Það er krefjandi að gefast ekki upp þegar á móti blæs

Erla Gísladóttir er þriggja barna móðir, flugfreyja og eigandi URÐ.
Erla Gísladóttir er þriggja barna móðir, flugfreyja og eigandi URÐ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljósmyndir af náttúru Íslands urðu uppspretta ilmkertagerðar hjá Erlu Gísladóttur, stofnanda Urðar. Ilmkerti, heimilisilmur og sápur eru nú í boði í fjórum mismunandi ilmtegundum sem endurspegla árstíðirnar en Erla segist vilja endurvekja gamlar handverksaðferðir með íslensk hráefni í aðalhlutverki. 

„Ég man hamingjuna og frelsistilfinninguna þegar ég var krakki í sveit, hlaupandi á milli heyrúlla í sól og roki. Mig langaði að endurupplifa þessar tilfinningar og er ilmur kjörinn til þess,“ segir Erla Gísladóttir stofnandi Urðar þar sem ilmkerti, ilmstrá og ilmsápur eru í aðalhlutverki. Hún hannaði fjórar gerðir af ilmi sem endurspegla árstíðirnar fjórar: Dimma er haust, Stormur er vetur, Bjarmi er vor og Birta sumar.
„Þessir ilmir eru hannaðir út frá minningum mínum úr æsku. Sumarilmurinn er unninn út frá minningunni úr sveitinni þegar ég var úti í náttúrunni. Vorilmurinn er einn af mínum uppáhalds en hann hannaði ég út frá æskuminningum um sumarbústað fjölskyldunnar, þar sem við kveiktum upp í kamínu því þar var ekkert rafmagn. Haustilmurinn er beintengdur minningum um berjamó en ég elska litina og ilminn sem tengjast haustinu. Vetrarilmurinn er þó frekar tengdur upplifun, hvernig ég upplifi kröftugan vetur.“
Jólakertið frá URÐ hefur notið gífurlegra vinsælda og er óhætt …
Jólakertið frá URÐ hefur notið gífurlegra vinsælda og er óhætt að segja að það sé orðið hluti að jólahefð margra Íslendinga.

Vilja endurvekja íslenskar handverksaðferðir

Urð er gamalt íslenskt orð sem þýðir jörð eða jarðvegur og byggir Erla á íslenskum hefðum við framleiðsluna.

„Við viljum endurvekja gamlar handverksaðferðir við framleiðsluna og tryggja þannig gæði og rekjanleika. Við viljum segja sögu, vekja minningar og halda í gæði. Steinasápurnar okkar eru hrærðar frá grunni með vítissóda eins og formæður okkar gerðu í eldhúsinu í gamla daga. Þeim er svo pakkað í pappír en umbúðir okkar eru aldrei úr plasti,“ segir Erla en hún segist nota íslensk hráefni eins og hægt er í þær vörur sem framleiddar eru á vinnustofu hennar. Repjuolía, blóðberg, leir, þörungar, hafrar og sandur eru allt hráefni sem notuð eru í vörur Urðar en Erla segir íslenska náttúru vera uppsprettu hreinna hráefna sem auðvelt sé að nota í snyrtivörur.

„Sandur og leir eru góð hráefni í skrúbba og maska og ég tala nú ekki um allar kröftugu jurtirnar. Við notum íslenska repjuolíu frá Sandhóli í okkar sápur og hún er í algjörum lúxusflokki. Mér finnst gaman að nota íslensk hráefni, bæði því það er umhverfisvænt og þau uppfylla gæðakröfur okkar. Það er líka mikilvægt að styðja við aðra íslenska framleiðslu. Því meira sem við vinnum saman, hrávörubændur og framleiðendur, þeim mun sterkara vörumerki verðum við sem heild með íslenskar húðvörur í heimsklassa,“ segir Erla.

Ljósmynd upphafið að hugmyndinni

Óhætt er að segja að vörurnar frá Urði hafi notið gífurlegra vinsælda frá því þær komu fyrst á markað árið 2016.

