Jógastjarna glímir við myglusvepp

Rachel Brathen er gríðarlega vinsæll jógakennari og áhrifavaldur. Þá er …
Rachel Brathen er gríðarlega vinsæll jógakennari og áhrifavaldur. Þá er hún einnig metsöluhöfundur. Skjáskot/Instagram

Sænska jógastjarnan Rachel Brathen, sem einnig er þekkt undir heitinu Yoga Girl, á á hættu að missa hús sitt vegna myglusvepps. Hún heldur úti hlaðvarpi þar sem hún segir raunasögu sína af myglu, hvernig þau hafa þurft að flýja heimili sitt og vita ekki hvort þau eigi afturkvæmt. 

Brathen hafði lengi kennt sér meins en aldrei fundust skýringar á heilsuleysinu. Við nánari athugun kom í ljós að hús hennar var undirlagt af myglu en Brathen býr ásamt eiginmanni og ungri dóttur á Bermuda-eyju. Verst var staðan í svefnherberginu og á háaloftinu. Hún hvetur alla til þess að huga vel að lögnum húsa og spara frekar við sig í fallegum skrautmunum. 

Nú er mánuður liðinn frá því þau þurftu að flýja heimili sitt og Brathen segir lífsreynsluna hafa verið afar erfiða. Hún hefur þurft að glíma við mikinn kvíða vegna óvissunnar um framtíðina og það tjón sem þau glíma við. Svo ekki sé minnst á samviskubitið sem fylgir því að hafa óafvitandi alið upp lítið barn í mikilli myglu.

Rachel Brathen þurfti að klæðast sérstökum hlífðarbúningi til þess að …
Rachel Brathen þurfti að klæðast sérstökum hlífðarbúningi til þess að vernda sig fyrir eitruðu myglunni. Skjáskot/Instagram

Missirinn óbærilegur

Um daginn þurfti hún að fara í húsið til að skera úr um hvaða hlutum mætti bjarga. Hún lýsir því á Instagram sem mjög tilfinningaþrunginni stund og erfiðri.

„Þetta verður erfitt. Við þurfum að klæða okkur í hlífðarföt og þurfum að fara í gegnum allt og ákveða hvað er okkur lífsnauðsynlegt að halda í. Ef hlutur er til dæmis gerður úr harðgerðu efni sem hægt er að þrífa þá getum við átt hann. Annars þurfum við að henda honum. Við viljum auðvitað bjarga öllu sem hægt er en því fylgir mikil ábyrgð því ekki viljum við hætta á að flytja með okkur mygluna. Missirinn er óbærilegur. Ég reyni að telja mér trú um að þetta séu bara hlutir en þetta er mjög tilfinningaþrungið því þetta er líf okkar,“ segir Brathen.

View this post on Instagram

A post shared by Rachel Brathen (@yoga_girl)mbl.is