Pistlar:

16. janúar 2021 kl. 14:34

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Tekist á við brekkuóttann á Ísafirði

Við Brynjar skelltum okkur á 4ra daga skíðagöngunámskeið á Ísafirði fyrstu vikuna í janúar. Við áttum reyndar bókað í febrúar í fyrra en komust aldrei á námskeiðið þar sem það var ófært á Ísafjörð með flugi. Vala og Daníel sem reka Hótel Ísafjörð og eru með námskeiðin voru ekkert að ergja sig á því og við fengum inneignarnótu fyrir öðru námskeiði. Það finnst mér mjög góð þjónusta. Ég var reyndar ekkert svakalega hress með að komast ekki á námskeiðið. Mér fannst lykilatriði að ná námskeiði á Ísafirði til að eiga möguleika á að bæta mig í Fossavatnsgöngunni 2020. Svo bregðast nú krosstré sem önnur tré og Fossavatnið féll niður og allt í einu átti ég inneign í skíðagöngunámskeið 2021 sem myndi nýtast mjög vel fyrir Fossavatnið 2021. Svona getur kona verið heppin þegar upp er staðið.

Ég steig í fyrsta skipti á gönguskíði 6. desember 2018 og var stútfull af ranghugmyndum út á hvað skíðaganga gekk. Ég hélt að þetta væri þægilegt stroll á jafnsléttu. Þetta væri svona 50 km kraftganga á skíðum. Í staðinn komst ég að því „the hard way“ að þetta er kapphlaup á skíðum upp og niður mis erfiðar brekkur. Ég þurfti að anda hressilega í bréfpoka við þessa uppgvötun og ef ég hefði ekki verið búin að deila þessu plani mínu að fara í Landvættinn út um allar trissur þá hefði ég líklega pakkað saman á fyrsta degi og gefið skíðin mín.

Það sem drepur þig ekki styrkir þig

Þessi ofnotaði frasi er samt svo fáránlega réttur. Með því að vita ekki almennilega hvað ég var að fara út í neyddist ég til að takast á við aðstæður sem ég hefði aldrei gert ef ég hefði vitað betur. Það fyrsta sem ég sá þegar ég var búin að setja á mig gönguskíðin á Ísafirði var brekkan ógurlega sem hræddi úr mér líftóruna síðast þegar ég kom.

Ég ákvað að rifja upp hvernig mér leið og las bloggið sem ég skrifaði um þessa lífsreynslu:

„Við vor­um lát­in labba upp brekku, mér fannst hún óþægi­lega há og svo þurft­um við að skíða niður hana aft­ur.  Mér leið eins og ég hefði verið sett upp á Esju, þetta var fár­an­lega há brekka á svona byrj­enda­nám­skeiði en eft­ir á að hyggja var hún meira eins og Himmel­bjer­get. Ég fór ekki fal­lega niður þessa brekku, rúllaði meira niður eft­ir að hafa dottið nokkr­um sinn­um. Svo vor­um við sett í stærri hring með miklu stærri brekk­um og meira að segja einni beygju.“

Ég gat ekki annað en hlegið þegar ég sá þessa hræðilegu brekku. Þetta er ekki einu sinni brekka. Þetta er eiginlega meira eins og aflíðandi slakki með pínuponuslítilli hækkun. Veit ekki einu sinni hvort að þessi hækkun sé mælanleg á Strava. Þessi ofurlangi hringur reyndist vera ca 1 km og þessi miklu stærri brekka með beygju var líka mjög hófleg. Á þeim tíma sem ég sá þær fyrst fannst mér þær vera óvinnandi vegur og ég varð mjög stressuð þegar ég heyrði að brekkurnar í Bláfjöllum væru miklu stærri og miklu brattari. Innst inni var ég pínu sannfærð um að ég myndi aldrei ná tökum á gönguskíðum, hvað þá að geta klárað Fossavatnið. Mig langaði hins vegar miklu meira að klára Fossavatnið en að láta þessa innri rödd vinna þannig að ég gerði það eina sem var í stöðunni. Ég fór aftur og aftur og aftur á gönguskíði og í hvert skipti varð ég aðeins betri. Ég fór á fleiri námskeið og smátt og smátt leið mér betur í brekkum.

Hérna má lesa allt um hvernig gekk að byrja á göngu­skíðum og Fossa­vatnið 2019

Helvítis gjáin

Allir sem hafa lesið Ronju ræningjadóttur kannast við Helvítis gjána sem fáir þora að stökkva yfir. Mín helvítis gjá reyndist vera Bankastjórabeygjan. Ég kynntist henni á fyrra námskeiðinu mínu á Ísafirði, eða sko næstum því. Rifjum aðeins upp kynnin af henni.

„Næsta dag vor­um við sett í stærri hring og stærri brekk­ur og þá kom sér vel að hafa fleiri en einn kenn­ara.  Níu nem­end­ur fengu einn kenn­ara og svo fékk ég minn einka­kenn­ara, hvers vegna var það? Jú, loft­hræðslan tók völd­in, ég fraus í brekk­unni og þurfti eig­in­lega að skríða niður hana og fór svo bara ann­an hring en hinir.“

Þetta var hin umrædda Bankastjórabeygja. Flestar skíðagöngubeygjurnar bera ákveðið nafn til heiðurs þeim sem á flottasta fallið í beygjunni og yfirleitt fengið gott beinbrot í leiðinni. Allar beygjunar nema Alsgaardbeygjan sem heitir í höfuðið á Thomas Alsgaard sem fór svo hratt í gegnum beygjuna að elstu menn muna ekki annað eins. Ég bíð „spennt“ eftir Fasteignasalabeygjunni.

Ég vissi alveg að ég þyrfti að fara í Bankastjórabeygjuna á þessu námskeiði. Hún er hluti af hring sem er alltaf farinn. Ég var samt ekkert alveg viss um hvernig það myndi ganga. Myndi ég horfast í augun á óttanum og sigra hana eða myndi hún sigra mig aftur?

20210108_164549Á öðrum degi á námskeiðinu var skítaveður seinni partinn. Það var ekki svo kalt en það var snjókoma og mikill vindur. Eftir svolítinn tíma sagði Heimir skíðakennari. Þið eruð svo frábær hópur. Ef þið treystið ykkur til þá getum við farið hærra og farið niður Bankastjórabeygjuna. Bankastjórabeygjuna, helv. bankastjórabeygjuna. Ég er ekkert viss um að ég sé komin á þann stað í lífinu að þora niður Bankastjórabeygjuna. Ég man ennþá þennan óstjórnlega ótta sem greip mig síðast þegar ég fór í hana. Þessi tilfinning að hafa ekki stjórn á neinu og vera í raun skíthrædd um líf sitt og limi. Ég leit á Brynjar og spurði mjög slök. Langar þig að fara lengra? Hann hélt það nú. Hann var alveg í stuði til að fara lengra. Ég ákvað því að girða mig í brók og fara með hópnum. Það fór nú samt alveg um mig þessi hugsun að það væri ansi stutt í skíðaskálann og lítið mál að fara þangað ein og bíða eftir hópnum. Mér fannst það samt of mikil uppgjöf. Ég meina, ég er búin að ganga Fossavatnið. Við fórum því áfram og komum loksins að brekkunni þar sem Bankastjórabeygjan er. Sem ég stóð þarna uppi fannst mér hún líta furðulega sakleysislega út. Það var að vísu ekkert spor og þetta var æfing í plóg en samt, mér fannst hún virka mjög viðráðanleg. Ég lét því slag standa og skellti mér í plóg. Kom niður standandi og þegar ég hitti aftur á Heimi spurði ég hann hvort að brekkan væri virkilega búin. Jú, komin niður. Já há, helvítis gjáin var þá ekki meira mál en svo að ég stóð hana niður og fannst hún viðráðanleg.

Hvað kennir þetta okkur? Til að ná árangri er víst best að æfa sig aftur og aftur og aftur og allt í einu getur þú það sem þú hélst að væri ómöguleiki.

Hin heilaga snjókúla

Við vorum samt á báðum áttum með að fara á þetta námskeið. Við höfum passað okkur vel í Covid, farið eftir fyrirmælum og það virkaði mögulega óskynsamlegt að fara á gönguskíðanámskeið á Ísafirði. Vala sendi nokkra upplýsingapósta sem róuðu okkur og sýndu okkur að það væri farið eftir öllum sóttvörnum og gott betur. Þrátt fyrir að það væru ca 40 manns bókaðir á námskeiðið þá var hópnum skipt upp í 10 manna snjókúlur sem sköruðust hvergi. Við vorum öll með okkar einkakennara. Matsalnum var skipt upp og snjókúlurnar fengu úthlutaðan tíma í matsal, rútu og kennslu þannig að hver kúla blandaðist aldrei við aðra kúlu. Ég er ekki einu sinni viss um að ég gæti þekkt mína kúlu á förnum vegi þar sem við vorum annað hvort varin með gleraugum og buffum á skíðum eða með grímum í rútunnni og matsalnum. Þannig að ég get ekki annað en mælt heilshugar með því starfi sem er unnið á Ísafirði og hvernig þau stóðu að öllu. Kennarinn okkar Heimir var stútfullur af fróðleik og fljótur að lesa hvern nemanda og leiðbeina hvernig við gætum bætt okkur. Það sem ég tek með mér heim eftir þetta námskeið er að ég þarf að bæta mig í að ganga upp brekkur og ýtingar. Ekki misskilja, ég þarf að bæta alla þætti. Þetta eru bara þeir tveir þættir sem ég þarf að bæta mest. Ég á til að ofhugsa ef ég reyni að laga allt í einu þannig að ég set fókusinn á þetta á næstunni.

Hvað á að taka með sér á skíðagöngunámskeið?

Síðast þegar ég fór þá sótti ég í viskubrunn Hildu vinkonu sem hafði á allskonar námskeið sem og keppnisferðir. Hún hafði þetta stutt og laggott. Taktu bara nóg af útivistarfötum með þér. Fínt að hafa til skiptana þegar við svitnum. Ég skildi reyndar ekkert hvað hún talaði um þegar hún sagði, svitna. Ég sagði á móti, ég svitna aldrei. 2 árum seinna er ég komin í mun betra form og æfi af meiri ákefð og geri eins og allir aðrir, ég svitna helling. Í desember 2018 dugði lítill bakpoki fyrir öll mín útivistarföt. Ég átti ekki einu sinni til skiptanna. Í janúar 2020 var ég búin að bæta úr því og ákvað því að taka bara nógu mikið með mér. Ég pakkaði í stóra tösku og tók allt með sem mér datt í hug að ég gæti notað. Eftir á hyggja notaði ég svona 30% af því sem ég pakkaði niður. Þannig að mögulega þarf ég eitthvað að endurhugsa að taka ALLT með mér.

Hvað er framundan?

Það eina sem ég var virkilega ósátt við á þessu námskeiði er að Brynjar bætti sig miklu meira en ég og er í raun orðinn betri en ég á gönguskíðum. Hann er fljótari að fara upp brekkur en ég er miklu betri í plóg.

Hvað gerir kona þá? Jú, hún skráir sig á annað námskeið á Ísafirði með vinkonum og „gleymir“ að láta kærastann vita.

Næsta mál á dagskrá. Mæta eins oft og ég get í Bláfjöll og vonandi Heiðmörk líka. Æfingin skapar meistarann og mér finnst stórkostlegt að geta örbætt mig aftur og aftur og aftur og allt í einu geta hluti sem ég hélt að ég myndi aldrei ná tökum á. Einnig að fara á annað námskeið á Ísafirði og mastera ýtingar og ganga upp brekkur.

 

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

 

mynd
30. desember 2020 kl. 19:30

400 æfingar 2020

Þann 29. desember náði ég einu af markmiði ársins 2020 sem var að klára 400 æfingar á árinu. Þegar ég setti þetta markmið þá fannst mér það ekki mikið mál. Ég var að æfa fyrir Landvættinn, fyrir þríþraut og hálfan járnkarl. Það er í raun og veru ómögulegt að taka mikið færri æfingar þegar þú ert með 4 mismunandi greinar og þær skipta allar jafnmiklu máli. Auk þess tók ég oft brick æfingu á bretti meira
17. desember 2020 kl. 17:55

Hvað er heilsusmánun?

Til að vera alveg hreinskilin þá veit ég ekki alveg hvort að þetta orð sé til í íslenskri tungu eða hvort að ég sé að búa til nýyrði. Eins og með margt annað þá fer ég mínar leiðir. Ég er búin að vera lengi á leiðinni að skrifa þennan pistil en núna get ég ekki lengur setið á mér. Áður en þú hugsar, óttalega er konan pirruð ætli hún sé að byrja á túr þá er svarið alls ekki. Fór í legnám 2016 og meira
25. nóvember 2020 kl. 19:17

Heilsa er ekki heppni!

24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit. Ég var búin að bíða eftir þessum degi með kvíðablandinni eftirvæntingu. Þetta var ekki ósvipað og stressið fyrir lokaprófið. Þú ert búin að læra vel alla önnina en stundum koma samt spurningar sem þú varst ekki búin að undirbúa. Ég var búin að gera allt rétt og samt var þessi undirliggjandi efi. Hvað ef. Hvað ef allt sem ég meira
19. nóvember 2020 kl. 10:49

Úr sófa í 10 km hlaup  

Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum um mína vegferð. Hvernig ég byrjaði og á hverju á að byrja, er það mataræðið eða er það hreyfingin? Ef ég hefði svarað þessu fyrir 3 árum þá hefði ég sagt: “gerðu smá breytingar á mataræðinu og settu forgang á hreyfinguna”. Ég er síðan búin að læra að það er alls ekki rétt. Mataræðið er líklega 90% af árangrinum og rólegar æfingar á lágu álagi skila meira
11. nóvember 2020 kl. 16:35

Nálgast kjörþyngd eftir 25 ár

... Cause for twenty four years I have been living next door to Alice Twenty four years, just waiting for a chance ... Margir kannast við þetta textabrot með Smokie. Eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi hefur þetta textabrot ítrekað komið upp í huga mér. Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir meira
6. október 2020 kl. 13:57

Miðaldra konan skráir sig aftur í Landvættina

Hvað er málið með það? Er ekki nóg að taka þessa Landvætti einu sinni?, jú fyrir flesta. Ég á reyndar vini sem hafa tekið Landvættina 4-5 sinnum en flestir gera þetta einu sinni. Ég skráði mig í Landvættina 2018 og markmiðið var skýrt. Klára Landvættina 2019 og finna mér svo kærasta. Einfalt og þægilegt. Eins og mörg frábær plön þá gekk þetta plan ekki alveg upp og viku fyrir aðra þrautina sem er meira
29. september 2020 kl. 17:20

"Feitt fólk skortir sjálfsstjórn"

“Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig. Þú hefur svo mikinn sjálfsaga í vinnu, ert svo öguð og nærð svo miklum árangri þar”. Þetta sagði vinnufélagi minn við mig í spjalli okkar á milli fyrir mörgum árum. Ég man ekki alveg um hvað við vorum að ræða en þar sem hann er bæði kurteis og dagfarsprúður grunar mig að þetta hafi komið í kjölfarið á einhverju sem ég sagði, svo sem: meira
mynd
7. september 2020 kl. 16:29

Miðaldra konan er tifandi tímasprengja

Þann 12. ágúst 2020 átti ég 3ja ára afmæli. Hvernig getur 51 árs gömul kona átt 3ja ára afmæli? Jú ég átti 3ja ára heilsuafmæli. Þann 12. ágúst 2020 voru liðin akkúrat 3 ár frá því að ég var á fyrirlestri hjá David Goggins og heyrði hann segja þessa einföldu en ótrúlega áhrifaríku setningu: “Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig, myndi hún breyta lífi mínu?” Alveg eins og meira
mynd
21. júlí 2020 kl. 9:56

Hvernig mælum við kvenleika?

  Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálfur, eins og þú ert.   Margir þekkja þennan texta úr laginu Vertu þú sjálfur sem Helgi Björnsson söng með SSSól. Hversu frábært og auðvelt væri lífið ef við gætum haft þetta að leiðarljósi? Að allir mættu vera þeir sjálfir ... eins og þeir eru. Í síðustu viku framdi ég glæp, alveg hræðilegan glæp að mati sumra .... Í meira
mynd
17. júní 2020 kl. 21:27

Óvissuferð á Snæfellsnes

Þegar Covid breytti öllum ferðaplönum fjölskyldunnar á núlleinni þá varð að fara í nýtt plan. Ég tek yfirleitt ekki langt frí á sumrin. Það hentar betur vinnulega séð að taka frekar langar helgar og svo gott frí í janúar og á haustin. Ferðaplönin fyrir 2020 litu vel út fyrir krakkana. Viktor Logi var á leiðinni með MR í 2ja vikna ferð til Suður Afríku þar sem lífræðinemar ætluðu að vera í verklegu meira
mynd
28. maí 2020 kl. 10:50

Lenti í gifsi og fann sér kærasta

 Þegar ég lenti í gifsi síðasta sumar og datt tímabundið út úr Landvættaprógramminu, fannst mér tilvalið að nýta tímann til að finna mér kærasta. Ég sá fram á marga vikna æfingahlé og hefði því nægan tíma í þetta verkefni. Ég var ekkert viss um að það myndi ganga vel. Ég hafði farið á mörg deit eftir að ég skildi og á tímabili lýsti ég því yfir að allir einhleypir karlmenn á Íslandi væru meira
6. maí 2020 kl. 14:23

Að vera sérfræðingur í áhyggjum!

  Það er ótrúlegt að það séu ekki nema rúm 2 ár síðan ég sökk niður í mitt dýpsta hyldýpi og ég sá ekki framúr neinu. 2 ár frá því að ég lá heima í fósturstellingu. 2 ár síðan ég náði ekki andanum. 2 ár síðan ég gat ekki hugsað skýrt.  2 ár frá því að ég sökk neðar en ég hélt að ég gæti sokkið.  2 ár síðan ég tróð marvaða og náði ekki til botns. Hvernig er hægt að missa svona meira
mynd
19. apríl 2020 kl. 17:00

Fossavatnið sem var ekki gengið

Fossavatnið sem var ekki gengið Í gær laugardaginn 18.apríl átti ég að vera á Ísafirði að þreyta 50 km skíðagöngu ásamt hundruðum gönguskíðagarpa. Ég fór í fyrra, náði að klára og var ekki einu sinni síðust. Að vísu var sú ganga „bara“ 42 km vegna snjóleysis en ágætlega krefjandi engu að síður. Ég á ekki langan gönguskíðaferil að baki. Ég steig fyrst á gönguskíði í desember 2018. Það meira
mynd
13. apríl 2020 kl. 9:57

Óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum

                Margir virðast lenda í því að vera með óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum sínum og það virðist engin leið til að losna við það. Ég heyri reglulega, jesús minn Ásdís, þessi facebook live sem þú ert að gera eru svo leiðinleg. Þú ert nú eitthvað alvarlega athyglissjúk. Mikið svakalega eru þessi eignamyndbönd sem þú ert að gera ömurleg. Þetta fólk meira
25. júlí 2019 kl. 12:58

Safnið af mínum bloggum

Hérna er listi yfir öll blogg og umfjallanir sem hafa komið eftir að ég breytti um lífstíl Viðtal á Bylgjunni: 24.05.2017 - https://www.visir.is/k/0fad84ba-f970-4c33-b929-10e63cda9d6c-1556095737611?fbclid=IwAR2nm3KjibbyEvICXVaSf5opc4yfMdqBAswdxTvXvKOCDZTAbL7ODpqfpSc Viðtal á Rás2: 24.07.19 meira
Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira