Ætlaði bara að vera á ketó fram að jólum

Daníel Óliver segir ketó ekki vera flókið enda hægt að …
Daníel Óliver segir ketó ekki vera flókið enda hægt að vinna með kjöt, grænmeti og mjólkurvörur á mataræðinu.

Tónlistarmaðurinn Daníel Óliver byrjaði á ketó-mataræðinu fyrir fimm mánuðum. Upphaflega ætlaði hann sér bara að missa nokkur kíló og ná stjórn á sykurþörfinni. Hann er löngu búinn að ná markmiðum sínum en er enn ekki hættur að fylgja mataræðinu. 

„Ég er búinn að borða þetta fæði í fimm mánuði og það eru þeir bestu fimm mánuðir sem ég hef upplifað næringalega séð. Ég ætlaði bara að vera fram að jólum í fyrra en svo líður mér bara svo vel að ég hef ekkert hætt. Svo er spurning hvort þetta verði ekki bara lífsstíl hjá manni. Það er svolítið ofnotað orð fyrir kúra en ég bara lít ekki á ketó sem kúr. Þetta er meira bara hreint fæði og ákveðin aðferð til að koma líkamanum í jafnvægi,“ segir Daníel Óliver ánægður með ketó-mataræðið.

Kom ekki sá tímapunktur þar sem þig langað hreinlega að hætta?

„Nei. Ég veit að ketó hentar kannski ekki öllum en þetta hefur verið alveg brjáluð bylting fyrir mig. Ég hef alveg tekið einn og einn dag þar sem ég drekk áfengi eða borða kolvetni en það hefur ekki haft nein stórvægileg áhrif á mig.“

Daníel Óliver segist hafa misst 14 kíló síðan hann byrjaði á ketó og segir jákvæð einkenni fjölmörg.

„Ég er til dæmis ekki með liðverki lengur sem ég þjáðist lengi af. Svo er húð, hár og almenn orka miklu betri. Andlega séð þá líður mér bara vel að hafa loksins náð stjórn á mataræðinu og svo kemur líka sjálfstraustið eftir því sem smjörið rennur af.“

Hefur þú rekið þig á einhverja veggi eftir að þú byrjaðir á mataræðinu?

„Maður þarf aðeins og plana ef maður ætlar í afmæli eða þegar maður er að ferðast. Það er mikilvægt að mæta ekki sársvangur í kökuboð og passa að fara með snarl með sér í flug. Það er ótrúlegt en það virðist ekki vera hægt að fá neitt kolvetnalaust í flugvélum á Íslandi nema kannski hnetur. Það mætti laga.“

Ertu að fasta líka?

„Ég fasta 16 tíma á sólarhring og er svo með átta tíma glugga yfir daginn sem ég borða og það virkar fínt fyrir mig. Blóðsykurinn hjá mér er orðinn svo stöðugur að ég fæ engar sveiflur en ég mæli með því að fólk kynni sér föstur vel áður en það byrjar. Þá er dietdoctor.com mjög góð síða til að fá góðar og nákvæmar upplýsingar á mannamáli.“

Daníel Óliver segir að margir haldi að það sé flókið að fylgja ketó-mataræðinu en hann segir svo ekki vera.

„Maður þarf kannski að elda meira sjálfur og það er ekki fyrir alla. En að flestu leyti er þetta frekar einfalt. Mikið af grænmeti, kjöti og fitu. Fitu fær maður úr kjötvörum, mjólkurvörum, olíum og fleiru og það er lítið mál að elda þegar maður hefur úr þessu að vinna. Svo þekki ég nokkra sem eru á vegan-ketó. Það er kannski aðeins meira mál en þeim virðist ganga vel.“

Hvaða matur á ketó er í uppáhaldi?

„Ég er alltaf að elda eitthvað með ostum, ostalasagne, pizzur og kjúklingarétti. Ég er algjör matgæðingur,“ segir Daníel Óliver sem deilir gjarnan myndum af girnilegum ketó-réttum með fylgjendum sínum á Instagram.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál