Pistlar:

10. mars 2021 kl. 8:43

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Ertu með fortíðarþráhyggju gagnvart mat?

Í febrúar s.l. fór ég í mitt þriðja próf hjá Greenfit. Ég var búin að hlakka ansi mikið til því ég kom mjög vel út úr prófi númer_T2A3662 2. Ég vissi að ég myndi ekki koma jafnvel út og síðast og það yrðu miklu minni breytingar því það er jú ekki hægt að bæta sig endalaust en ég hafði ekki miklar áhyggjur af því. Ég er að æfa vel, borða rétt og nefanda eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi rúlla þessu upp.

Ég fór fastandi í blóðprufurnar eins og lög gera ráð fyrir og fór svo í álagsprófið í vikunni á eftir. Aldrei þessu vant fannst Lukku tilvalið að ég myndi kíkja á hana og fara yfir niðurstöðurnar. Mér fannst það pínu skrýtið þar sem þetta var jú þriðja prófið mitt og ég vissi nokkurn veginn hvað ég var að fara út í. Við fórum mjög vel yfir fyrsta prófið enda ekki vanþörf á því. Ég kolféll á því prófi. Ég kom mjög illa út miðað við konu sem var búin að æfa vel og borða nokkuð rétt í þrjú ár en kannski ekkert svo illa út miðað við konu sem var ekki búin að æfa í tuttugu ár þar á undan og borða rangt í áratugi.

Fyrst skoðaði ég álagsprófið. Það var ekki alveg jafngott og ég átti von á. Fitubrennslan hafði lækkað frá því síðast en Siggi benti á að ég væri að taka um 0,7 L meira inn í hverjum andadrætti samanborið við síðast og það er HUGE. Ég hef í alvörunni ekki hugmynd hvað hann á við en mér finnst þetta hljóma mjög jákvætt. Einnig var bæting í respiratory system þar sem ég var að halda dýptinni mun lengur og er skilvirkari í hverjum andadrætti. Það var líka vel gert sagði Siggi. Sum sé neföndun svínvirkar. Ég finn það líka í erfiðum hjólaæfingum hvað ég er miklu fljótari að ná andardrættinum rólegum eftir ógeðisspretti og hvað æfingarnar ganga miklu betur. Ég náði t.d. að syngja með hverju einasta lagi í 80’ hjólatímanum um daginn, sessunauti mínum til mikillar ánægju. Hann þekkti lögin ekki eins vel og ég því hann var víst í leikskóla á þessum tíma.

Blóðrannsóknin ein stór skita

Lukka var líka mjög jákvæð og byrjaði á að taka fram það væru alveg góð teikn þarna, t.d. héldi áfram að draga úr bólgum sem er mjög jákvætt. Svo spurði hún mjög kurteisislega hvort að ég hefði mögulega gert einhverjar breytingar, hef ég haldið sömu línu eða breytt einhverju?

Ég er á sextugsaldri og man ekki neitt. Ég man ekki einu sinni hvað ég borðaði í gær. Eina ástæðan fyrir því að ég get flett því upp er vegna þess að ég tek mynd af matnum og set hann í story og highlights á Instagram.

Nei, veistu ég hef nú ekki breytt miklu, búin að vera mjög stapíl sko. Svo skoðuðum við blóðrannsóknina. Ég fékk nett áfall. Hún kom mjög MJÖG ILLA ÚT. Við erum að tala um ef blóðprufa númer 2 var 10 þá var þessi svona 2.5, það er fall. Meira að segja þegar ég var í Menntaskóla var 3,9 fall. Fyrsta hugsunin sem flaug í gegnum hausinn á mér var: “Það hefur orðið ruglingur á sýnum.” Þetta væri svona tilfelli eins og þegar börnum er ruglað á fæðingardeildinni og þau komast að þessu á fullorðinsaldri. Sýnin mín myndu finnast og allt yrði betra. Svo mundi ég að ég var víst viðstödd álagsprófið, það er til mynd af mér á brettinu og ég sá líka að blóðprufurnar mínar voru merktar með mínum nöfnum. Nei, ekki frekar en mér var ruglað saman við annan nýbura þá var sýnunum mínum ekki víxlað. Hvernig veit ég að mér var ekki ruglað saman við annan nýbura. Jú ég fæddist heima hjá ömmu Hermínu á Dalvík þar sem það var ófært á fæðingardeildina á Akureyri þennan dag og það var ekkert annað barn sem fæddist heima hjá ömmu Hermínu þennan dag.

Ertu mögulega búin að slaka eitthvað á?

Lukka sagði að bæði álagsprófin sem og blóðrannsóknin töluðu sama máli. Það benti allt til þess að ég hefði slakað verulega á. Mér fannst það ólíklegt. Ég er að borða gífurlega hollt í morgunmat, hádegismat og kvöldmat og holl millimál inn á milli. Svo ákvað ég að rifja febrúar aðeins betur upp. Ég átti afmæli þann 4ja. Mér fannst alveg að ég mætti leyfa mér smá. Gildin mín voru svo pottþétt síðast. Það reyndist vera 3ja daga slökun þar sem ég leyfði mér svo að segja allt sem mig langaði í. Svo kom bolludagurinn og svo fórum við Brynjar til Akureyrar á skíði. Ég leyfði mér eitt og annað í Akureyri. Á sunnudeginum fékk ég mér hamborgara og franskar. Ég hafði ekki borðað hamborgara og franskar í 6 mánuði af því að mig langaði ekki í hann. Það var hins vegar allt uppselt á Akureyri og það var laust þarna. Hamborgarinn var mjög góður en það sem ég var búin að steingleyma er að þetta kombó triggerar eitthvað í mér og stuttu seinna kom ég við í sjoppu og fékk mér Hafraklatta og Ríssúkkulaði (steingleymdi því að ég ætla bara að kaupa Fairtrade súkkulaði) og fílakúlupoka. Brynjar ákvað að það væri best að segja ekkert á þessari stundu. Það tók mig þrjá daga að vinda ofan af þessu og 2 dögum seinna fór ég í blóðprufuna. Ég mundi líka að ég var hætt að drekka svart te nema í febrúar var ég farin að drekka 3 bolla af svörtu tei með mjólk á dag. Ég fékk greiningu á mjólkuróþoli fyrir langa löngu en mér fannst bara óspennandi að taka þær allar út það sem eftir væri ævinnar þannig að ég leyfði mér þær í hófi. Svo rifjaðist það upp að ég var farin að stinga uppí mig súkkulaðimola annað slagið. Þannig að þegar ég tók allt saman var niðurstaðan sú að febrúar samanstóð af mjög mörgum litlum hlutum sem eru kannski ekki alveg að virka fyrir mig.

Ég held að hluti af vandamálinu hafi verið að ég ofmetnaðist eftir annað prófið. Ég kom svo rosalega vel út ég hélt að ég væri í betra standi en ég var. Róm var ekki byggð á einum degi og eina leiðin er að taka eitt skref til baka og byrja aftur af krafti.

Fortíðarþráhyggja gagnvart mat

Ég hef alltaf sagt: "ég er svo heppin að eiga ekki fyrri árangur í íþróttum og þurfa ekki að svekkja mig á ná ekki mínum besta árangri aftur." Í staðinn nýt ég ferðalagsins og að bæta úthaldið og styrkinn.
Ég er hins vegar að átta mig smátt og smátt á því að ég hef haft þetta viðhorf gagnvart mat. Þannig að í staðinn fyrir að svekkja mig á að ná ekki lengur fyrri íþróttaafrekum þá hef ég átt það til að svekkja mig á að geta ekki endurtekið fyrri matarafrek nema leggja heilsu mína undir. Það hefur innst inni farið gífurlega í taugarnar á mér að geta ekki borðað það sem ég var vön að borða þegar ég var yngri. Sko, þegar ég var tvítug gat ég borðað allt sem ég vildi og samt verið grönn. Hvers vegna get ég það ekki lengur? Þrátt fyrir alla mína vinnu og breytingar var ég enn föst í þessu fortíðarsambandi við mat. Ég hugsaði ennþá. Ég gat alltaf borðað þetta.... afhverju ekki núna. Jú núna er ég 52 ára með gen sem þola ekki allan mat. Ég áttaði mig á því að það var ekkert annað að gera en að núllstilla viðhorfið og gera breytingar eina ferðina enn og njóta þess að laga mig.

Lukka stakk upp á því að ég myndi prófa Veri sírita til að mæta blóðsykurinn. Einnig ætla ég að skrá hjá mér hvað ég borða (ekki magn og þess háttar) heldur hreinlega hvaða næringu ég innbyrði. Þannig ætla ég að finna mína veikleika og taka þá út einn af öðrum. Ennfremur ætla ég að taka millipróf fyrir blóðsykur og kólesteról til að sjá hvort að ég sé ekki örugglega á rétti leið.

Auðvitað er stundum hundfúlt að þurfa alltaf að vera á tánum en ég var með lélegan lífstíl í áratugi og það verður ekki undið ofan af öllu á nokkrum mánuðum. Þetta er ævilangt verkefni og ég er tilbúin í það. Ég veit líka að heimurinn ferst ekkert þó að ég eigi slæman dag og ég mun halda áfram að leyfa mér eitt og annað. Þetta er lífsstíll, ekki átak.

Ég á vinkonur sem hafa alltaf haldið sér í kjörþyngd. Þær hafa alltaf stundað hreyfingu og þær leyfa sér allt í hófi. Munurinn á mér og þeim er að ég stundaði enga hreyfingu í áratugi og ég leyfði mér allt í ÓHÓFI.
Það er hins vegar miklu auðveldara að detta í fórnarlambsgírinn og væla yfir því að ég megi ekki borða allt sem mig langar í þegar ég vil á meðan Sigga getur það. Málið er að ég veit ekkert um gildin hennar Siggu. Það er mjög hættulegt að bera sig saman við einhvern annan og svekkja sig á því að þú getir ekki eitthvað sem einhver annar getur. Eftir að ég fór að bera mig eingöngu saman við sjálfa mig varð lífið auðveldara og ég varð miklu hamingjusamari.

Einu sinni var diesel miklu ódýrara en bensín og það pirraði mig oft þegar ég fór og tók bensín á minn bíl. Það hvarflaði samt aldrei að mér að setja diesel á bílinn minn þó að ég myndi spara smá pening því ég vissi að það myndi fara illa með bílinn. Samt set ég allskonar ofan í mig sem mín vél þolir ekki afþví að mér finnst ég eiga það skilið.

Hver ber ábyrgð á þessu?

Mín tilhneiging í gegnum tíðina var að reyna að skella skuldinni á einhvern annan en mig. Það er pínu vesen ef þú þarft að viðurkenna fyrir sjálfum þér ef þetta er algjörlega undir þér komið. Hverjum er eiginlega að kenna þetta matarvesen? Hvers vegna get ég ekki borðað allt sem ég vil, alltaf þegar ég vil?  Ég meina, ég myndi alveg fíla í tætlur að geta fengið mér súkkulaðiköku tvisvar á dag og smá konfekt í eftirrétt. Svoleiðs mataræði væri sko draumur í dós. Eins og margir segja: “þú þarft ekki að vinna þér inn fyrir kökunni”. Það er sko hárrétt. Það þarf ekkert að fara út að hlaupa 5 km til að mega borða eina kökusneið. Hins vegar gætu innri gildin mín viljað að ég sleppi kökunni flesta daga og nyti hennar meira hina dagana.

Áður en ég tók fulla ábyrgð á mér og minni heilsu var ég búin að reyna ýmislegt og það eina sem allar þessar tilraunir áttu sameiginlegt var að þær gengu aldrei upp. Ég náði aldrei langtímaárangri og sá árangur sem ég náði var fljótur að fara til baka þegar ég gafst upp. Ég seldi mér að ég væri einfaldlega með svona gen, það skipti ekki máli hvað ég myndi gera, ég væri svo óheppin með gen. Svo væri ég líka með svakalega hæga brennslu. Mín brennsla er einfaldlega miklu hægari en annara þess vegna mun ég ALDREI ná árangri, alveg sama hvað ég geri, svo til hvers að reyna það. 30 kílóum léttari neyðist ég víst til að viðurkenna að þetta var alls ekki rétt hjá mér.

Hver ber ábyrgð á þessum genum eiginlega? Er það einhver formóðir mín sem kannaði ekki hvort að barnsfaðir hennar var með góð gen til undaneldis? Eru þetta kannski ekki genin? Er þetta uppeldið? Er þetta álagið á nútímakonuna? HVER BER ÁBYRGÐINA?

Lengi vel tók ég bara Milli Vanilli á þetta ástand: “Gotta blame it on something. Blame it on the rain that was falling, falling. Blame it on the stars that didn't shine that night. Whatever you do, don't put the blame on you. Blame it on the rain, yeah, yeah.”

Það er árshátíð, það er bolludagur, það er kaffi í vinnunni, það er saumaklúbbur, það eru páskar, það eru jól, ég á afmæli, krakkarnir eiga afmæli, ég er í frí, það er rosalega mikið álag í vinnunni, ég átti frábæran dag í vinnu, ég er búin að fara út að hlaupa. ÉG Á SKILIÐ AÐ TRÍTA MIG.

Dagurinn sem ég áttaði mig á því að ég ein bæri ábyrgð á minni heilsu og enginn annar var dagurinn sem allt breyttist. Það var dagurinn sem ég tók stjórnina í mínar hendur og ég hætti að búa til afsakanir. Ég á lélega daga, ég klikka, planið klikkar en það skiptir engu máli vegna þess að þetta er vegferð út ævina og það getur enginn verið með fullkomið líf alltaf.

Hver er ég?

Ég áttaði mig líka á því að ég var búin að vera með “Ég var einu sinni...” hækju. Ég var einu sinni 95 kíló. Ég gat einu sinni ekki hlaupið milli ljósastaura og í hvert skipti sem ég slakaði á þá gaf ég mér leyfi til þess því að ég var orðinn miklu betri en ég var. Ég er heilbrigðari, ég er í betra formi, ég er léttari. Ég áttaði mig á því að ég þurfti að endurstilla mig. Ég get ekki lengur verið að horfa í baksýnisspegilinn hver ég var. Ég þarf að horfa fram á við, hver ég er.

Ég er 52 ára gömul kona. Ég er í góðu formi og ég hreyfi mig sex daga vikunnar og stundum tvisvar á dag. Ég borða hollt. Ég er heilbrigð. Ég er hamingjusöm. Ég er  í góðu jafnvægi. Ég set framtíðarmig í forgang. Ég er 65 kíló.

Ég er einfaldlega ekki lengur konan sem var einu sinni 95 kíló.

Er þetta ekki gífurlega dýrt?

Mörgum finnst það ansi dýrt að ég ætli að fara í test á 3ja mánaða fresti hjá Greenfit. Kostar ekki skiptið 60.000 kr. Ekki alveg, fyrsta skiptið kostar 59.900 krónur en endurkomuástandsskoðunin kostar 39.900 krónur. Þetta eru fimm skipti sem ég ætla að taka á einu ári. Þú þarft svosum ekki að vera á stærðfræðibraut til að reikna þennan kostnað út. Þegar ég var að taka til í geymslunni í vetur fann ég tóma kassa sem voru með merktir. Á þeim stóð: 75 kíló, 80 kíló og 85 kíló. Það rifjaðist upp fyrir mér að þetta voru öryggiskassarnir mínir. Fötin sem ég ætlaði að passa í. 85 kíló var svona rokkandi kassinn, stundum komst ég í fötin úr honum og stundum ekki. 80 kíló var kassinn sem ég ætlaði að komast í eftir næsta kúr og 75 kíló var kassinn sem ég ætla að passa í þegar allt gengur upp og lífið verður dásamlegt. Ég reiknaði þetta aðeins út. Í hverjum kassa kæmi ég auðveldlega fyrir 30 flíkum. Gefum okkur að hver flík kosti að meðaltali 10.000 krónur, þá kostaði innhald hvers kassa 300.000 kr. Þegar ég missti 10 kíló eftir þrjá mánuði hjá Greenfit fór ég með öll fötin sem ég tímdi ekki að láta í breytingar hjá klæðskera. Það kostaði 117.000 eða næstum því upp á krónu jafnmikið og þrjú endurkomupróf hjá Greenfit. Það er gífurlega dýrt að vera í jojo þyngd. Þú ert stöðugt að kaupa föt og svo pakka þeim niður. Svo þegar þú kemst loksins í sömu þyngd aftur passa fötin ekkert endilega á þig því líkaminn hefur breyst. Hann er öðruvísi mótaður en þegar þú keyptir fötin. Þegar ég byrjaði að grennast þurfti ég að endurnýja alla skóna mína. Hvað meinar þú, skóna, ekki minnkuðu á þér lappirnar? Jú heilan helling, þær styttust sannarlega ekki en þær afþrútnuðu sem þýddi næstum því heil skóstærð sem fæturnir minnkuðu um og allir mínir skór urðu of víðir. Vitið þið hvað skósafn miðaldra konu kostar? Töluvert meira en test hjá Greenfit get ég sagt ykkur.

Þegar ég fékk út úr fyrsta prófinu og sá hversu mikið ég þurfti að laga ákvað ég að ég myndi gefa sjálfri mér bætta heilsu. Ég ákvað að gefa mér 12 mánuði til að fínstilla mína heilsu og mín gildi. Ég ætla að leysa heilsugátuna og í hvert skipti gengur þetta aðeins betur og ég læri meira á hvað ég get og hvað ég má.

Ég veit ekki með þig en ég ætla ekki að horfa í augun á 80 ára gömlu mér og segja: "Fyrirgefðu að ég nennti ekki að setja þig í forgang og hugsa betur um þig. Fyrirgefðu að mér fannst þín heilsa ekki nógu mikilvæg"

Hægt er að fylgjast með vegferð Ásdísar á instagram: asdisoskvals

mynd
18. febrúar 2021 kl. 21:06

Er heilbrigður lífstíll dulbúin megrun?

                      Ég er farin að heyra æ oftar. Heilbrigður lífstíll er megrun í dulargervi! Ef þetta snýst um þyngdartap þá er þetta megrun! Ef það eru boð og bönn þá er þetta megrun! Fyrir mér snýst lífstíll um að taka ákvarðanir um hvernig lífi þú vilt lifa. Ekki bara hvað snertir mataræði og hreyfingu, heldur allt lífið. Ég reyndi að meira
mynd
16. janúar 2021 kl. 14:34

Tekist á við brekkuóttann á Ísafirði

Við Brynjar skelltum okkur á 4ra daga skíðagöngunámskeið á Ísafirði fyrstu vikuna í janúar. Við áttum reyndar bókað í febrúar í fyrra en komust aldrei á námskeiðið þar sem það var ófært á Ísafjörð með flugi. Vala og Daníel sem reka Hótel Ísafjörð og eru með námskeiðin voru ekkert að ergja sig á því og við fengum inneignarnótu fyrir öðru námskeiði. Það finnst mér mjög góð þjónusta. Ég var reyndar meira
mynd
30. desember 2020 kl. 19:30

400 æfingar 2020

Þann 29. desember náði ég einu af markmiði ársins 2020 sem var að klára 400 æfingar á árinu. Þegar ég setti þetta markmið þá fannst mér það ekki mikið mál. Ég var að æfa fyrir Landvættinn, fyrir þríþraut og hálfan járnkarl. Það er í raun og veru ómögulegt að taka mikið færri æfingar þegar þú ert með 4 mismunandi greinar og þær skipta allar jafnmiklu máli. Auk þess tók ég oft brick æfingu á bretti meira
17. desember 2020 kl. 17:55

Hvað er heilsusmánun?

Til að vera alveg hreinskilin þá veit ég ekki alveg hvort að þetta orð sé til í íslenskri tungu eða hvort að ég sé að búa til nýyrði. Eins og með margt annað þá fer ég mínar leiðir. Ég er búin að vera lengi á leiðinni að skrifa þennan pistil en núna get ég ekki lengur setið á mér. Áður en þú hugsar, óttalega er konan pirruð ætli hún sé að byrja á túr þá er svarið alls ekki. Fór í legnám 2016 og meira
25. nóvember 2020 kl. 19:17

Heilsa er ekki heppni!

24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit. Ég var búin að bíða eftir þessum degi með kvíðablandinni eftirvæntingu. Þetta var ekki ósvipað og stressið fyrir lokaprófið. Þú ert búin að læra vel alla önnina en stundum koma samt spurningar sem þú varst ekki búin að undirbúa. Ég var búin að gera allt rétt og samt var þessi undirliggjandi efi. Hvað ef. Hvað ef allt sem ég meira
19. nóvember 2020 kl. 10:49

Úr sófa í 10 km hlaup  

Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum um mína vegferð. Hvernig ég byrjaði og á hverju á að byrja, er það mataræðið eða er það hreyfingin? Ef ég hefði svarað þessu fyrir 3 árum þá hefði ég sagt: “gerðu smá breytingar á mataræðinu og settu forgang á hreyfinguna”. Ég er síðan búin að læra að það er alls ekki rétt. Mataræðið er líklega 90% af árangrinum og rólegar æfingar á lágu álagi skila meira
11. nóvember 2020 kl. 16:35

Nálgast kjörþyngd eftir 25 ár

... Cause for twenty four years I have been living next door to Alice Twenty four years, just waiting for a chance ... Margir kannast við þetta textabrot með Smokie. Eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi hefur þetta textabrot ítrekað komið upp í huga mér. Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir meira
6. október 2020 kl. 13:57

Miðaldra konan skráir sig aftur í Landvættina

Hvað er málið með það? Er ekki nóg að taka þessa Landvætti einu sinni?, jú fyrir flesta. Ég á reyndar vini sem hafa tekið Landvættina 4-5 sinnum en flestir gera þetta einu sinni. Ég skráði mig í Landvættina 2018 og markmiðið var skýrt. Klára Landvættina 2019 og finna mér svo kærasta. Einfalt og þægilegt. Eins og mörg frábær plön þá gekk þetta plan ekki alveg upp og viku fyrir aðra þrautina sem er meira
29. september 2020 kl. 17:20

"Feitt fólk skortir sjálfsstjórn"

“Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig. Þú hefur svo mikinn sjálfsaga í vinnu, ert svo öguð og nærð svo miklum árangri þar”. Þetta sagði vinnufélagi minn við mig í spjalli okkar á milli fyrir mörgum árum. Ég man ekki alveg um hvað við vorum að ræða en þar sem hann er bæði kurteis og dagfarsprúður grunar mig að þetta hafi komið í kjölfarið á einhverju sem ég sagði, svo sem: meira
mynd
7. september 2020 kl. 16:29

Miðaldra konan er tifandi tímasprengja

Þann 12. ágúst 2020 átti ég 3ja ára afmæli. Hvernig getur 51 árs gömul kona átt 3ja ára afmæli? Jú ég átti 3ja ára heilsuafmæli. Þann 12. ágúst 2020 voru liðin akkúrat 3 ár frá því að ég var á fyrirlestri hjá David Goggins og heyrði hann segja þessa einföldu en ótrúlega áhrifaríku setningu: “Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig, myndi hún breyta lífi mínu?” Alveg eins og meira
mynd
21. júlí 2020 kl. 9:56

Hvernig mælum við kvenleika?

  Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálfur, eins og þú ert.   Margir þekkja þennan texta úr laginu Vertu þú sjálfur sem Helgi Björnsson söng með SSSól. Hversu frábært og auðvelt væri lífið ef við gætum haft þetta að leiðarljósi? Að allir mættu vera þeir sjálfir ... eins og þeir eru. Í síðustu viku framdi ég glæp, alveg hræðilegan glæp að mati sumra .... Í meira
mynd
17. júní 2020 kl. 21:27

Óvissuferð á Snæfellsnes

Þegar Covid breytti öllum ferðaplönum fjölskyldunnar á núlleinni þá varð að fara í nýtt plan. Ég tek yfirleitt ekki langt frí á sumrin. Það hentar betur vinnulega séð að taka frekar langar helgar og svo gott frí í janúar og á haustin. Ferðaplönin fyrir 2020 litu vel út fyrir krakkana. Viktor Logi var á leiðinni með MR í 2ja vikna ferð til Suður Afríku þar sem lífræðinemar ætluðu að vera í verklegu meira
mynd
28. maí 2020 kl. 10:50

Lenti í gifsi og fann sér kærasta

 Þegar ég lenti í gifsi síðasta sumar og datt tímabundið út úr Landvættaprógramminu, fannst mér tilvalið að nýta tímann til að finna mér kærasta. Ég sá fram á marga vikna æfingahlé og hefði því nægan tíma í þetta verkefni. Ég var ekkert viss um að það myndi ganga vel. Ég hafði farið á mörg deit eftir að ég skildi og á tímabili lýsti ég því yfir að allir einhleypir karlmenn á Íslandi væru meira
6. maí 2020 kl. 14:23

Að vera sérfræðingur í áhyggjum!

  Það er ótrúlegt að það séu ekki nema rúm 2 ár síðan ég sökk niður í mitt dýpsta hyldýpi og ég sá ekki framúr neinu. 2 ár frá því að ég lá heima í fósturstellingu. 2 ár síðan ég náði ekki andanum. 2 ár síðan ég gat ekki hugsað skýrt.  2 ár frá því að ég sökk neðar en ég hélt að ég gæti sokkið.  2 ár síðan ég tróð marvaða og náði ekki til botns. Hvernig er hægt að missa svona meira
mynd
19. apríl 2020 kl. 17:00

Fossavatnið sem var ekki gengið

Fossavatnið sem var ekki gengið Í gær laugardaginn 18.apríl átti ég að vera á Ísafirði að þreyta 50 km skíðagöngu ásamt hundruðum gönguskíðagarpa. Ég fór í fyrra, náði að klára og var ekki einu sinni síðust. Að vísu var sú ganga „bara“ 42 km vegna snjóleysis en ágætlega krefjandi engu að síður. Ég á ekki langan gönguskíðaferil að baki. Ég steig fyrst á gönguskíði í desember 2018. Það meira
mynd
13. apríl 2020 kl. 9:57

Óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum

                Margir virðast lenda í því að vera með óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum sínum og það virðist engin leið til að losna við það. Ég heyri reglulega, jesús minn Ásdís, þessi facebook live sem þú ert að gera eru svo leiðinleg. Þú ert nú eitthvað alvarlega athyglissjúk. Mikið svakalega eru þessi eignamyndbönd sem þú ert að gera ömurleg. Þetta fólk meira
25. júlí 2019 kl. 12:58

Safnið af mínum bloggum

Hérna er listi yfir öll blogg og umfjallanir sem hafa komið eftir að ég breytti um lífstíl Viðtal á Bylgjunni: 24.05.2017 - https://www.visir.is/k/0fad84ba-f970-4c33-b929-10e63cda9d6c-1556095737611?fbclid=IwAR2nm3KjibbyEvICXVaSf5opc4yfMdqBAswdxTvXvKOCDZTAbL7ODpqfpSc Viðtal á Rás2: 24.07.19 meira
Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira