Að standa keikur hvað sem dynur á

Berglind Björk Hreinsdóttir ráðgjafi og markþjálfi í Lausninni.
Berglind Björk Hreinsdóttir ráðgjafi og markþjálfi í Lausninni.

„Rannsóknir hafa sýnt að eitt af því mikilvægasta í lífi okkar er byggja upp seiglu og þjálfa hana. Seigla eða þrautseigja er oftast skilgreind sem hæfni til þess að jafna sig eftir áföll, aðlagast breytingum og halda áfram þrátt fyrir mótlæti. Þetta er hæfni okkar til þess að standast það mótlæti sem lífið býður upp á og koma til baka og vaxa þrátt fyrir niðursveiflur lífsins,“ segir Berglind Björk Hreinsdóttir, ráðgjafi og markþjálfi hjá Lausninni, í nýjum pistli:

Í lífinu stöndum við frammi fyrir margskonar mótlæti, persónulegum áföllum, veikindum, ástvinamissi, einelti, fjárhagslegum áföllum, atvinnumissi og fleiru. Svo er það þessi sameiginlegi veruleiki okkar sem birtist okkur í fréttunum og við erum að takast á við eins og nú, Covid-19-heimsfaraldurinn. Þetta sýnir að eitt að því mikilvægasta sem við þurfum að læra að takast á við og vinna með er krefjandi lífsreynsla. Með því að leggja áherslu á seigluþjálfun getum við haft áhrif á og getum aðlagast þegar upp koma breytingar, mótlæti og áföll.

Að vera þrautseigur þýðir ekki að við upplifum ekki streitu, tilfinningalegt umrót eða vanlíðan. Sumir leggja að jöfnu seiglu og andlega hörku en að vera þrautseigur lýsir frekar þeirri hæfni okkar að vinna okkur í gegnum tilfinningalegan sársauka og þjáningu. Eiginleikar eins og aðlögunarhæfni, sveigjanleiki og staðfesta eru einkenni þeirra sem hafa til að bera seiglu og með þessum eiginleikum öðlumst við ákveðna hæfni til að breyta ákveðnum hugsunum og hegðun okkar.

Það að þróa með sér og þjálfa seiglu getur verið flókið og er einstaklingsbundin vegferð, slík þjálfun felur í sér að vinna með innri styrk og ytri auðlindir því það að vera þrautseigur er ekki algild formúla og það er einstaklingsbundið hvernig við upplifun mótlæti í lífinu. Tvær manneskjur geta upplifað atburði eða það sem kemur fyrir þær á ólíkan hátt á; annar aðilinn getur sýnt skýr einkenni kvíða og þunglyndis en hinn sýnir engin einkenni við sama atburði.  Það að byggja upp seiglu er sambland af mörgum þáttum og að vinna úr því mótlæti er ekki gert með því að fylgja einföldum aðgerðalista verkefna þar sem hlutirnir eru alltaf eins. Þættir sem hafa sýnt fram á að auka seiglu okkar eru að vera í góðum samskiptum eða tengslum við fjölskyldu og vini, jákvætt sjálfsmat og góðir samskiptahættir. Þótt við vinnum úr áföllum og mótlæti á mismunandi hátt eru ákveðnir þættir sem hjálpa til við að byggja upp seiglu og leiða til meiri aðlögunarhæfni og hæfni til að bregðast við þeim aðstæðum sem upp koma í lífinu.

Rannsóknir á seiglu sýna að mikilvægt er fyrir okkur að hafa stjórn á okkar nánasta umhverfi, hafa getu eða möguleika til þess að vernda okkur þegar við stöndum frammi fyrir áskorunum og álagi. Með öðrum orðum: seigla er ekki eitthvað sem við notum aðeins þegar við stöndum frammi fyrir miklu mótlæti heldur byggist seigla upp þegar við lendum í alls konar streituvaldandi aðstæðum reglulega og þegar þættir sem verja og vernda okkur eru þjálfaðir.

Þegar áföll dynja á okkur eða áskoranir er mikilvægt að hafa að leiðarljósi fimm stoðir seiglu; sjálfsvitund, núvitund, umhyggju fyrir okkur sjálfum, jákvæð tengsl og tilgang. Með því að vinna að því að styrkja þessar fimm stoðir þjálfum við okkur í seiglu og verðum þar af leiðandi betur í stakk búin til að stjórna streitunni og hvernig við tökum á móti áskorunum sem verða í lífi okkar.

Fimm stoðir seiglu

Sjálfsvitund er það að hafa þekkingu á okkur sjálfum, styrkleikum, veikleikum, tilfinningum og hvötum okkar. Sjálfsvitund gerir okkur einnig kleift að skilja hvernig fólk í kringum okkur skynjar okkur.
Núvitund er hæfni okkar til að vera fullkomlega til staðar hér og nú, meðvituð um hvar við erum og hvað við erum að gera.
Sjálfsumhyggja er þjálfun okkar í því sem viðheldur og bætir heilsu okkar. Það er undir okkur komið að iðka umhyggju í garð okkar sjálfra og hafa skýran ásetning í þeirri iðkun.
Jákvæð tengsl eru nákvæmlega eins og það hljómar; heilbrigð jákvæð tengsl við það fólk sem er í lífi okkar, sem styður, þykir vænt um okkur og okkur þykir einnig vænt um. Tilgangur hjálpar okkur að móta hugarfar okkar og viðhorf til annarra og reynslu okkar. Það gerir okkur kleift að viðurkenna að við tilheyrum eða þjónum einhverju stærra en við sjálf. Við getum fundið tilgang með trú okkar, fjölskyldu, því að vera hluti af samfélagi eða samtökum.

En af hverju er seigla nauðsynleg fyrir okkur?

Seigla er það sem gefur okkur tilfinningalegan styrk til að takast á við áföll, mótlæti og erfiðleika. Þrautseigt fólk nýtir styrk sinn og færni til að sigrast á þeim áskorunum sem lífið býður upp á og vinna úr þeim áföllum sem upp koma. Þrautseigt fólk upplifir streitu, áföll og erfiðar tilfinningar en það nýtir sér styrkleika sína og leitar sér aðstoðar hjá fagfólki eða sínu stuðningsneti til þess að sigrast á þeim áskorunum sem það lendir í. Seigla gerir þeim kleift að samþykkja og aðlaga sig aðstæðum og halda áfram. Fólk sem skortir seiglu er líklegra til að finna fyrir hjálparleysi, upplifa aðstæður yfirþyrmandi og treysta á óheilbrigðar aðferðir við að takast á við mótlæti eins og að einangra sig eða sýna forðunarhegðun. Það sem er gott við seiglu er að það er hægt að læra og þjálfa sig í henni. Fólk getur byggt upp félagslegt stuðningsnet eða lært að endurskoða neikvæðar hugsanir. Það að byggja upp seiglu er ferli þar sem við þjálfum og endurskoðum hugsanamynstur og lærum að nýta nálgun sem vinnur með styrkleika okkar til þess að vinna með þær sem hindranir og áskoranir sem lífið býður okkur upp á. Það er gagnlegt að hugsa um seiglu sem ferli og eftirfarandi þættir geta hjálpað til við að byggja upp seiglu með tímanum.

Auka sjálfsvitund, að skilja hvernig við bregðumst venjulega við streitu og mótlæti er fyrsta skrefið í átt að því að læra aðferðir sem auka aðlögunarhæfni okkar. Sjálfsvitund felur einnig í sér að skilja styrkleika okkar og þekkja veikleika okkar.
Byggja upp færni til sjálfstjórnar, að vera einbeittur þrátt fyrir streitu og mótlæti er mikilvægt en ekki auðvelt. Að læra aðferðir til þess að draga úr streitu eins og öndunaræfingar og núvitundarþjálfun getur hjálpað okkur að stjórna tilfinningum, hugsunum og hegðun okkar.
Að læra hæfni til að aðlagast eða þjálfa færni til þess að takast á við krefjandi aðstæður. Mörg ráð eru til þess að takast á við streituvaldandi og krefjandi aðstæður eins og til dæmis greina og skrifa niður hugsanir, upplifanir og líðan okkar, endurskipuleggja hugsanir, regluleg hreyfing, tengjast náttúrunni, umgangast fólk og vera í góðum félagsskap, bæta svefnrútínuna og borða hollan og næringarríkan mat.
Auka bjartsýni, fólk sem er bjartsýnt hefur tilhneigingu til að vera æðrulausara og einbeitir sér frekar að því sem það getur gert þegar það stendur frammi fyrir áskorun. Það að greina frekar jákvæðar lausnir á vandamálum sem við getum fundið og einblína á þær hjálpar og eykur seiglu.
Efla tengslanetið, tengslanetið eða það stuðningskerfi sem er í kringum okkur gegnir mikilvægu hlutverki í seiglu. Efldu núverandi félagsleg tengsl þín og finndu tækifæri til að byggja upp ný.

Leggjum áherslu á að byggja upp seiglu og þjálfum okkur í þeim þáttum sem auka seiglu okkar því það er eitt af því mikilvægasta sem við gerum á lífsleiðinni.

mbl.is