„Við erum konur sem höfum gengið í gegnum súrt og sætt“

Efri röð frá vinstri: Júlía, Svanlaug og Sigurbjörg. Neðri röð …
Efri röð frá vinstri: Júlía, Svanlaug og Sigurbjörg. Neðri röð frá vinstri Ingibjörg, Helga A. og Helga Z. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ingibjörg Pálmadóttir, ráðgjafi og markþjálfi, fékk útrás fyrir skáldið sem bjó innra með henni á ritlistarnámskeiði Svikaskálda. Það sem kom skemmtilega á óvart við námskeiðið var að hún eignaðist nýjan vinkonuhóp sem samanstendur af sex konum á ólíkum aldri.

Vinkonuhópurinn kallar sig Hömluskáld. „Við þekktumst tvær og tvær fyrir námskeiðið en tvær okkar þekktu engan fyrir. Það var svo í helgarferðinni á Laugarvatn sem við sex lentum saman í rithóp. Með fyrirfram ákveðnu ferli Svikaskálda náðum við sex að setja í góða frumsúpu og vinna úr henni þannig að útkoman var ljóðabók. Við gáfum bókina út mánuði síðar og vissum að framhald yrði á samvinnu okkar. Nafnið Hömluskáld er bein vísun í Svikaskáld og hvernig við nýttum okkur hugmyndafræði þeirra til að fanga kraftinn,“ segir Ingibjörg.

„Að hafa tengst þessum böndum var töfrum líkast. Við komum allar úr ólíkum áttum og erum á aldrinum fertugt til rúmlega sextugt. Það eru forréttindi að hafa fengið tækifæri til að mynda þessi tengsl og þegar við skrifum saman þá kemur sterkt fram hvað við erum ólíkar, en samt eins. Við erum konur sem höfum gengið í gegnum súrt og sætt og að upplifa samkenndina og sjá nálgun hverrar og einnar á atburði lífsins er ekkert nema stórkostlegt.“ Í hópnum eru ásamt Ingibjörgu þær Helga Arnardóttir handritshöfundur og framleiðandi, Júlía Björnsdóttir framhaldsskólakennari og landvörður, Svanlaug Jóhannsdóttir söngkona og fyrirtækjaeigandi, Helga Z. Gústafsdóttir vörustjóri og hundaþjálfari og Sigurbjörg Jóna Traustadóttir hómópati og heilari.

Var kastað í djúpu laugina

„Líklega blundar skáld í flestum og síðasta haust má segja að skáldið hafi verið að vakna og bylta sér hjá okkur öllum. Hjá sumum okkar vegna vinnu, það vantaði einhvern ferskan vind í sköpun og skrif. Hjá öðrum vegna breytinga á högum, það virðist sem einhver innri kraftur hafi fengið okkur allar til að koma á ritlistarnámskeiðið og trú á að þar myndum við fá tæki og tól til að stýra þessum krafti, koma honum í farveg og nýta okkur við sköpun, tjáningu og vinnu.“

Námskeiðið var á vegum Endurmenntunar en hópurinn Svikaskáld kenndi námskeiðið og segir Ingibjörg þau alls ekki að vera með hugmynd að verki áður en námskeiðið byrjar. „Aðferðarfræði Svikaskálda er sniðin þannig að fólk fær innblástur að efni og stíl sem svo mótast persónulega hjá hverjum og einum þegar líður á námskeiðið. Ef hugmynd að skáldsögu, ljóðabók, leikriti eða hverju sem er var til staðar í upphafi, nýtist námskeiðið eins og krydd í matargerð. Sum kryddin þekkjum við en uppgötvum leiðir til að draga fram þekkt bragð á nýjan hátt, önnur eru framandi og sérkennileg en opna á nýja upplifun, nýjar uppskriftir og ferskt bragð.“

Vinkonurnar saman komnar.
Vinkonurnar saman komnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það sem var erfiðast á námskeiðinu reyndist að lokum vera það skemmtilegasta. „Það skemmtilegasta og mest spennandi sem við gerðum á námskeiðinu, var í upphafi það allra erfiðasta. Að lesa skrifin okkar fyrir hópinn. Að deila því sem við létum flæða á blað undir tíma- og/eða efnishömlum, eða texta sem við sátum yfir lengi, stundum heima, olli okkur hjartsláttartruflunum í fyrsta tíma þegar Svikaskáld köstuðu okkur í djúpu laugina. Rjóðar kinnar og suð í eyrum þar til röðin kom að okkur. Eftir því sem leið á jókst eftirvæntingin í að deila skrifunum með hópnum og það varð algjörlega ómissandi.“

Það má allt þegar kemur að skrifum

Var námskeiðið mikil vinna?

„Hver og einn getur stýrt hversu miklum tíma hann eyðir í skrif, en á námskeiðinu er lagt upp úr skrifum, endurskrifum og endurgjöf til samnemenda. Hver einasta mínúta af námskeiðinu og heimavinnu var algjörlega þess virði.“

Eru einhverjar leikreglur eða aðferðir sem létta skáldinu lífið?

„Það hafa verið skrifaðar óteljandi bækur og rit um hvernig best er að bera sig að við skrif. Svikaskáld hafa tekið saman hvað hefur reynst þeim vel og kynntu þær aðferðir fyrir okkur. Þeirra eigin hugmyndafræði veitir frelsi til að hræra í frumsúpu, kasta hugmyndum á milli, samnýta hugmyndir, setja sér hömlur og finna þannig sköpunarkraftinum útrás. Við nýttum okkur það sem hentaði hverri og einni, hvort sem það voru flæðandi morgunskrif eða að vinna texta í Excel-skjali. Það má allt þegar kemur að skrifum, það þarf bara hver og einn að finna sína leið.“

Hvert stefnið þið vinkonurnar núna?

„Í bígerð eru tvær skáldsögur, handrit og ljóðabók. Við munum halda áfram að hittast og styðja hver aðra í skrifum og sköpun. Hver veit nema ljóðabók númer tvö frá hópnum líti svo dagsins ljós. Þó að við hittumst og skrifum saman þá er það ekki endilega varðandi verkin sem hver og ein vinnur að, heldur sameinum við krafta okkar og skrifum undir hömlum, tíma-, efnis, eða lengdarhömlum. Við erum Hömluskáld,“ segir Ingibjörg.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál