Pistlar:

15. desember 2022 kl. 8:58

Ásdís Ósk Valsdóttir (asdisosk.blog.is)

Dreymdi um að vera dánartilkynning

„Mamma getur þú komið og horft á mig keppa á Símamótinu í staðinn fyrir að vinna.“ Sigrún Tinna 6 ára

„Mamma, mér finnst svo þreytandi þegar þú ert í símanum þegar ég er að lesa fyrir þig á kvöldin“  Sigrún Tinna 7 ára

„Mamma, það mættu allir foreldrarnir á fimleikaæfinguna nema þú …“ Sigrún Tinna 8 ára

Ég þjáðist af mömmuviskubiti (samviskubiti mömmu sem er vinnualki) í mörg ár. Ég setti alltaf vinnuna í fyrsta sæti. Ég vinn sjálfstætt og mér fannst ótrúlega erfitt að segja nei við verkefnum. Mér fannst erfitt að setja mörk og ég hef ekki tölu á því hversu oft ég var ekki viðstödd einhvern atburð þó að ég væri á staðnum þar sem ég var með hugann við vinnuna eða jafnvel að sinna vinnunni.

Uppskrift af sjúklegri streitu

Ég var komin með öll einkenni sjúklegrar streitu þegar ég fór á fyrirlestur hjá David Goggins og hann mælti þessi fleygu orð: „Ef ég læsi ævisögu þína, myndi hún hafa áhrif á mig?“ Ég renndi stuttlega yfir síðustu ár og áratugi. Það var nú ekkert voðalega mikið sem myndi heilla manninn. Ég og vinnan vorum eitt. Ég var með mjög óheilbrigðan lífstíl. Ég borðaði á hlaupum í næstu sjoppu og eina æfingin sem ég fékk var að hlaupa á milli staða ef ég var að verða of sein á fund. Dæmigerður vinnudagur voru 10-12 tímar og svo þurfti að nota kvöldin til að svara tölvupóstum. Þær voru ófáar helgarnar þar sem ég vann eitthvað báða dagana og fór svo örþreytt inn í vinnuvikuna. Ég var þreytt, ég var orkulaus og það var ansi stuttur í mér þráðurinn og oftar en ekki kom ég heim úrill og pirruð og hafði enga þolinmæði í neitt meira. Vildi bara henda í mig mat og fleygja mér í sófann.

Þessi orð David Goggins fengu mig til að hugsa fram í tímann. Hvar verð ég eftir 10 ár ef ég held svona áfram. Sú framtíðarsýn var ekki spennandi og ég gerði mér grein fyrir því að ég yrði að gera gífurlegar breytingar á mínu lífi, bæði á einkalífi sem og vinnu til að ég yrði ekki enn ein minningargreinin um duglega fólkið sem dó á besta aldri. Ég hugsaði meira að segja: Hvað ætli börnin mín myndu setja í minningargreinina. Mig grunaði að það yrði eitthvað á þessa leið. „Mamma var fínasta kona, höldum við. Við þekktum hana kannski ekkert svakalega mikið og hún var oft pirruð en hún var rosalega, rosalega dugleg að vinna.“

Draumur að vera Dánartilkynning

Ég segi oft að David Goggins hafi bjargað lífi mínu. Áður en ég fór á fyrirlesturinn hjá honum hafði ég ekki hugmynd um á hversu slæmum stað ég var. Þegar þú ert komin með stjórnlausa streitu þá hugsar þú ekki alltaf rökrétt. Ég man að það voru ófá skiptin sem ég las Morgunblaðið og sá dánartilkynningar og það fyrsta sem ég hugsaði: „Mikið svakalega er þetta friðsæll staður til að vera á. Það væri kannski bara ágætt að vera Dánartilkynning. Það er ekkert áreiti þarna, bara eilífur friður og ró“. Þegur þú ert komin á botninn þá færðu líka allskonar ranghugmyndir í kollinn eins og að það yrði líklega bara léttir fyrir aðra líka ef þú yrðir dánartilkynning. Það tók mig mörg ár að vinda ofan af mér og breytingar sem ég byrjaði 2017 eru ennþá í ferli. Ég náði þessu með því að setja mig í fyrsta sæti og hætta að hafa áhyggjur af því sem öðrum finnst því okkar á milli þá er í raun langflestum skítsama um þig og það besta sem þú getur gert fyrir þig er að hætta að hafa áhyggjur af skoðunum annara.

Stöðugt síreiti

Eftir að ég tók þá ákvörðun að setja mig í fyrsta sæti fylgdu því allskonar vaxtavextir eins og mér varð eiginlega bara alveg skítsama hvað öðrum finnst um mig (svona að mestu). Ég vinn aldrei á kvöldin og mjög sjaldan um helgar. Ég vakna klukkan 05:00 á virkum dögum til að æfa og fer snemma að stofa. Þegar ég bregð mér af bæ á kvöldin þá nenni yfirleitt ekki að ræða vinnumál og bið fólk að virða það. Það fer misvel í fólk. Ég hef aðeins verið að hugsa þetta. Hvers vegna á ég að þurfa að segja að ég nenni ekki að ræða vinnuna á kvöldin? Hvers vegna er ekki eðlilegt að spyrja hvort það sé í lagi að spyrja vinnutengdrar spurningar utan vinnutíma? Minn heitasti draumur núna er að þetta sé næsta bylting. Það verði skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og það verði jafnfáránlegt að ætlast til þess að fólk svari vinnusímtali eða email á kvöldin eins og að reykja í bíó. Fyrir 20 árum þótti ekki taka því að kvarta yfir fulla kallinum í vinnustaðapartýinu sem var að káfa á öllum konum. „Æi, vertu ekki að þessu tuði, hann Jói er nú alltaf pínu fjölþreyfinn þegar hann er í glasi. Hann meinar nú ekkert með þessu.“ Í dag er fulli kallinn látinn víkja. Hver er með í næstu byltingu um að setja skýr mörk á milli vinnu og einkalífs og að það sé ekki eðlilegt að ætlast til þess að fólk sé aðgengilegt í vinnu allan sólarhringinn allt árið um kring?

Endalaust aðgengi í nútímalífinu

Ég fékk minn fyrsta gsm síma í 30 ára afmælisgjöf. Þetta var Nokia 5110 og með honum fylgdi einn símaleikur, sá magnaði leikur Snake. Hann var frábær því þú nenntir aldrei að spila hann lengi. Í dag erum við með síma sem eru ofurtölvur. Þeir eru stútfullir af allskonar öppum og leikjum og við gætum eytt ævinni með þeim og alltaf fundið eitthvað nýtt til að gera. Nýtt áreiti er bara eitt download away. Nokia 5110 var neyðarsími. Hann var notaður ef það þurfti að ná í mig í neyðartilfellum. Það var bæði mjög dýrt að hringja í hann sem og úr honum og svo fannst mér þetta vera mikil árás á einkalíf fólks að hringja í gsm símann þeirra. Ég notaði alltaf heimasímann og hringdi bara í gsm ef ég þurfti lífsnauðsynlega að ná í fólk. Núna á ég ekki heimasíma. Ég gerði tilraun um daginn. Ég slökkti á tilkynningum á öllum öppum í símanum og vá þvílíkur munur. Það næsta sem ég gerði var að slökkva á Messenger  yfir eina helgi og það gekk svona glimrandi vel. Engin áföll þannig að ég mun gera þetta reglulega héðan í frá.

Á mömmuviskubitið rétt á sér?

Þegar ég lít til baka þá er ekki hægt að gera allt. Það er ekki hægt að mæta á alla viðburði, vera alltaf til staðar og byggja upp fyrirtæki. Í dag hef ég náð að beisla vinnuna og finna jafnvægi milli einkalífs og vinnu og ég er til staðar fyrir krakkana eins og þarf.

Það sem ég er að vinna í núna er að í hvert skipti sem Facebook memories birtir minningu sem kveikir á Mömmuviskubitinu er að muna að það er ekki hægt að breyta fortíðinni. Þú getur bara lagað núið. Ég held að við séum of gjörn á að einblína á mistökin sem við gerðum í fortíðinni og bíða eftir framtíðinni í staðinn fyrir að lifa í núinu. Ég veit að ég var amk þar og það hefur verið mikil vinna að breyta því.  Ég þarf stöðugt að stoppa og minna mig á að dagurinn í dag er það eina sem er í hendi.

Mér varð hugsað til dánartilkynningatímabilsins um daginn þegar ég vaknaði og hugsaði, lífið er eiginlega 12 af 10. Það gengur allt frábærlega. Auðvitað koma dagar þegar ég er ekki 12, kannski meira 2 en það er eðlilegt. Lífið er ekki Lego Movie þar sem allt er Æðislegt (Everything is awesome). Það er hins vegar ekki eðlilegt að vera í stjórnlausri streitu og vera búin að missa stjórn á aðstæðum.

Ein í regnskógi um jólin

Eftir að ég fór að vinda ofan af mér þá hef ég ekki alveg nennt aðventunni. Mér finnst þetta alltof mikið aukaálag og  stress. Í  sumar tók ég því þá ákvörðun að sleppa bara jólunum og gera bara það sem ég nennti á aðventunni (lesist langar að gera). Ég pantaði mér 2ja vikna jógaferð til Costa Rica einhvers staðar í miðjum regnskógi. Ég fer alein og mér finnst það pínu, nei mjög stressandi. Ég kann ekki jóga en vona að þetta kveiki á mínum innri jóga. Ég veit ekkert hvað er býður mín og samkvæmt veðurspánni virðist eiga að rigna allan tímann. Ég keypti mér því helling af garni og prjónum og ætla að njóta þess að kjarna mig í 2 vikur og vera í núvitund. Ég hef nokkrum sinnum hætt við ferðina í hausnum á mér og einu sinni sagði ég við Viktor Loga son minn að ég væri hætt við að fara. Væri bara of stressuð fyrir þessa ferð. Hann var fljótur að sannfæra mig um að ég hefði mjög gott af því að fara í þessa ferð, sem er hárrétt, og núna hlakka ég gífurlega til. Ég velti því samt fyrir mér hvort að hann hafi verið svona sannfærandi þar sem hann fórnaði sér til að sjá um húsið og bílinn á meðan ég væri í burtu.

Mitt mottó fyrir 2023 er að gera bara það sem mig langar til að gera. Ekki gera neitt af skyldurækni eða kvöð. Halda áfram að minnka áreiti og lifa í núinu. Hver með memm í #Nessessu

Hægt er að fylgjast með Ásdísi Ósk á instagram  

4. nóvember 2022 kl. 7:19

Miðaldra konan elskar Lissabon

Í október fór ég til Portugal á fyrstu ráðstefnuna mína síðan fyrir Covid. Þetta er fasteignaráðstefna á vegum „Leading Real Estate Companies of the World“ sem er stærsta keðja sjálfstætt starfandi fasteignasala um alla heim með meðlimi í tæplega 80 löndum. Húsaskjól er eina íslenska fasteignasalan í keðjunni þar sem við erum á svo litlum. Ég var að fara út sem fyrirlesari til að ræða meira
12. október 2022 kl. 20:12

Metnaðarlausar saumaklúbbskerlingar

Í október 2022 gerðist sá fáheyrði atburður að hópur karlmanna í alveg eins fötum, bara mismunandi á litinn, hittist til að henda á milli sín bolta. Það sem var enn merkilegra við þennan atburð var að þeir skiptu sér í 2 lið og annað liðið vann og hitt tapaði. Eitthvað sem virðist aldrei hafa gerst í alheimssögunni því að viðbrögð þjálfara liðsins sem tapaði urðu ansi ofsafengin. Eina skýringin meira
22. ágúst 2022 kl. 21:27

Eru kuntur neikvæðar?

Einu sinni var ég gífurlega mikill lestrarhestur. Á mínum yngri árum vildi ég bara bækur í jólagjöf og yfirleitt var ég búin að lesa þær allar fyrir áramót. Með hækkandi aldri og dvínandi hæfileika til að múltitaska datt lesturinn uppfyrir hjá mér og ég var góð ef ég náði að lesa 4 bækur á ári. Þær tengdust yfirleitt sólarlandaferðum þar sem það er nú fátt betra en að flatmaga við sundlaugina og meira
24. júní 2022 kl. 9:12

Æskileg morgunrútína samkvæmt internetinu

Ég las pistil frá Röggu Nagla um daginn og varð steinhissa hvað hún þekkir mig vel. Ég meina, við höfum aldrei hist og ég held að hún viti ekki einu sinni hver ég er. En vá hvað hún þekkir mig vel. Ég ákvað að taka þessu sem hrósi og las pistilinn spjaldanna á milli. Mér leið samt pínu eins og það væri verið að njósna um mig, þvílík líkindi sem voru með pistlinum og mínu lífi. Þannig að ég ákvað meira
2. júní 2022 kl. 19:50

Læknar líkamann með mataræði

Ég fór í mælingu hjá Greenfit um daginn. Svosum ekkert merkilegt, ég fer í mælingu hjá þeim á ca 6 mánaða fresti og þér að segja þá er líklega enginn viðskiptavinur hjá Greenfit sem hefur farið í jafnmargar blóðprufur og ég. Þarna sé ég að einhverjum svelgist á kaffinu. Æi þetta er svo dæmigerð Ásdís, þú ert svo manísk og ferð svo yfir strikið. Það þarf enginn að fara í mælingar hjá Greenfit á 6 meira
29. mars 2022 kl. 17:16

Orkuleysi eftir Covid

Ég fékk „loksins“ Covid í lok janúar. Greindist jákvæð þann 28.janúar. Veikindin urðu ekkert mál. Ég fékk hósta í einn dag eða svo og var slæm í hálsinum en engin önnur einkenni. Ég var ekkert smá fegin að sleppa svona vel frá þessu. Hálssærindin voru svipuð og ég fæ þegar ég borða mikinn sykur og vakna með hálsbólgu daginn eftir enda fór ég örugglega í 10 neikvæð Covid test vegna meira
mynd
23. nóvember 2021 kl. 11:03

Er hægt að tækla breytingaskeiðið?

Ég var á báðum áttum hvort að ég ætti að skella í þennan pistil. Kannski bíða í nokkra daga á meðan mesta hormónasveiflan og úrillan var að ganga yfir en svo hugsaði ég FOKKIT. Hann fangar líklega aldrei betur augnablikið og líðanina en akkúrat núna. Ég viðurkenni að ég ritskoðaði hann samt alveg hressilega. Ef ég hefði ekki gert þá þá hefði hann líklega samanstaðið af meira
24. júní 2021 kl. 17:18

Miðaldra á fjallahjóli

Þann 12.  júní 2021 tók ég þátt í mínu fyrsta hjólamóti. Þetta var ekki hvaða mót sem er, nei þetta var 60 km fjallahjólamót eða svo kallað Bláalóns mótið. Keppnin hefst í Hafnarfirði og lýkur á bílaplaninu hjá Bláa Lóninu þar sem þátttakendur fá að fara í lónið til að endurhlaða batterýin. Eru öll hjól eins? Hvers vegna skildi nú miðaldra kona skella sér í Spandex og fara í 60 km meira
mynd
10. mars 2021 kl. 8:43

Ertu með fortíðarþráhyggju gagnvart mat?

Í febrúar s.l. fór ég í mitt þriðja próf hjá Greenfit. Ég var búin að hlakka ansi mikið til því ég kom mjög vel út úr prófi númer 2. Ég vissi að ég myndi ekki koma jafnvel út og síðast og það yrðu miklu minni breytingar því það er jú ekki hægt að bæta sig endalaust en ég hafði ekki miklar áhyggjur af því. Ég er að æfa vel, borða rétt og nefanda eins og enginn sé morgundagurinn. Ég myndi rúlla meira
mynd
18. febrúar 2021 kl. 21:06

Er heilbrigður lífstíll dulbúin megrun?

                      Ég er farin að heyra æ oftar. Heilbrigður lífstíll er megrun í dulargervi! Ef þetta snýst um þyngdartap þá er þetta megrun! Ef það eru boð og bönn þá er þetta megrun! Fyrir mér snýst lífstíll um að taka ákvarðanir um hvernig lífi þú vilt lifa. Ekki bara hvað snertir mataræði og hreyfingu, heldur allt lífið. Ég reyndi að meira
mynd
16. janúar 2021 kl. 14:34

Tekist á við brekkuóttann á Ísafirði

Við Brynjar skelltum okkur á 4ra daga skíðagöngunámskeið á Ísafirði fyrstu vikuna í janúar. Við áttum reyndar bókað í febrúar í fyrra en komust aldrei á námskeiðið þar sem það var ófært á Ísafjörð með flugi. Vala og Daníel sem reka Hótel Ísafjörð og eru með námskeiðin voru ekkert að ergja sig á því og við fengum inneignarnótu fyrir öðru námskeiði. Það finnst mér mjög góð þjónusta. Ég var reyndar meira
mynd
30. desember 2020 kl. 19:30

400 æfingar 2020

Þann 29. desember náði ég einu af markmiði ársins 2020 sem var að klára 400 æfingar á árinu. Þegar ég setti þetta markmið þá fannst mér það ekki mikið mál. Ég var að æfa fyrir Landvættinn, fyrir þríþraut og hálfan járnkarl. Það er í raun og veru ómögulegt að taka mikið færri æfingar þegar þú ert með 4 mismunandi greinar og þær skipta allar jafnmiklu máli. Auk þess tók ég oft brick æfingu á bretti meira
17. desember 2020 kl. 17:55

Hvað er heilsusmánun?

Til að vera alveg hreinskilin þá veit ég ekki alveg hvort að þetta orð sé til í íslenskri tungu eða hvort að ég sé að búa til nýyrði. Eins og með margt annað þá fer ég mínar leiðir. Ég er búin að vera lengi á leiðinni að skrifa þennan pistil en núna get ég ekki lengur setið á mér. Áður en þú hugsar, óttalega er konan pirruð ætli hún sé að byrja á túr þá er svarið alls ekki. Fór í legnám 2016 og meira
25. nóvember 2020 kl. 19:17

Heilsa er ekki heppni!

24.nóvember 2020 var komið að þessu. Það var milliuppgjör hjá Greenfit. Ég var búin að bíða eftir þessum degi með kvíðablandinni eftirvæntingu. Þetta var ekki ósvipað og stressið fyrir lokaprófið. Þú ert búin að læra vel alla önnina en stundum koma samt spurningar sem þú varst ekki búin að undirbúa. Ég var búin að gera allt rétt og samt var þessi undirliggjandi efi. Hvað ef. Hvað ef allt sem ég meira
19. nóvember 2020 kl. 10:49

Úr sófa í 10 km hlaup  

Ég fæ mjög mikið af fyrirspurnum um mína vegferð. Hvernig ég byrjaði og á hverju á að byrja, er það mataræðið eða er það hreyfingin? Ef ég hefði svarað þessu fyrir 3 árum þá hefði ég sagt: “gerðu smá breytingar á mataræðinu og settu forgang á hreyfinguna”. Ég er síðan búin að læra að það er alls ekki rétt. Mataræðið er líklega 90% af árangrinum og rólegar æfingar á lágu álagi skila meira
11. nóvember 2020 kl. 16:35

Nálgast kjörþyngd eftir 25 ár

... Cause for twenty four years I have been living next door to Alice Twenty four years, just waiting for a chance ... Margir kannast við þetta textabrot með Smokie. Eftir að ég byrjaði mína vegferð í átt að heilbrigðara lífi hefur þetta textabrot ítrekað komið upp í huga mér. Þegar ég byrjaði þá hélt ég að það tæki 12 mánuði að hreinsa til og ég yrði komin í kjörþyngd alheilbrigð eftir meira
6. október 2020 kl. 13:57

Miðaldra konan skráir sig aftur í Landvættina

Hvað er málið með það? Er ekki nóg að taka þessa Landvætti einu sinni?, jú fyrir flesta. Ég á reyndar vini sem hafa tekið Landvættina 4-5 sinnum en flestir gera þetta einu sinni. Ég skráði mig í Landvættina 2018 og markmiðið var skýrt. Klára Landvættina 2019 og finna mér svo kærasta. Einfalt og þægilegt. Eins og mörg frábær plön þá gekk þetta plan ekki alveg upp og viku fyrir aðra þrautina sem er meira
29. september 2020 kl. 17:20

"Feitt fólk skortir sjálfsstjórn"

“Ég skil ekki hvers vegna þú getur ekki grennt þig. Þú hefur svo mikinn sjálfsaga í vinnu, ert svo öguð og nærð svo miklum árangri þar”. Þetta sagði vinnufélagi minn við mig í spjalli okkar á milli fyrir mörgum árum. Ég man ekki alveg um hvað við vorum að ræða en þar sem hann er bæði kurteis og dagfarsprúður grunar mig að þetta hafi komið í kjölfarið á einhverju sem ég sagði, svo sem: meira
mynd
7. september 2020 kl. 16:29

Miðaldra konan er tifandi tímasprengja

Þann 12. ágúst 2020 átti ég 3ja ára afmæli. Hvernig getur 51 árs gömul kona átt 3ja ára afmæli? Jú ég átti 3ja ára heilsuafmæli. Þann 12. ágúst 2020 voru liðin akkúrat 3 ár frá því að ég var á fyrirlestri hjá David Goggins og heyrði hann segja þessa einföldu en ótrúlega áhrifaríku setningu: “Ef ég læsi ævisögu þína myndi hún hafa áhrif á mig, myndi hún breyta lífi mínu?” Alveg eins og meira
mynd
21. júlí 2020 kl. 9:56

Hvernig mælum við kvenleika?

  Vertu þú sjálfur, gerðu það sem þú vilt. Vertu þú sjálfur, eins og þú ert.   Margir þekkja þennan texta úr laginu Vertu þú sjálfur sem Helgi Björnsson söng með SSSól. Hversu frábært og auðvelt væri lífið ef við gætum haft þetta að leiðarljósi? Að allir mættu vera þeir sjálfir ... eins og þeir eru. Í síðustu viku framdi ég glæp, alveg hræðilegan glæp að mati sumra .... Í meira
mynd
17. júní 2020 kl. 21:27

Óvissuferð á Snæfellsnes

Þegar Covid breytti öllum ferðaplönum fjölskyldunnar á núlleinni þá varð að fara í nýtt plan. Ég tek yfirleitt ekki langt frí á sumrin. Það hentar betur vinnulega séð að taka frekar langar helgar og svo gott frí í janúar og á haustin. Ferðaplönin fyrir 2020 litu vel út fyrir krakkana. Viktor Logi var á leiðinni með MR í 2ja vikna ferð til Suður Afríku þar sem lífræðinemar ætluðu að vera í verklegu meira
mynd
28. maí 2020 kl. 10:50

Lenti í gifsi og fann sér kærasta

 Þegar ég lenti í gifsi síðasta sumar og datt tímabundið út úr Landvættaprógramminu, fannst mér tilvalið að nýta tímann til að finna mér kærasta. Ég sá fram á marga vikna æfingahlé og hefði því nægan tíma í þetta verkefni. Ég var ekkert viss um að það myndi ganga vel. Ég hafði farið á mörg deit eftir að ég skildi og á tímabili lýsti ég því yfir að allir einhleypir karlmenn á Íslandi væru meira
6. maí 2020 kl. 14:23

Að vera sérfræðingur í áhyggjum!

  Það er ótrúlegt að það séu ekki nema rúm 2 ár síðan ég sökk niður í mitt dýpsta hyldýpi og ég sá ekki framúr neinu. 2 ár frá því að ég lá heima í fósturstellingu. 2 ár síðan ég náði ekki andanum. 2 ár síðan ég gat ekki hugsað skýrt.  2 ár frá því að ég sökk neðar en ég hélt að ég gæti sokkið.  2 ár síðan ég tróð marvaða og náði ekki til botns. Hvernig er hægt að missa svona meira
mynd
19. apríl 2020 kl. 17:00

Fossavatnið sem var ekki gengið

Fossavatnið sem var ekki gengið Í gær laugardaginn 18.apríl átti ég að vera á Ísafirði að þreyta 50 km skíðagöngu ásamt hundruðum gönguskíðagarpa. Ég fór í fyrra, náði að klára og var ekki einu sinni síðust. Að vísu var sú ganga „bara“ 42 km vegna snjóleysis en ágætlega krefjandi engu að síður. Ég á ekki langan gönguskíðaferil að baki. Ég steig fyrst á gönguskíði í desember 2018. Það meira
mynd
13. apríl 2020 kl. 9:57

Óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum

                Margir virðast lenda í því að vera með óþolandi fólk á samfélagsmiðlunum sínum og það virðist engin leið til að losna við það. Ég heyri reglulega, jesús minn Ásdís, þessi facebook live sem þú ert að gera eru svo leiðinleg. Þú ert nú eitthvað alvarlega athyglissjúk. Mikið svakalega eru þessi eignamyndbönd sem þú ert að gera ömurleg. Þetta fólk meira
25. júlí 2019 kl. 12:58

Safnið af mínum bloggum

Hérna er listi yfir öll blogg og umfjallanir sem hafa komið eftir að ég breytti um lífstíl Viðtal á Bylgjunni: 24.05.2017 - https://www.visir.is/k/0fad84ba-f970-4c33-b929-10e63cda9d6c-1556095737611?fbclid=IwAR2nm3KjibbyEvICXVaSf5opc4yfMdqBAswdxTvXvKOCDZTAbL7ODpqfpSc Viðtal á Rás2: 24.07.19 meira
Ásdís Ósk Valsdóttir

Ásdís Ósk Valsdóttir

Fasteignasali, 3ja barna móðir og áhugamanneskja um heilbrigðan lífstíl og njóta lífsins til fullnustu

Meira