Stallone selur um 14 milljarða glæsihús

Sylvester Stallone.
Sylvester Stallone. AFP

Vöðvabúntið og kvikmyndastjarnan Sylvester Stallone er ekkert ólíkur öðrum jarðarbúum á kórónutímum. Hann hefur eins og aðrir eytt drjúgum tíma heima hjá sér og er greinilega orðinn þreyttur á heimilinu þar sem það er komið á sölu. Hann vill fá um 14 milljarða íslenskra króna fyrir húsið. 

Eins og gefur að skilja er heimili „Rocky“ og „Rambo“ töluvert frábrugðið heimili vísitölufjölskyldunnar og nóg til af öllu. Eins og myndirnar bera með sér er ekkert til sparað í þessu húsi sem hannað er í Miðjarðarhafsstíl og má þar meðal annars finna átta bifreiða bílskúr, sex svefnherbergi, gufubað, heimabíósal, vindlaherbergi og bar ásamt auðvitað stórri sundlaug.

Þá leggur kappinn greinilega mikið upp úr hreinlæti því í húsinu eru níu baðherbergi. Það er ljóst að verulega þarf að taka á því við flutningana því massívar styttur af eigandanum þarf að flytja á nýtt heimili Stallone en þær eru áberandi á opnum svæðum garðsins.

Ef einhverjir lesendur eru áhugasamir um að komast yfir híbýli einnar mestu stjörnu ofbeldismynda síðustu áratuga eru þau föl fyrir litlar 110 milljónir bandaríkjadala eða sem nemur rúmlega 14 milljörðum íslenskra króna. Það ætti fyrir einhverja að vera viðráðanlegt núna þegar vextir bankanna eru í sögulegu lágmarki.

HÉR er hægt að skoða myndir af glæsihúsinu. 

mbl.is