8 leiðir að bættri heilsu og aukinni hamingju

Vala Mörk og Guðjón Svansson eru höfundar bókarinnar, Lifðu! 8 …
Vala Mörk og Guðjón Svansson eru höfundar bókarinnar, Lifðu! 8 leiðir að bættri heilsu og aukinni hamingju.

Lifðu! er skrifuð af Guðjóni Svanssyni og Völu Mörk. Þau fóru í fimm mánaða ferðalag um hin bláu svæði heimsins (Blue Zones) til að fræðast um langlífi og góða heilsu á svæðunum. Í bókinni segja þau frá því sem þau lærðu í ferðinni og því sem skiptir mestu máli varðandi góða heilsu og hamingju. Þau skrifa um reynslu sína í heilsublaði Nettó: 

Vissir þú að með því að borða eina lúku af hnetum á dag getur þú lengt lífið um fjögur ár? Þetta og margt fleira hefur komið fram í ítarlegri rannsókn á langlífi og góðri heilsu sjöundadags aðventista í Kaliforníu, en rannsóknin hefur staðið yfir í áratugi. Þetta er eitt af því sem við komust að í fimm mánaða fræðsluferðalagi okkar um blá svæði (Blue Zones) heimsins árið 2019. Bláu svæðin eru fimm staðir í heiminum þar sem langlífi og góð heilsa haldast hvað mest í hendur. Þessir staðir eru auk bandaríska bæjarins Loma Linda í Kaliforníu; Nicoyaskaginn í Costa Rica, japanska eyjan Okinawa, fjallahéruð Sardiníu og gríska eyjan Icaria.

Við hjónin höfum lengi verið viðloðandi heilsugeirann og haft mikinn áhuga á því hvernig við Íslendingar getum lært af þeim sem lifa lengst við góða heilsu. Hér á Íslandi erum við nefnilega langlíf, en því miður er það oft svo að við missum heilsuna á efri árum. Þessu langar okkur að breyta og eftir miklar bollaleggingar ákváðum við árið 2018 að leggja land undir fót með tvo yngstu syni okkar. Fara í fimm mánaða fræðsluferðalag um bláu svæðin. Dvelja einn mánuð á hverjum stað, kynna okkur staðhætti og prófa að lifa eins og þeir innfæddu lifa. Borða matinn sem þau borða, kynna okkur hreyfinguna sem þau stunda og taka viðtöl við sérfræðinga og eldri íbúa svæðanna.

Ferðin tókst vel og var hin mesta ævintýraferð. Þegar heim var komið skrifuðum við bók um það sem við lærðum. Hún heitir „Lifðu! 8 leiðir að bættri heilsu og aukinni hamingju“. Í bókinni förum við yfir hvað það er sem helst hefur stuðlað að langlífi og góðri heilsu á bláu svæðunum, hvað við Íslendingar getum lært af þeim og hvað við erum að gera vel og ættum að gera meira af. Því þótt svæðin séu á ýmsan hátt ólík, bæði innbyrðis og í samanburði við Ísland, þá eiga þau og við líka margt sameiginlegt.

Svæðin eru öll við miðbaug, en þar með er ekki sagt að þetta séu veðraparadísir. Sumrin eru hlý og notaleg, en vetur eru oft erfiðir og svæðin harðbýl. Eins og Ísland. Á svæðunum er lögð mikil áhersla á útiveru, fólk gengur mikið og dagleg hreyfing er hluti af eðlilegri rútínu svæðanna. Sama gildir um matinn. Hann er yfirleitt einfaldur, hollur og góð næring. Áherslan er á að borða til að lifa, ekki öfugt. Skammtastærðir eru smáar og matartíminn er samverustund fjölskyldu og vina.

Og hvað borðar svo fólk á bláu svæðunum? Það er misjafnt eftir svæðum, matvara tengd sjónum er þannig mjög algeng á Okinawa á meðan baunir og grjón er daglegur matur á Nicoyaskaganum. Plöntufæði er alls staðar algengt og er oft uppistaðan í máltíðum dagsins. Kjöt- og fiskafurðir eru meira í aukahlutverki. Á meðal þeirra matvara sem er talin stuðla að langlífi á bláu svæðunum eru bygg, ólífuolía, rósmarín, tómatar, kartöflur, misosúpur, sjávarþang, þari, tófu, baunir, haframjöl, ýmiss konar grænmeti, ávextir, jurtir og svo auðvitað hneturnar.

Við getum lært margt af íbúum bláu svæðanna, ekki bara þegar kemur að næringu, heldur líka varðandi viðhorf til lífsins, sem byggir á seiglu, húmor og lífsgleði. Eins og ein vinkona okkar sagði við okkur á Ikaríu þegar við spurðum hana hvort hún gæti ekki bent okkur á einhvern sprækan eldri borgara að tala við um langlífi og góða heilsu. „Jú, þið gætuð alveg talað við frænku mína í Armenistis, en hún er reyndar bara 87 ára ...“.

mbl.is