennandi hjá ungum stjórnendum.

Ég hef ekki lengur trú á því að peningar eigi að vera einungis fyrir fáa útvalda og þeir sterku eigi að koma fyrst. Það er gamaldags hugsun sem virkar ekki lengur. Við þurfum að fylgja hvert öðru og við þurfum nýsköpun til að finna leiðir svo að allir hafi það sem best. Það verður ekkert aftur til fortíðarinnar heldur áfram til framtíðar sem á að verða vænlegur staður fyrir alla að fara á.“

Atli segir þessa hugsun hafa orðið áberandi í kórónuveirunni. Þar sem við fylgdumst betur með eldra fólki og hjálpuðumst meira að sem hópur.

Vænlegt að eiga eitthvað áður en maður gefur það áfram

Áttu eitt gott ráð inn í nýja árið?

„Settu athyglina á þig svo þú getir verið til staðar fyrir aðra. Finndu út alla hluti sem gera þér gott og gerðu mikið af þeim. Finndu ástina og lífshamingjuna innra með þér en ekki í öðru fólki. Þú getur aldrei breytt öðru fólki og aðlagað það þínum þörfum. Heldur einungis breytt áliti þínu á því sem þú sérð og ef þér líkar ekki það sem þú sérð, þá getur þú alltaf bara fært þig til. Ég gerði það og það hefur verið einstakt.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »