„Snýst um að lifa og leiða með hjartanu“

Sigurður er einnig að vinna í að koma doktorsritgerð sinni …
Sigurður er einnig að vinna í að koma doktorsritgerð sinni á sviði þjónandi forystu í höfn en Sigurður er fyrrverandi forseti viðskiptasviðs Háskólans á Bifröst þar sem hann byggði meðal annars upp meistaranámið í Forystu og stjórnun. mbl.is/Unnur Karen

Sigurður Ragnarsson, stofnandi Forystu og samskipta, vottaður ráðgjafi og forystuþjálfari í Heartstyles, og aðjúnkt við Háskólann á Akureyri er á því að nú sé kominn tími til að leggja til hliðar löngu úreltar aðferðir við stjórnun og forystu. Hann segir Hjarta-byltinguna ekki vera mjúka stjórnunar- eða forystuaðferð. Þvert á móti er hún afar krefjandi.

„Hjarta-byltingin snýst um að leggja til hliðar löngu úreltar aðferðir við stjórnun og forystu. Ég hef verið að vinna með forystu hugtakið í meira en 15 ár, bæði kennt í flestum háskólum landsins ásamt því að vinna samhliða í forystuþjálfun fyrir einstaklinga, hópa og fyrirtæki. Í hreinskilni sagt þá er þetta áhrifaríkasta aðferð sem ég hef kynnst enda margir framúrskarandi leiðtogar og mörg farsæl fyrirtæki víða um heiminn að nota þessa aðferð.

Í stuttu máli snýst Heartstyles um að lifa og leiða með hjartanu sem þýðir að aðstoða stjórnendur og starfsfólk að verða besta útgáfan af sjálfu sér sem leiðir síðan til þess að fyrirtækið eða stofnunin vex líka og dafnar. Í því samhengi er lykilþáttur Heartstyles, sem byggir á á stjórnunarlegum og sálfræðilegum grunni, heildstætt 360 gráðu tölfræðilegt mat sem hjálpar til við að koma auga á þætti sem aðstoða stjórnendur og starfsfólk að vaxa til að skapa jákvæðar breytingar. Módelið inniheldur 16 „hjartastíla“ eða leiðtoga/hegðunarstíla þar sem 8 þeirra eru áhrifaríkir en 8 eru það ekki. Í þessu sambandi inniheldur módelið fjórar meginreglur (e. principles) sem eru auðmýkt, kærleikur, stolt og ótti. Heartstyles snýst því bæði um persónulega þróun einstaklinga og vöxt fyrirtækisins eða stofnunarinnar.“

Hvernig lifir maður og leiðir með hjartanu?

„Grunnurinn er að við vinnum í að efla okkur sjálf sem einstaklingar og virkja það góða í okkur sem á rætur sínar að rekja til hjartalags okkar. Þess vegna má segja að við vinnum markvisst að því að „stækka hjartað" og nýta það meira og betur í okkar daglegu störfum. Eins og ég sagði snýst þetta um að hjálpa fólki að verða besta útgáfan af sjálfu sér og þegar það tekst þá vex líka fyrirtækið og til verður öflugri og jákvæðari fyrirtækjamenning. Fólkið er því grunnurinn að öllu. Hinsvegar, á meðan við ræktum okkur sjálf þá vinnum við líka að því að hjálpa öðrum að eflast og því að vaxa með öðrum. Þetta á ekki að snúast bara um eigin hagsmuni.

Ég vil líka segja að þetta er ekki mjúk stjórnunar- eða forystuaðferð. Þvert á móti er hún afar krefjandi. Til dæmis er einn „hjartastíllinn" eða leiðtogastíllinn að vera „authentic" eða sannur sem stendur meðal annars fyrir að vera hreinskilinn og opinskár og tala líka um óþægilegu og erfiðu hlutina, þó það geti verið mikil áskorun og jafnvel óvinsælt. En það er þá alltaf með þeim formerkjum að hugsa ekki bara hvað sé best fyrir mann sjálfan heldur líka fyrir aðra. Hugrekki er því lykilatriði í Heartstyles og að nota aðferðina þýðir meðal annars að þora að fara nýjar leiðir og að taka erfiðar ákvarðanir. Þetta undirstrikar líka annar hegðunarstíll í módelinu sem er „avoiding" sem stendur meðal annars fyrir að forðast fólk og/eða krefjandi viðfangsefni. Þessi stíll er að sjálfsögðu ekki áhrifaríkur því hann byggir á ótta. Hinsvegar er mjög gagnlegt að við áttum okkur á ef við erum að nota þennan stíl og ekki síst af hverju við gerum það. Þannig getum við breytt hegðun okkar og valið frekar að nota aðra hjarta- eða leiðtogastíla sem eru jákvæðir og áhrifaríkir.“

„Hjartað er grunnurinn að öllu saman“

Það er einmitt svo magnað hvernig við getum annars vegar tekið ákvörðun með hjartanu og hins vegar með höfðinu. Er hjartað með betri svör og hugmyndir?

„Heartstyles gengur út á að uppspretta hjartans sé grunnurinn en svo þurfum við líka að leita í höfuðið, meðal annars reynslubanka okkar ásamt því að nota innsæið, og skoða líka hvaða afleiðingar hegðun okkar hefur. Þess vegna blandar aðferðin saman forystu og sálfræði, og reyndar líka taugavísindum. Lykilatriði í Heartstyles er því að skilja af hverju við bregðumst svona eða hinsegin við hlutum í vinnunni og reyndar lífinu almennt. Með því að skilja betur getum við brugðist við með sem áhrifaríkustum hætti. Í þessu samhengi leitum við til uppsprettu hjartans og þess góða og jákvæða í okkur og öðrum en látum ekki vonda reynslu eða neikvæðar minningar stýra viðbrögðum okkar. Með þessu getum við í raun sagt að við sameinum hjartað og höfuðið, en hjartað er samt grunnurinn að öllu saman.

Sú ákvörðun mín að taka þátt í „hjarta-byltingunni“ er án efa gott dæmi. Ég fann fljótt að Heartstyles höfðaði til mín og tikkaði í það box að ég vil gera gagn og láta gott af mér leiða í þeim verkefnum sem ég tek mér fyrir hendur. Ég fann líka sterka og jákvæða tengingu við minn reynslubanka, við fyrri störf mín sem stjórnanda, forystuþjálfara og kennara. Innsæið sagði mér líka að þetta gæti orðið spennandi og skemmtilegt ferðalag þar sem ég fengi tækifæri að vinna með helling af góðu fólki út um allan heim. Þetta hefur gengið eftir og til að mynda í Heartstyle Akademíunni, sem er staðsett í Bretlandi, vinn ég með öðrum sérfræðingum frá mörgum löndum á þessu sviði þar sem við komum saman meðal annars til að deila reynslusögum og læra hvert af öðru.“

Sigurður vinnur með Heartstyles forystu-þjálfunaraðferðina en Heartstyles er bandarískt fyrirtæki …
Sigurður vinnur með Heartstyles forystu-þjálfunaraðferðina en Heartstyles er bandarískt fyrirtæki sem er líka með aðsetur í Bretlandi, Ástralíu og Suður-Afríku. mbl.is/Unnur Karen

Hver er skoðun þín á sanngjörnum samskiptum og hvers vegna telur þú svona lítið um menntun í samskiptum í skólakerfinu okkar?

„Mín skoðun er sú að mikilvægasta atriði í samskiptum sé að hlusta. Þetta þýðir að við reynum að meðtaka og skilja hvað er verið að segja við okkur sem krefst þess að við veitum viðeigandi viðbrögð, meðal annars með því að spyrja spurninga. En svo verðum við líka að tengja þetta við að hugsa ekki bara um eigin hag heldur líka hugsa um hag annarra og vera til að mynda tilbúin að setja okkur í spor annarra, taka tillit og vilja vinna með öðrum.

Varðandi seinni hluta spurningarinnar þá er von mín að áherslan í skólakerfinu sé að breytast til hins betra. Til dæmis er yngri dóttir okkar í Sjálandsskóla, þar sem eldri dóttir okkar var reyndar líka. Þar er svo margt samskiptatengt samtvinnað við námið og líka lagt upp úr samskiptafærni sem er gríðarlega jákvætt. Sem dæmi var ég mjög glaður þegar dóttir okkar kom heim úr skólanum um daginn og sagði frá að þau hefðu verið í leiðtogapælingum! En heilt yfir í skólakerfinu þá má örugglega gera betur í tengslum við menntun í samskiptum. Það er algerlega ljóst að þekking og færni í samskiptum er eitt af því sem gagnast fólki hvað best í lífinu. Þess vegna verðum við að leggja meiri áherslu á samskipti í námi. Það er svo gagnlegt að læra að vinna með öðrum, geta tjáð sig og geta almennt tekist á við áskoranir á sviði mannlegra samskipta.“

Það versta þegar stjórnendur eigna sér hugmyndir annarra

Hvað er algengast að fari suður í samskiptum á vinnustöðum?

„Það er margt sem getur farið úrskeiðis í samskiptum en það sem kemur fyrst upp í hugann tengist trausti sem er svo mikilvægur grunnur að góðum samskiptum. Ef að fólk treystir ekki hvert öðru þá er ekki von á góðu. Það leiðir meðal annars til þess að fólk hlustar ekki nægilega vel og er líklega hvorki reiðubúið að segja skoðanir sínar né viðra hugmyndir sínar. Í þessu samhengi er eitt það versta þegar stjórnendur eigna sér hugmyndir eða vinnu annarra en því miður heyri ég allt of mikið um það þegar ég vinn með stjórnendum og starfsfólki. En hjarta-byltingin getur hjálpað okkur með þetta. Manneskja sem er sönn, heiðarleg og vill vinna með öðrum og tengjast öðrum og hafa hag allra að leiðarljósi byggir nefnilega upp traust og gerir ekki svona lagað!“

Nú erum við frekar fús til að fara í ræktina reglulega og að sinna hinu hefðbundna, en margir eru ragir við að æfa sig í nýrri tækni þegar kemur að hegðun og hugsun. Hvers vegna ætli þetta sé – og hver er þín skoðun á þessu?

„Kannski af því margir halda að þetta sé flókið og að lítið sé að græða á þessu. En hinsvegar, þegar afburða forystufólk og fyrirmyndarfyrirtæki eru skoðuð þá kemur greinilega í ljós að allir græða á fagmennsku á þessu sviði. Í Heartstyles er til dæmis lykilatriði að skoða hvernig hjartað og heilinn vinna saman til að uppgötva hvers vegna við veljum ákveðna hegðun. Þess vegna virkar Heartstyles eins og áttaviti fyrir okkur. Ég spyr, hver vill ekki vera á vinnustað þar sem manni líður vel, allir fá tækifæri til að vaxa og dafna og það er hreinlega gaman í vinnunni? Á sama tíma blómstrar svo fyrirtækið og getur verið jákvætt afl í samfélaginu.“

Er menntun máttur?

„Áður fyrr útskrifaðist fólk úr námi og vann svo kannski hjá örfáum fyrirtækjum á lífsleiðinni eða jafnvel bara einu! Þetta er liðin tíð og meðal annars þess vegna er menntun okkar bara máttug ef við viðhöldum henni. Ferðalag lífsins er líka miklu skemmtilegra og meira gefandi ef við erum tilbúin að læra og tileinka okkur nýja hluti. En þá þurfum við líka að vera reiðubúin að fara jafnvel inn á ókunnar brautir sem kann að kalla á nýja þekkingu og færni.“

Hvað er á dagskránni hjá þér á næstunni?

„Að halda áfram að vinna með og byggja upp Heartstyles þar sem ég býð bæði upp á einstaklingsþjálfun og þjálfun fyrir fyrirtæki og stofnanir. Svo er ég að kenna Árangursríka forystu í fjarnámi í meistaranáminu við Háskólann á Akureyri og að undirbúa fleiri námskeið á þessu sviði. Ég er einnig að undirbúa 12 vikna námskeiðið mitt í Forystu í Opna Háskólanum í Háskólanum í Reykjavík, sem er hluti af verkefnastjórnunarnáminu þar.

Síðan veitir fyrirtæki mitt, Forysta og samskipti, einnig aðra forystuþjálfun fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þar er um að ræða heilstæða forystuþjálfun sem byggir á ýmsum forystu- og stjórnunarkenningum og aðferðum. Þetta er líka mjög spennandi en við erum teymi sem bjóðum uppá ýmsa samþættingu og tengingu við forystu, m.a. á sviði verkefnastjórnunar, mannauðsstjórnunar, stefnumótunar, breytinga- og krísustjórnunar, stjórnunar samskipta við viðskiptavini (CRM), uppbyggingu öflugri liðsheilda, markaðsstjórnunar, stafrænnar stjórnunar og samfélagsmiðla, sjálfbærni og samfélagsábyrgðar, og sátta- og samningatækni.“

Mikilvægt að byggja brú á milli háskólanna og atvinnulífsins

Hvernig er að fara af stað með eigið fyrirtæki eftir að hafa starfað svo lengi innan háskólana?

„Ég byrjaði með fyrirtækið 2008 en hef ekki getað sinnt þessu hugarefni mínu eins mikið og ég vildi síðustu ár. Þess vegna finnst mér frábært að geta gert það núna. Það skiptir svo miklu máli að sameina fræðin og raunveruleikann með því að byggja brú þarna á milli. Það er markmiðið og þannig trúi ég að ég geti gert gagn.“

Það er ánægjulegt að vita af því að karlmenn sem eru að spá í stjórnun séu á þessari fallegu hjartalínu, hver er saga þín þessu tengt? Hvað leiddi þig í þessar áttir?

„Ég held ég hafi alltaf verið á þessari línu, en ég kynntist Heartstyles í Bandaríkjunum og eftir að hafa skoðað vel hvernig aðferðin virkar í raun og veru sannfærðist ég um að ég yrði hreinlega að vera þátttakandi í þessu. Það má því segja að þetta sé köllun mín. Það að sjá einstaklinga og verkefnin þeirra blómstra, fá tækifæri að vinna með frábæru fólki og fást við það sem maður brennur fyrir er ofboðslega gefandi og nærandi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál