Blómapottar geta létt lífið

Margrét Ása Karlsdóttir garðyrkjufræðingur.
Margrét Ása Karlsdóttir garðyrkjufræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Ekkert lát virðist ætla að verða á garðyrkjuáhuga Íslendinga og í nógu að snúast hjá Margréti Ásu Karlsdóttur og kollegum hennar hjá Blómavali. Margrét, sem er garðyrkjufræðingur og útstillingahönnuður, segir þó einkenna áherslurnar hjá mörgum viðskiptavinum í dag að þeir leiti leiða til að létta sér störfin í garðinum og vilji gjarnan plöntur sem ekki þarf að hafa mikið fyrir.

Ein leið til þess að bæði gera fallegan en stílhreinan garð, og líka einfalda garðvinnuna, er að hafa plönturnar í pottum frekar en beðum. „Yngri kynslóðin er greinilega komin á kaf í pottaræktunina en með blómapottunum verður utanumhald og umhirða einfaldari, og auðvelt að ná fram snyrtilegu yfirbragði,“ útskýrir Margrét.

Blómapottar hafa þann kost að hægt er að færa þá á milli staða og setja í meiri birtu eða skugga, eða skjól, eftir því hvar plönturnar þrífast best. Þá þarf ekki að fara á hnén til að gróðursetja, eins og ef notað væri beð, og hægt að sitja á þægilegum kolli á meðan potturinn er gerður fínn. Þarf svo bara að muna að vökva reglulega og getur verið ögn meiri kúnst að halda nægilegum raka í blómapotti en beði.

Glerungur til að þola íslenskar aðstæður

Margrét segir brýnt að velja rétta gerð af blómapotti og ganga rétt frá mold og undirlagi. „Nota ætti blómapott með glerungi því annars eru allar líkur á að hann brotni í næsta frosti. Þá þarf potturinn að vera með gat í botninum til að hleypa vatni og raka út,“ útskýrir hún, en ef gatið vantar og of mikið vatn ratar ofan í pottinn má reikna með að rætur taki að skemmast og stóraukin hætta verður á frostsprungum í pottum.

„Neðst í blómapottinn fer lag af grús og þumalputtaregla að grúsin fylli neðsta fjórðunginn. Moldin fer þar ofan á og upplagt að blanda saman við hana svk. vatnskristöllum. Um er að ræða efni sem drekkur í sig vatn en gefur svo frá sér raka þegar moldin tekur að þorna. Þýðir þetta að ekki þarf hafa áhyggjur af því ef gleymist að vökva, og jafnvel hægt að fara að heiman í stutt frí og redda málunum með vatnskristöllunum.“

Það hve mikið eða lítið á að vökva plönturnar ræðst m.a. af veðurfari og hvar beð eða pottur eru staðsett í garðinum. Blómabeð úti á miðri grasflöt í rigningaveðri þarf litla eða enga vökvun á meðan blóm á heitum stað á palli, undir þakskeggi gætu þurft að fá skammt af vatni daglega eða annan hvern dag. Margrét segir garðyrkjufólk tiltölulega fljótt að fá tilfinningu fyrir því hve mikið þarf að vökva jarðveginn. „Ekki þarf að hafa miklar áhyggjur af að ofvökva útipott með grús og gati því umframvatnið safnast ekki upp heldur fer niður um gatið.“

Réttur jarðvegur og réttar plöntur

Eins og lesendur sjá veit Margrét flest það sem hægt er að vita um garðyrkju og plönturækt og segir hún starfsfólk blómaverslananna boðið og búið að veita ráðgjöf og miðla þekkingu. Aldrei hefur þó verið auðveldara að finna hagnýtar upplýsingar og garðyrkjufróðleik á netinu og þannig tryggja að garðræktin gangi snurðulaust fyrir sig.

Margrét minnir á nokkur grunnatriði sem vilja gleymast, eins og að plöntur þrífist misvel eftir sýrustigi moldarinnar og ekki fari vel á því að setja í sama pott plöntu sem vill súran jarðveg og plöntu sem dafnar best í basískri mold. „Hortensían hydrangea er tegund sem nýtur töluverðra vinsælda um þessar mundir. Hún þarf einmitt súra mold til að dafna vel og er upplagt að vökva hana með súrri þrumu.“

Margrét segir líka brýnt, þegar kemur að því að skipuleggja garðinn, að sýna aðgát við val og staðsetningu á trjám.

„Reynslan hefur kennt Íslendingum að sumar trjátegundir eiga helst ekki heima í þéttbýli, vaxa mjög hratt og geta byrjað að verða til ama. Væri t.d. af og frá að gróðursetja alaskaösp annars staðar en á sumarbústaðalóð þar sem langt er í næstu skika og þörf á að ná upp betra skjóli á skömmum tíma.“

Klippi burtu skemmdir

Eins og fyrr var getið er hortensían Hydrangea macrophylla vinsæl um þessar mundir, og kemur ekki á óvart enda litríkar plöntur með stór og falleg blóm. Þarf að staðsetja hana í ágætu skjóli og halda góðum raka. Margrét segir að hortensían sé yfirleitt seld sem einær eða sumarblóm hérlendis en er þó fjölær planta og eigi best heima inni í köldum skála yfir vetrartímann eða undir öðru skjóli. Ætti síðan að klippa hana vel niður á haustin og sprettur hortensían þá fram þétt og falleg að vori.

Þegar blóm hortensíunnar eru farin að láta á sjá ætti að klippa þau burtu, og segir Margrét það eiga við um flestar plöntur að þeim er greiði gerður með því að fjarlægja skemmdar greinar og blóm. „Bæði gerir það plöntuna fallegri en svo bjóða hvers kyns skemmdir heim hættunni á sýkingu.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Guðrún Kristjánsdóttir
Guðrún Kristjánsdóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Lára Guðrún Sigurðardóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Hildur Jakobína Gísladóttir
Júlía heilsumarkþjálfi
Júlía heilsumarkþjálfi

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál