„Ég þarf hvorki né vil stærra né meira“

Sigríður Thorlacius á afslappað og fallegt heimili í miðbæ Reykjavíkur.
Sigríður Thorlacius á afslappað og fallegt heimili í miðbæ Reykjavíkur. mbl.is/Árni Sæberg

Sigríður Thorlacius söngkona hefur búið í fallegu bakhúsi í miðbæ Reykjavíkur frá árinu 2014. Íbúðin endurspeglar persónuleika hennar og er einstaklega skemmtileg og falleg. 

Sigríður er ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Þrátt fyrir það lifir hún einföldu fallegu lífi þar sem gildin hennar og lífsviðhorf eru í takt við einstakling sem setur náttúruna, menningu og vandaðar hugmyndir í forgrunn. Sjálf lýsir hún heimili sínu sem hæfilega kaótísku en þó í nokkuð formföstum ramma.

„Mér finnst gott að hafa liti í kringum mig. Ljós, kerti og blóm. Hluti sem minna mig á staði sem ég hef heimsótt og fólkið í lífi mínu. Ég reyni að sníða mér stakk eftir vexti og eiga ekki of margt af neinu – en á þá frekar bara fullt af alls konar!“

Tónlist jafn mikilvæg og súrefni

Sigríður segir að tónlist sé henni jafn mikilvæg og súrefni.

„Stundum finnst mér samt alveg ótrúlega gott að vera í þögn, kannski einmitt vegna þess að ég er svo oft í kringum tónlist.

Mér finnst gott að geta spilað tónlist bara alveg eftir því hvernig mér líður hverju sinni. Það getur þá verið allt frá Mariu Callas til Donnu Summer. Það fer í raun eftir klukkunni og tilfinningunni.“

Íbúð Sigríðar er heimilisleg og það sem einkennir hana er að það fer vel um hana í henni. Það er hátt til lofts og litirnir á veggjum eru fallega kvenlegir.

„Íbúðin mín er algjör ögn. 50 fermetrar. Hins vegar er hér óvenju hátt til lofts og andar því vel. Hún er björt og ég hef lítinn skrítinn garð í suður hvar ég get drukkið kaffibollann minn á sumrin. Ég þarf hvorki né vil stærra né meira.

Mér þykir ótrúlega vænt um alls konar hluti sem hafa fylgt mér lengi. Hluti sem ég hef fengið frá fólki sem skiptir mig miklu. Svo þess á milli vel ég bara eitthvað sniðugt sem ég sé. Og mér finnst ekkert mjög gaman að þvælast í einhverjum húsgagnaverslunum eða slíku. Þegar mig vantar eitthvað – þá bara finn ég það. Þess á milli er ég alveg róleg með mitt. Ég kveiki bara á kerti og hendi ruslinu út í horn.“

Er stöðugt að leita að hinum fullkomna svefni

Sigríður segir að hún sé stöðugt að leita að hinum fullkomna svefni. Henni hefur ekki enn tekist að finna lausnina en svefnherbergið hennar hefur notið góðs af þessari viðleitni hennar.

„Ég vildi óska að ég væri meiri „a“ manneskja, en ég er algjör næturugla og fæ flestar hugmyndir á kvöldin – bæði góðar og svo mjög vondar. En ég elska að sofa vel. Og er alltaf að reyna að verða betri í því. Ég laug reyndar áðan – það er eitt sem ég á í alltof mörgum eintökum og það eru rúmteppi. Ég veit ekki alveg hvað það er. Það er bara einhver hlýja í rúmteppum sem heilla mig. Og ég stenst þau ekki.“

Það sem gerir svefnherbergið hennar hlýlegt er m.a. fallegir dúskar fyrir ofan rúmið.

„Þessir krúttlegu fjaðradúskar fyrir ofan rúmið eru Juju-hattar frá Kamerún sem ég fékk í hinni dásamlegu verslun Nielsen. Mér finnst þeir einhvern veginn eins og krúttlegir skýjabólstrar.“

Þegar kemur að eldhúsinu er Sigríður frekar óhefðbundin og segir hún að stell sé ekki fyrir hana.

„Það sem ég er með í eldhúsinu er úr öllum áttum. Mér finnst mun skemmtilegra að eiga bara alls konar hluti úr ýmsum áttum. Svo stundum langar mig að vera fullorðin og smart og eiga eitthvað í stíl og geri tilraun til þess. En það gengur aldrei nægilega lengi. Ég er hins vegar svo heppin að eiga systur sem er klár í að gera keramik og ég á alls konar fallegt frá henni. Ætli það sé ekki það sem ég kemst næst því að eiga stell.“

Kaupir allt í miðborginni

Sigríður segir allt til sem þurfi í eldhúsið þó að hún sé kannski ekki sú besta í búðum.

„Það er allt til sem þarf að vera til. Og ef það er ekki til þá líklega þarf ég það ekki svo nauðsynlega. Ég á ekki bíl og kann ekki á bíl svo mér finnst best að kaupa allt í nágrenni mínu. Ef það er ekki til í miðbænum þá bara þarf ég það ekki. Það er svona viðmiðið.“

Hún segist gera sitt besta að lifa í sátt við sig og aðra í dag.

„Ég er ekki mikið að spá inn í framtíðina, sem betur fer, heldur reyni ég að lifa í sátt við mig og aðra í núinu.

Það er kannski líka í eðli okkar sem vinnum svona á eigin vegum að horfa ekki of langt og reyna að stressa okkur ekki um of varðandi það. Ég hins vegar vona að við getum öll lært að slaka ögn á, fara aðeins hægar, taka eftir því sem er í kringum okkur; fólki, dýrum og náttúrunni. Og lifa svo í sátt við það. Ég virkilega vona að við berum gæfu til þess.“

Förum að hugsa betur um hvað við kaupum

Hvernig sérðu fyrir þér hönnun og heimili á næstu árum?

„Ég held að nú sé komið að því að við förum að hugsa aðeins betur um hvað við kaupum. Fólki er blessunarlega orðið aðeins meira umhugað um jörðina og það er meðvitað um að við berum ábyrgð og að neyslan okkar er komin langt úr hófi. Og þá er enn skemmtilegra að kaupa sér eitthvað sem virkilega gleður mann. Og vanda það val.“

Hvernig myndu vinir þínir og fjölskylda lýsa þér heima?

„Ég hugsa að einhverjir myndu segja að ég væri mikið í því að sýsla. Bara eitthvað að dunda. Mér finnst oftast gott að vera heima hjá mér. Eins og mér finnst líka ótrúlega mikilvægt að komast þaðan endrum og eins. Það þarf allt að fá að vera í jafnvægi.“

Finnst þér gaman að elda?

„Já. Mér finnst það. Mér finnst reyndar rosalega leiðinlegt að elda kjöt. Það bara hræðir mig eitthvað. Veit ekki hvað það er. En að elda úr grænmeti og fiski gleður mig. Og helst ef ég hef nægan tíma. Hins vegar koma stundir vinnu minnar vegna þegar eldamennska passar ekki endilega inn í dagskrána. Þá er ekki langt niður á Snaps.“

Dugleg að henda dóti undir rúmið

Er eitthvað sem enginn veit um þig sem tengist heimilinu?

„Það væri þá kannski bara hvað ég er góð í að henda dóti bara inn í skápa eða undir rúm þegar það er fyrir mér. Það er ákveðin kúnst að láta hlutina bara hverfa í smá stund þegar einhver kemur í heimsókn.“

Sigríður segir að hún sé eflaust síraulandi þegar hún er heima.

„Ég raula bara með útvarpinu og svona. En þess utan er ég ekki mikið að því. Mér finnst hins vegar mjög huggulegt að æfa hér heima með samverkamönnum mínum yfir kaffibolla og vona bara að það angri nágranna mína ekki mjög mikið.“

Eldhúsið er með opnum hillum, frístandandi eldavél og með ísskáp.
Eldhúsið er með opnum hillum, frístandandi eldavél og með ísskáp. mbl.is/Árni Sæberg
Hansahillur eru mikið prýði.
Hansahillur eru mikið prýði. mbl.is/Árni Sæberg
Inni á baðherbergi er innréttingin lökkuð í sama lit og …
Inni á baðherbergi er innréttingin lökkuð í sama lit og veggirnir. mbl.is/Árni Sæberg
Söngkonur þurfa að eiga nóg af skrauti til að setja …
Söngkonur þurfa að eiga nóg af skrauti til að setja um hálsinn. mbl.is/Árni Sæberg
Skrautið á veggnum eru hattar.
Skrautið á veggnum eru hattar. mbl.is/Árni Sæberg
Fallegir púðar frá Scintilla.
Fallegir púðar frá Scintilla. mbl.is/Árni Sæberg
Það jafnast ekkert á við gott kaffi.
Það jafnast ekkert á við gott kaffi. mbl.is/Árni Sæberg
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »