„Ótrúlegt hvað hægt er að fá fallega og eigulega hluti ef kona er þolinmóð“

Anna Lára Steindal nýtur þess að gera nýja hluti úr …
Anna Lára Steindal nýtur þess að gera nýja hluti úr gömlum. Ljósmynd/Aðsend

Anna Lára Steindal, verkefnisstjóri hjá Þroskahjálp, er mikil áhugakona um endurnýtingu, náttúruna og lífið í heild sinni. Hún hefur alltaf haft gaman af því að búa til nýja hluti úr gömlum og heillast af hlutum með sögu. Anna Lára lítur á endurnýtingu sem lífsviðhorf frekar en áhugamál og er mjög ánægð með að hafa uppgötvað hvað það er lítið mál að gera endurnýtingu að lífsstíl.

Anna Lára er dugleg við að fara á nytjamarkaði, þá sérstaklega í Góða hirðinn, þar sem hún finnur hina ýmsu hluti og gefur þeim yfirhalningu og nýtt líf þegar heim er komið. Sumt finnur hún í geymslunni sinni eða annarra og oftar en ekki gefur fólk henni hluti sem því dettur í hug að Anna Lára geti nýtt sér með einhverjum hætti.

Kertstjakar sem Anna Lára bjó til úr ýmsum smáhlutum.
Kertstjakar sem Anna Lára bjó til úr ýmsum smáhlutum. Ljósmynd/Aðsend

Ákveðið lífsmottó að endurelska hluti

Áhuginn á endurnýtingu og jókst til muna eftir að Anna Lára lauk diplómu í sjálfbærnikennslu hjá Jarðarsáttmálanum, sem er siðferðissáttmáli um sjálfbærni. „Í gegnum námið og tengsl mín við aðra sem hafa sáttmálann til leiðsagnar í lífi sínu og starfi áttaði ég mig endanlega á því hversu mikið rugl þessi gegndarlausa neysla og sókn í nýja hluti er. Í takmörkuðum heimi finnst ekki endalaust pláss fyrir nýja hluti og framleiðsluvörur, þess vegna hef ég  einsett mér að því að endurnýta í stórum stíl,“ segir Anna Lára. Kaupir hún mest notuð föt og húsgögn og reynir eftir fremsta megni að sóa ekki mat og endurnýta gamla muni til að búa til eitthvað nýtt og skemmtilegt. Kýs Anna Lára að kalla þetta að endurelska hluti, lífsmottó sem er bæði gott fyrir jörðina, umhverfið og fjárhaginn.

Anna Lára hefur mjög gaman af því að fara á nytjamarkaði og gefur sér yfirleitt tíma í að finna réttu hlutina. Segist hún þó hafa komið tómhent heim úr mörgum ferðum en oft dottið í lukkupottinn og fundið fjársjóð.

Þessi borð voru gerð úr stofuborði sem Anna Lára sagaði …
Þessi borð voru gerð úr stofuborði sem Anna Lára sagaði í sundur og spreyjaði bleik. Ljósmynd/Aðsend

Nýtt heimili einkennist af endurnýtingu

Anna Lára er nýlega flutt og einsetti hún sér að endurnýta eins og kostur var þegar hún kom sér upp nýju heimili. „Þetta er í fyrsta sinn sem ég hanna heimili, frekar en að hafa einfaldlega safn hluta í kringum mig sem ég hef sankað að mér á lífsleiðinni,“ segir Anna Lára varðandi flutningana. Setti hún sér þrjár meginreglur við að gera nýju íbúðina að sinni.

Fyrsta reglan var að ná náttúrunni inn á heimilið. „Ég er með mikið af plöntum, hámarka dagsbirtu, nota náttúruleg form, liti og efnivið. Flest sem ég fékk nýtt inn er ýmist keypt á markaðstorgi Facebook, í Góða hirðinum eða á öðrum nytjamörkuðum. Það er ótrúlegt hvað hægt er að fá fallega og eigulega hluti ef kona er þolinmóð og með smá ást og umhyggju er oftast hægt að glæða hluti sem eru orðnir lúnir nýju lífi,“ segir Anna Lára.

Önnur reglan var að leyfa litagleðinni að njóta sín. „Í bland við náttúrulega liti og efnivið krydda ég heimilið með litum, eins og til dæmi bleikum borðum sem ég bjó til úr stofuborði sem ég keypti á slikk í Góða hirðinum, sagaði í tvennt og spreyjaði bleikt. Eða litríkum lampa sem búinn er til úr vösum og gömlu dóti sem ég fann í geymslunni og Góða hirðinum og límdi saman,“ lýsir Anna Lára.

Þriðja reglan er svo að sjálfsögðu endurnýtingin. „Eins og áður sagði er næstum allt á heimilinu endurnotað eða endurnýtt. Stundum breyti ég hlutum en oftast verka ég þá bara upp og þeir þurfa ekkert meira til að skína og glansa í nýju umhverfi,“ segir Anna Lára.

Anna Lára vinnur talsvert með keramik og glervörur sem hún sækir í geymsluna eða á nytjamarkaði og býr til lampa, blómavasa og kertastjaka úr þeim. Næsta verkefnið hennar er að breyta, að hennar sögn, afskaplega ljótum og svörtum sjónvarpsskenk sem er í stofunni í eitthvað fallegt og skemmtilegt.

Lampi og skúlptúrar úr hinum ýmsu hlutum sem Anna Lára …
Lampi og skúlptúrar úr hinum ýmsu hlutum sem Anna Lára límdi saman. Ljósmynd/Aðsend

Endurnýting er lífsstíll

Anna Lára segir að hvatinn fyrir endurnýtingunni sé fyrst og fremst umhyggja fyrir jörðinni og lífinu og segist hún vera mjög ánægð með að hafa uppgötvað hvað það er lítið mál að gera endurnýtingu að lífsstíl. Henni finnst þó einnig skemmtilegt að eiga sérstaka hluti með sögu og segir að með þessu móti verði heimilið persónulegra og einstakara.

Anna Lára segir endurnýtingu vera ákveðið lífsviðhorf frekar en áhugamál, þótt henni finnist mjög gaman af því að búa til hluti sem gleðja aðra. „Ég sel ekki hlutina sem ég geri en gef vinum og vandamönnum stundum endurelskaðar gjafir. Þegar ég kokka eitthvað skemmtilegt upp fæ ég stundum dellu fyrir einhverju, eins og til dæmis að búa til lampa og kertastjaka úr gleri og keramiki. Þá bý ég til miklu meira en ég get notað sjálf og verð að koma hlutunum á góðan stað,“ segir Anna Lára.

„Margir halda að þar sem ég hef einsett mér að endurnýta sanki ég að mér úr sér gengnum hlutum sem einhver annar var búinn að afskrifa. Fólk verður svo steinhissa þegar það sér hvað hlutirnir njóta sín vel eftir yfirhalningu og smá ást og umhyggju,“ segir Anna Lára. Bætir hún því við að mikilvægast sé að virkja ímyndunaraflið og geta séð fyrir hvernig hægt er að búa til eitthvað nýtt úr gömlu, því gæðahluti megi alltaf glæða nýju lífi, jafnvel þótt þeir líti út fyrir að vera máðir og þreyttir.

Ýmsir gler- og keramikhlutir öðlast nýtt líf hjá Önnu Láru.
Ýmsir gler- og keramikhlutir öðlast nýtt líf hjá Önnu Láru. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál