Hvenær á par að hætta að sofa saman?

Það getur verið erfitt að stilla saman svefn tveggja ólíkra …
Það getur verið erfitt að stilla saman svefn tveggja ólíkra einstaklinga. Unsplash.com/Isabella

Það getur verið erfitt fyrir einstakling að ná sínum besta svefni þegar það sefur við hliðina á maka sínum. Hvað er þá til ráða? Hvenær þarf að henda makanum út úr svefnherberginu?

Sálfræðingurinn Britney Blair segir í viðtali við Goop að margt sé hægt að gera áður en grípa þurfi til harkalegra aðgerða. Það sé hægt að bæta svefn og sambandið á sama tíma.

„Það er óumdeilt að við myndum öll sofa miklu betur ef við svæfum alltaf án maka, dýra eða nokkurt annað áreiti í herberginu. Best er að vera einn í köldu, myrku herbergi. Þegar við erum í léttum svefni þá erum við að taka inn alls kyns áreiti í umhverfinu. Þannig að ef makinn er að hrjóta eða bylta sér á nóttunni þá hefur það áhrif á getu okkar til þess að ná djúpsvefni en djúpsvefn er það sem við viljum fá út úr nóttunni,“ segir Blair. 

Það þarf að passa upp á nándina

„Það er margt sem getur haft áhrif á svefn maka okkar og við getum haft áhrif á hans svefn. Það gæti verið hrotur, byltur, rumsk, svefnleysi, það að vakna til að fara á klósettið. Best væri að sofa einn en það gæti haft neikvæð áhrif á sambandið. Mörg pör upplifa mikla nánd þegar þau eru að koma sér fyrir upp í rúmi, þá gefst tími til að spjalla saman um daginn og veginn og faðmast og snertast. Það er því raunveruleg hætta á að þessi nánd hverfi ef allir fara í eigið herbergi til að sofa.“

Taka frá tíma fyrir nánd

„Ákveði pör að sofa í sitthvoru lagi þá þarf að koma á ákveðina hluti til þess að minnka líkur á tengslarofi. Almennt reyni ég að forðast að mæla með að fólk sofi í sitthvoru lagi því ég er fyrst og fremst að líta á stóru myndina. Ekki bara svefninn, heldur líka tengslamyndunina í sambandinu og kynheilbrigði. Ég set hins vegar fram kosti og galla þess og leyfi þeim að taka upplýsta ákvörðun. Því auðvitað er það ekki gott fyrir samband ef annar aðilinn sefur mjög illa út af hinum. Svefnleysi getur haft mjög neikvæð áhrif á einstaklinginn.“

„Ef pör ákveða að sofa áfram saman þá leggjum við áherslu á að reyna að bæta það sem er að trufla svefninn. Það er margt hægt að gera.“

„Ef pör ákveða að sofa í sitthvoru lagi þá er mikilvægt að þau taki frá tíma á hverju kvöldi þar sem þau reyna að ná saman, andlega og líkamlega. Hafa tíma til að kúra saman og spjalla. Þá er mikilvægt að leggja áherslu á líkamlega snertingu og vingjarnlegheit utan svefntímans. Það er til dæmis hægt að vera í sama rúmi í hálftíma áður en kemur að því að sofna og færa sig svo yfir í annað herbergi.“

Svefnherbergið skiptir máli

„Passaðu upp á að svefnherbergið sé góður vettvangur fyrir bæði kynlíf og svefn. Forðastu að gera nokkuð annað í svefnherberginu svo að þú skapir ekki óvart hugrenningartengsl við streitu, vinnu eða nokkuð annað. Ef svefnherbergið er til dæmis staður sem þú gerir hluti á borð við að vinna, brjóta saman þvott, rífast við makann eða hvað sem er, þá skaltu hætta því undireins. Þér á að líða vel þegar þú kemur inn í svefnherbergið og það á að minna þig á friðsæla tíma og slökun.“

„Leitastu við að hanna svefnherbergi sem höfðar til allra skilningarvita. Veldu liti sem höfða til þín, rúmföt og teppi sem gefa vissa áferð og plöntur og milda lýsingu sem gera mikið fyrir augað. Þá er hægt að kveikja á kertum og hafa tilbúinn lagalista með róandi lögum. Loks mæli ég alltaf með að fólk hafi nuddolíu við höndina. Það getur hjálpað til við að skapa nánd og ná fram slökun.“



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál