Lífið leynist í ruslinu en hver hendir svona?

María Hjálmtýsdóttir kennari er mikill safnari.
María Hjálmtýsdóttir kennari er mikill safnari. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Hver hendir svona?“ er síða á Fésbókinni sem nýtur aukinna vinsælda. „Stundum setti ég á vegginn minn myndir af hlutum, sem ég sá á nytjamörkuðum og þótti skrýtnir, með þessari spurningu,“ segir María Hjálmtýsdóttir menntaskólakennari. „Gömlum skólabróður mínum þótti þetta nægilega skemmtilegt til þess að hann bjó til hópsíðu og nú fylgjast tæplega 5.000 manns með henni og leggja henni lið.“

Ákveðin söfnunarárátta hefur leitt Maríu á nytjamarkaði og fornsölur undanfarin ár. „Ég er stöðugt í fjársjóðsleit eins og Lína Langsokkur, safna fyrst og fremst gömlum barnabókum og barnadóti, einkum Fischer Price-leikföngum,“ segir hún. Ástæðuna segir hún meðal annars vera þá að hún eigi son á fimmta ári, sem hún lesi fyrir auk þess sem hann leiki sér með gömlu leikföngin. „Hann leikur sér með hluti frá 1970 og kynnist gömlum sögum,“ segir hún.

Verðugur tilgangur

„Ég hljóma kannski eins og einhver furðufugl en samt er ekkert skrýtið heima hjá mér,“ leggur hún áherslu á. Þvert á móti sé hún bara að viðhalda barninu í sér samfara því að bjarga hlutum frá eyðileggingu. Nefnir í því sambandi að hún hafi notað gamlar barnabækur í kennslu í kynjafræði. „Við höfum til dæmis greint söguna um Strympu og krökkunum nú til dags finnst sagan, sem ég sá ekkert athugavert við sem krakki, vera fáránleg.“

mbl.is/Kristinn Magnússon

María er alltaf með augun opin fyrir því sem er gamalt og gott, dýrgripir að hennar mati en rusl í augum margra. „Með bókasöfnuninni þykist ég vera að bjarga gömlum menningarverðmætum, bókum sem allir muna eftir en eiga á hættu að falla í gleymskunnar dá sé þeim ekki haldið til haga,“ heldur María áfram, en í safninu eru um 200 til 300 barnabækur. Hún bendir á að gamlar bækur lendi oft í drasli og á endanum á haugunum, en geti engu að síður verið mikil listaverk. „Þetta er efni sem fólk á mínum aldri og eldra ólst upp við og þótt barnabókasafnið mitt hafi ekki enn verið metið að verðleikum held ég að sá tími komi að einhverjir verði mjög ánægðir með það.“

Á mörkuðum eru hlutir af ýmsu tagi og sumir þeirra hafa vakið athygli Maríu, þótt hún hafi ekki endilega fallið fyrir þeim. Hún segir að hún fái alltaf sting í hjartað þegar hún sjái brúðkaups- og fjölskyldumyndir í einskis manns landi en þær undirstriki að lífið sé í ruslinu. „Grínið er stundum ljúfsárt,“ segir hún og bendir á að það furðulegasta sem hún hafi séð á svona markaði hafi verið líkkista. „Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið þegar ég rakst á líkkistu í Góða hirðinum en ég vona að hún hafi ekki verið notuð í eðlilegum tilgangi heldur sem leikmynd.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.990 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »