Engar rannsóknir sýna að sjósund sé gott fyrir húðina

Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.
Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni.

Er sjósund eða það að baða sig í köldu vatni gott fyrir húðina? Jenna Huld Eysteinsdóttir húðlæknir á Húðlæknastöðinni segir að ekki sé vitað hvort það hafi góð áhrif á húðina því það vanti rannsóknir til að fullyrða það.  

„Sjósund eða að baða sig í köldu vatni er alltaf að verða vinsælla og vinsælla hér á Íslandi og í löndunum í kringum okkur. Margir fullyrða að þessi iðkun sé mjög heilsueflandi og þá er oftast nefnt að hún styrki ónæmiskerfið og hjarta- og æðakerfið, auki kynhvötina, brenni kaloríum og dragi úr streitu og þunglyndi. Þetta hljómar allt mjög vel og nokkrar rannsóknir til sem gefa vissar vísbendingar um að þetta sé rétt. Það verður samt að segjast að sannanirnar eru því miður ekki mjög sterkar og það vantar sárlega stórar slembirannsóknir til að sýna fram á þessa kosti sjóbaða/kaldra baða með óyggjandi hætti,“ segir Jenna Huld. 

Hún bendir á að mikil æðaherping verði í húðinni við það að fara út í kalt vatn. 

„Þétt bláæðanet liggur í fitulaginu þétt undir húðinni sem gegnir mjög mikilvægu hlutverki í hitastjórnun líkamans. Þetta bláæðanet er vel tengt háræðunum eða litlu æðunum sem liggja svo í leðurhúðinni sem við það að fara í kalt vatn eða kaldan sjó dragast saman til að koma í veg fyrir að við töpum frekari hita úr líkamanum. Ef þetta varnarkerfi okkar dugar ekki til að halda uppi líkamshita þá fer næsta varnarkerfi í gang sem er skjálfti, það er að segja líkaminn fer að skjálfa þegar vöðvarnir fara að dragast saman ósjálfrátt til að framleiða hita. Skjálftinn krefst mikillar orku frá líkamanum og eykur þar með efnaskiptahraða líkamans og hafa nokkrar rannsóknir sýnt að við þetta ferli verður fitubrennsla og þar af leiðandi þyngdartap.  

Áhrif kuldans á húðina sjálfa hefur lítið sem ekkert verið rannsakað en við vitum út frá nokkrum eldri rannsóknum að böðun í sjó eða saltvatni hefur vissulega jákvæð áhrif á húðina. Þekktasta dæmið okkar hér á Íslandi um sjóvatn sem hefur góð áhrif á húðina er Bláa Lónið og úti í hinum stóra heimi er Dauða hafið mjög þekkt. Margar klínískar rannsóknir hafa sannað lækningamátt þessara staða gegn bæði psoriasis og exemi.   Lækningamátturinn hefur þá helst falist í saltmagninu og steinefnunum sem eru í miklu magni í vatninu, eins og magnesíum, kalsíum, kísill og kalsíum, og lífríkinu. Sem dæmi þá hafa þörungarnir í Bláa Lóninu sýnt fram á mikla lífvirkni og jákvæð áhrif á húðina. Ef við tökum saman almennt hvaða jákvæðu áhrif böðun í sjóvatni hefur á húðina þá er það aukinn raki í húðinni, mýkri húð, bólgueyðandi áhrif og einnig vísbendingar um frumubreytingar sem fyrirbyggja öldrun húðarinnar. Auðvitað eru þessar rannsóknir gerðar á alls konar sjóvötnum og við margs konar hitastig og því óljóst hve mikið er hægt að yfirfæra yfir á kaldan sjó, en ættu kannski að geta gefið okkur vísbendingar,“ segir hún. 

Jenna Huld bendir á að það séu til rannsóknir sem sýna að sjósund hafi slæm áhrif á húðina. 

„Einnig eru til rannsóknir sem hafa sýnt fram á slæm áhrif sjósunds á húðina, til dæmis eins og merki um aukna tíðni húðsýkinga, augnsýkinga og fleira hjá þeim sem synda reglulega í sjónum. Hafa þá verið getgátur um það að sjósundið breyti bakteríuflóru húðarinnar og veiki þannig varnarkerfi hennar.  

Niðurstaðan er því í stuttu máli að við vitum ekki með vissu hvort sjósund hafi góð áhrif á húðina, það vantar rannsóknir til að fullyrða það. En það virðist alveg vera þess virði að kanna nánar þar sem margir sjóiðkendur fullyrða að sjósund hafi mjög góð áhrif á húðina sína,“ segir Jenna Huld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál