Allt sem þú vissir ekki um píkuna

Píkan og allt kerfið þarna niðri er magnað fyrirbæri.
Píkan og allt kerfið þarna niðri er magnað fyrirbæri. mbl.is/Getty images

Margir eru einskis fróðari eftir hefðbundna kynfræðslu í skólum og fara í gegnum lífið án þess að vita að hið eiginlega meyjarhaft er ekki til, að konur þurfa ekki að fara á blæðingar eða að bara um helmingur kvenna blæðir eftir fyrsta skiptið. Í Bókinni Gleðin að neðan - píkan, legið og allt hitt eftir norsku læknanemana Ellen Støkken Dahl og Nina Brochmann er farið yfir allt þetta og ótrúlega margt fleira á mannamáli.

Bókin Gleðin að neðan var að koma út hjá Forlaginu.
Bókin Gleðin að neðan var að koma út hjá Forlaginu.

Bókin er frábær fyrir konur sem vita ekkert sem og þær sem þykjast vita allt. Hún er líka afar gagnleg lesning fyrir karlmenn, að minnsta kosti þá sem hafa einhvern áhuga á konum. Hér eru nokkrar áhugaverðar upplýsingar úr bókinni.

Æfingabúðir eggja

Konur fæðast með 300.000 egg í líkamanum. Fram að kynþroskaskeiðinu æfa þessar eggfrumur sig fyrir framtíðarstarfið, þær þroskast en deyja svo því eggin fá ekki boð um neitt annað. Þegar kynþroskaskeiðið byrjar, og eftir þessar æfingasleppingar, búa konur yfir 180.000 útvöldum eggjum. 25 ára gamlar eiga konur 65.000 egg. En hvað gerist þarna á milli? Af hverju förum við úr 180.000 eggjum og niður í 25.000 á fáum árum?

Það er staðreynd að konur nota ekki bara eitt egg í mánuði, heldur geta þær notað allt að þúsund egg í einu. Eggin eru þá ekki eins ólík sæði karlmanna og af er látið. Eins og sáðfrumurnar, keppa eggfrumur innbyrðis af mikilli hörku um réttinn til að reyna að búa til barn. Í hverjum mánuði byrja þúsund egg að þroskast en aðeins útvalið egg kemst í gegnum öryggiseftirlitið og fær að losna úr eggjastokknum. Hinum er grimmilega hafnað og eytt. 

Meyjarhaft er rangnefni. Skeiðarkrans er réttnefni!

Meyjarhaft er ekki „haft“, leggöngin eru ekki lokuð. Rétt innan við legggangaopið má finna hringlaga slímhúðarfellingu sem liggur eins og krans upp við legggangaveginn. Skeiðarkransinn getur verið þykkur eða þunnur, hringlaga, eða jafnvel eins og danskt ö í laginu, Ø. Það er þessi krans sem hefur verið kallaður meyjarhaft. Allar konur fæðast með skeiðarkrans en þurfa ekki endilega á honum að halda (ekki frekar en karlmenn þurfa á geirvörtum að halda). Það getur blætt úr skeiðarkransinum við fyrstu samfarir, en rannsóknir sýna að það gerist alls ekki alltaf. Tvær ólíkar rannsóknir sýna að það blæðir hjá 56% kvenna annars vegar og hjá 40% kvenna hins vegar. 

Ekki ónáttúrulegt að sleppa túr

Að sleppa því að fara á túr með hjálp getnaðarvarna er ekkert ónáttúrlegra heldur en að eignast nokkur aukabörn. Í sjálfu sér eru það ekki tíðablæðingarnar sjálfar sem hafa líffræðilegan tilgang eða eru gagnlegar fyrir konuna heldur er blæðingin fylgifiskur ósjálfráðar slímhúðarmyndunar í hverjum mánuði. Slímhúðinni þurfum við aðeins á að halda ef til getnaðar kemur. Ef enginn verður getnaðurinn, förum við á blæðingar. Ef við sleppum hins vegar þessari slímhúðarmyndun (með hjálp getnaðarvarna) er engin ástæða til mánaðarlegs blóðmissis og við fáum frí! Tíðablæðingar eru hvorki hollar né nauðsynlegar, og í gamla daga, fyrir daga getnaðar varna fóru konur miklu sjaldnar á blæðingar en nú. Þá voru þær ýmist óléttar eða með barn á brjósti (sem kom líka í veg fyrir blæðingar). Frumkonan fór kannski 100 sinnum á túr um ævina á meðan nútímakonan fer í gegnum 500 tíðahringi.

Eggið lætur bíða eftir sér

Hefurðu heyrt um kapphlaup sáðfrumanna? Sú hraustasta og hraðsyndasta nær að frjóvga eggið sem bíður aðgerðalaust þess sem verða vill. Eða hvað? Er þetta ekki algjörvitleysa? Í fyrsta lagi: Eggið bíður ekki í rólegheitum. Eggið hangir ekki óstyrkt við barinn og bíður eftir sáðfrumunum. Eggið er díva og eins og flestar dívur mætir það yfirleitt hæfilega seint í partíi. Það eru ekki sáðfrumurnar sem synda að egginu heldur kemur eggið vaggandi að sáðfrumunum sem bíða. Oft hafa þær beðið dögum saman

Örva heilann ekki kynfærin

Kynlöngun kvenna á upptök sín fyrst og fremst í höfðinu, en ekki í kynfærunum sjálfum. Til þess að vekja upp kynlöngun meðal kvenna þarf að örva í þeim heilann, en ekki kynfærin. Þetta áhugaverða rannsóknarefni má lesa um í kaflanum um kynlíf í bókinni Gleðin að neðan.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál