Svaf ekki nema drekka vodka eða taka svefntöflur

Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir.
Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hjónin Björn Leifsson og Hafdís Jónsdóttir ræða lífið í World Class í hlaðvarpsþættinum Tölum um með Gumma Kíró. Hjónin eru heiðarleg og segja kírópraktornum Guðmundi Birki Pálmasyni að reksturinn hafi ekki alltaf verið dans á rósum. 

Björn og Hafdís hafa rekið líkamsræktarstöðvar í marga áratugi og segjast vera góð saman. Björn einbeitir sér meðal annars að tækjasalnum en Hafdís sér um starfsmannamálin og þróun á kennslu. 

Unnu á barnum eftir vinnu

„Þetta er bara þessi gamla góða þrautseigja. Við erum bara alltaf að. Þetta er bara okkar líf 24/7 eins og maður segir,“ segir Hafdís um líf þeirra. 

Þegar talið berst að vinnusemi minnast þau þess þegar þau ráku skemmtistaði í miðborg Reykjavíkur. „Við áttum náttúrulega bæði Ingólfskaffi og Þjóðleikhúskjallarann í tíu ár. Þá fór maður úr World Class klukkan sjö á kvöldin beint niður á skemmtistaðina og var að koma heim klukkan fjögur. Dísa þurfti þá að sjá um börnin en framan af var hún á barnum líka,“ segir Björn.

„Við tökum Ingólfskaffi 1991 og Birgitta Líf er fædd 1992,“ segir Hafdís og bætir við að dóttir þeirra Birgitta Líf hafi verið í bumbunni á barnum á Ingólfskaffi. 

„Þetta var gríðarleg vinna. Við áttum bæði Ingólfskaffi og Þjóðleikhúskjallarann á aðalblómaskeiði þeirra,“ segir Björn. 

Allt fór til helvítis í hruninu

Guðmundur spyr þau hvaða tímabil í rekstrinum hafi verið erfiðast. 

„Það var bankahrunið,“ segir Björn og dæsir. „Það var þannig að við keyptum 13 stöðvar í Danmörku. Áttum reyndar bara 24,5 prósent á móti fyrrverandi félaga mínum úr Straumi. Síðan fór þetta allt til helvítis í hruninu og hefði sennilega ekki einu sinni þurft hrunið til,“ segir hann. 

Björn útskýrir að það sem hafi meðal annars sett félag hans í erfiða stöðu var samningsatriði sem kvað á um að hann væri í ábyrgð fyrir tækjum, þrátt fyrir að eiga bara einn fjórða í fyrirtækinu. Það reyndist erfitt að standa við afborganir á tækjunum og þurrkaði upp sjóðinn í félagi hans. Hann segir að meðeigendur hans hafi ekki komið með neitt á móti.

„Þetta endar með því að Þrek, félagið hét Þrek, það var eiginlega komið á framlappirnar. Enginn sjóður var orðinn til. Á tímabili vissi maður ekki hvort maður ætti skóna sem maður stóð í. Ég átti tvo bíla, ég var búinn að setja þá á tvo félaga mína þannig ég héldi einhverju,” segir Björn. Hann lýsir því einnig hvernig var leikið á hann þegar kom að tveimur líkamsræktarstöðvum í Álaborg. Til að verja sig beitti hann einnig klækjabrögðum til þess að auka hlutafé í Laugum. Hann segir Straumsmenn hafa verið allt annað en ánægða. 

Reyndi virkilega á

„Þetta var mjög töff tímabil þér að segja. Við vorum meira að segja búin að ræða það að flytja erlendis ef allt færi á versta veg,“ segir Björn.

Fjölmiðlaumfjöllunin reyndi líka á. „Þegar við vissum að það væru að koma greinar tókum við alltaf fund með börnunum og sögðum þeim hvað væri í vændum. Þannig að þau yrðu ekki fyrir aðkasti og vissu af þessu.“

Björn segir fyndið að talað sé um hann sem stærsta kennitöluflakkara Íslandssögunnar. „Ég á allar kennitölurnar enn þann daginn í dag,“ segi Björn með allt sitt á hreinu og var snöggur að þylja upp gamla kennitölu. 

Guðmundur spyr hvort að þetta hafi ekki tekið á og hvort hann hafi sofið.

„Ég get alveg sagt þér að þetta tók á. Í sex mánuði á meðan versti kaflinn var, ég veit að Dísa er ekki hrifin af því að ég segi þetta, svaf ég ekki án þess að drekka hálfan lítra af vodka eða taka svefntöflur. Í sex mánuði!“

Hér fyrir neðan má nálgast þáttinn Tölum um með Gumma Kíró í heild sinni. 



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál