Baðherbergi Demi Moore veldur usla

Demi Moore á áhugavert baðherbergi.
Demi Moore á áhugavert baðherbergi. AFP

Allt ætlaði um koll að keyra í netheimum þegar Demi Moore birti mynd af sér inni á baðherbergi sínu á Instagram. Ástæðan var ekki hversu fínt það þótti eins og ætla má þegar Hollywood stjörnur eiga í hlut heldur þótti mörgum það frekar „lummó“.

Myndirnar sýna Demi Moore að taka upp hlaðvarpsþætti undir heitinu Dirty Diana. Hún situr í sófanum sínum inni á baði og í horninu er klósettið með opna klósettsetu. Á gólfinu er hnausþykkt brúnt teppi en það eru áratugir síðan það þótti hæfa baðherbergjum, ef nokkurn tímann. Við hlið baðkarsins glittir í stóra og áhugaverða styttu af manni.

Virkir í athugasemdum hafa verið duglegir að tjá skoðun sína á baðherbergi hennar. Mörgum brá til dæmis í brún að sjá þar sófa. 

„Inni á baði? Hlýtur að vera „ríkt fólk-dæmi“.“

„Ég hélt að þetta væri stofan hennar en svo sá ég klósettið í horninu. Það er sófi inni á baðherbergi.“

„Ég neita að trúa að þetta sé raunverulega baðherbergið hennar.“

„Þetta er ljótt. Gömlukonu-sófi. Allt herbergið er gettó. Ég er í sjokki.“

„Ég hrekk í kút í hvert skipti sem ég tek eftir einhverju nýju og enn hræðilegra en áður.“

„Þetta hefur hreyft við sálu minni á hátt sem ég vissi ekki að væri hægt.“

Aðrir hafa verið á jákvæðari nótum og hrósað henni fyrir fallegt útlit og að vinna inni á baði. 

mbl.is