„Mér hefur alltaf þótt gaman að búa eitthvað til og á unglingsárunum var ég með ljósmyndadellu en ég fór að setja myndirnar sem ég tók á viðarkubba og gefa í jólagjafir. Ég fór svo að selja þessar myndir í umboðssölu og á mörkuðum úti á landi. Eitt skipti á Patreksfirði tók kona upp mynd af blóðbergi og sagði að hún gæti nánast fundið ilminn af myndinni. Þá fór af stað sú hugmynd að vinna með ilm. Ég byrjaði að saga vínflöskur, bræða vax og blanda ilm. Kertin voru seld í búðum og heimili mitt var farið að líta út eins og húsbíllinn í Breaking Bad. Þá ákvað ég eiginlega að annaðhvort myndi ég hætta þessu eða stofna fyrirtlæki og fara alla leið. Það gerði ég með manninum mínum, sem hvatti mig alltaf áfram,“ segir Erla en til að anna eftirspurn var framleiðslu kertanna útvistað annað.

Þau hjónin fóru til Grasse í Frakklandi, stundum kölluð höfuðborg ilmgerðar, þar sem þau fundu framleiðanda og ilmurinn var fínpússaður. Hún hafði mikla trú á ilminum og kertunum svo hún pantaði gríðarlegan fjölda ilmkerta sem bárust heim til hennar, þar sem hún var ekki enn komin með vinnustofu.

„Ég fyllti því stofuna af ilmkertum. Ég man ennþá eftir hjartslættinum sem ég fékk þegar ég horfði yfir alla þessa kassa þarna. Svo hugsaði ég að fyrst ég væri byrjuð væri eins gott að gyrða sig í brók. Um leið og kertin voru komin í búðirnar fór ég að hugsa um næstu vöru. Og þá fór boltinn að rúlla af alvöru og ég byrjaði að framleiða sápur. Við framleiðum allar sápurnar hér á vinnustofunni okkar í Garðabæ úr bestu mögulegu hráefnum,“ segir Erla.

Samhliða fyrirtækjarekstrinum er Erla í fullu starfi hjá Icelandair sem flugfreyja og þriggja barna móðir.

„Ég á ótrúlega góða foreldra, tengdaforeldra og auðvitað mann sem öll styðja mig og aðstoða. Það er áskorun að stofna fyrirtæki og það fer mikill tími og kostnaður í vöruþróun. Ég reyni hins vegar að taka einn dag í einu og velta mér ekki of mikið upp úr framtíðinni, eiga gæðastundir með börnunum eins oft og ég get og eyða ekki tíma í að flokka sokka til dæmis. Heima hjá mér má vera í mislitum sokkum alla daga, það þarf ekki alltaf allt að vera fullkomið,“ segir Erla.

Hún segir móðurhlutverkið frábært og elskar að hafa fullt hús af fólki og stemningu en stundum finnst henni gott að vera ein og fá svigrúm til að skapa.

„Það geri ég í gegnum Urði. Þá er ég að dunda mér við hugmyndavinnu að næstu vörum; velti fyrir mér umbúðum og þróa uppskriftir. En maðurinn minn er aldrei langt undan. Urð er okkar sameiginlega áhugamál. Ég vakna alla daga spennt fyrir deginum en auðvitað líka þreytt stundum, annars væri ég að ljúga,“ viðurkennir Erla.

Hún segir það krefjandi að búa til vöru sem hittir í mark:

„Ég hef gert fullt sem hefur endað í ruslinu eða stendur rykfallið uppi í hillu og ég hef varið miklum tíma og peningum í. Það er krefjandi að gefast ekki upp þegar á móti blæs, en hins vegar er svo gaman að sjá þegar vel gengur að maður verður háður því og heldur þess vegna áfram.“

Jólakertið orðið táknrænt fyrir hátíðarnar

Jólakertið frá Urð nefnist einfaldlega Gleðileg jól og er þegar orðið hluti af jólahefðum hjá fjölda fólks. Í fyrra seldist það upp og því ágætt að fara að huga að því að ná sér í eitt slíkt. „Jólakertið er hugsað sem veisla fyrir lyktarskynið. Þegar ég var barn keypti mamma alltaf appelsínubaðkúlur, sem við settum í jólabaðið. Jólakertið er beintengt þeirri nostalgísku minningu um ilm og hefð. Jólin koma í hús þegar þú finnur jólailminn okkar,“ segir Erla og bendir á að útlitið á kertinu sé líka úthugsað: gyllt glas, rauðar umbúðir og stjörnulímmiði. Allt saman táknrænt fyrir jólin.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál