Aldrei verið mikilvægara að gera eitthvað

Unnar Helgason hefur yfir 10 ára reynslu í þjálfun, m.a. …
Unnar Helgason hefur yfir 10 ára reynslu í þjálfun, m.a. í CrossFit og keppti sjálfur á heimsleikunum í CrossFit árið 2012. Hann hefur meðal annars hjálpað okkar helsta afreksíþróttafólki eins og Gunnari Nelson, gólfglímu og MMA keppanda, Aroni Einar Gunnarssyni landsliðsfyrirliða og Eygló Ósk Gústafsdóttur sem var íþróttamaður ársins. Unnar þjálfar einnig iðkendur í Crossfit Reykjavík og afrekshópa og keppnislið í Mjölni og er einn af eigendum CrossFit Akureyri.

„Þótt við lifum á skrítnum tímum þá er eitt sem hvorki er skrítið né hefur breyst á nokkurn hátt en það er að líkamleg og andleg heilsa kemur okkur í gegnum erfiða tíma og styrkir ónæmiskerfið. En það kann að vera erfitt að viðhalda reglubundinni hreyfingu í samgöngubanni á sama tíma og það er sérstaklega mikilvægt að viðhalda góðri heilsu,“ segir Unnar Helgason í heilsupistli sínum fyrir Nettó: 

Hreyfing styrkir ónæmiskerfið okkar og þar með baráttu gegn ýmsum veikindum

  • Aukin streita eykur líkurnar á veikindum þar sem streituhormón hafa bælandi áhrif á ónæmiskerfið okkar og gera okkur berskjaldaðri fyrir veikindum. Hreyfing hægir hins vegar á losun streituhormóna og getur því haft fyrirbyggjandi áhrif.
  • Hreyfing hefur einnig töluverð áhrif á getu líkamans til að framleiða mótefni og T-frumur, sem eru sérstök tegund próteina/frumna, sem mæta á svæðið þegar vírusar, sýklar, bakteríur eða aðrir aðskotahlutir koma inn í líkamann. Það magnaða við þessi mótefni og T-frumur er að þau hafa hæfileika til að „muna“ eftir þeirri ógn sem herjaði á okkur og „læra“ hvernig skal drepa hana næst þegar hún mætir á svæðið.

Þetta er í raun einfölduð skýring á því sem við köllum ónæmi.

Hreyfingarleysi getur aukið líkamsfitu og minnkar liðleika og vöðvastyrk

  • Þegar við minnkum hreyfingu, þá minnkar matarlystin okkar því miður ekki í réttu hlutfalli við minnkaða hreyfingu. Það getur því tekið matarlystina lengri tíma að minnka þegar við minnkum hreyfingu. Það er því er hætt við að við bætum á okkur líkamsfitu ef við hættum að stunda reglulega hreyfingu.
  • Líkamleg áhrif þess að hætta að stunda reglulega hreyfingu eða minnka hana til muna eru t.d. að vöðvastyrkur, vöðvamassi, minnkar. Sinar og liðamót veikjast og við missum hluta af styrk og hreyfigetu okkar. Það aftur eykur hættu á meiðslum og þar með gerir okkur erfiðara fyrir að komast af stað.

Alltaf að gera eitthvað!

Á hverjum degi ættum við „alltaf að gera eitthvað“ til þess að huga að heilsunni. Það þarf ekki að vera mikið og við þurfum ekki alltaf að ná hjartslættinum upp og svitna. „Alltaf að gera eitthvað“ getur þýtt að ég borða hollt, hef samband við foreldra mína og spyr hvernig þau hafi það, passa upp á að fá átta tíma svefn og svo framvegis. 

Lífið snýst um forgangsröðun og ég hvet þig til þess að setja hreyfingu ofarlega á listann, enda er tækifærið einmitt þegar samkomubann stendur yfir og nægur tími og rúm gefast til að hugsa upp nýjar rútínur fyrir daginn.

Það ert þú sem hefur 100% vald yfir því hvað þú gerir og hvað þú gerir ekki.

Þau okkar sem eiga eftir að veikjast kunna að spyrja sig: kannski hefði ég átt að huga betur að heilsunni til að vera betur undirbúin/n fyrir þessa helv ... veiru! En það góða er að þú ert ekki of sein/n. Þú getur byrjað í dag að gera eitthvað til að huga að heilsunni, hvort sem það er að fara í göngutúr, taka smá þrekæfingu heima í stofu  eða taka réttar ákvarðanir í eldhúsinu.

Gangi þér vel – og mundu: við erum hönnuð til að hreyfa okkur!

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál